24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1879)

32. mál, landssmiðja

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér þykir mjög vænt um það, að hv. 1. þm. Reykv. skyldi verða svo glatt í geði, eins og hann sagði, að sér hefði orðið að þeirri játningu, sem hann þóttist fá frá mér áðan. En viðvíkjandi þeim samanburði, sem hann vildi gera á útboði á þeim verkum, sem landssmiðjan tæki að sér, og á þeirri byggingu, sem gerð er fyrir atvinnudeild háskólans, þá vil ég taka það fram, að sá samanburður er, eins og nú standa sakir, hrein fjarstæða. Hv. þm. veit það vel, að verkefni þau, sem smiðjur þurfa að leysa af höndum, eru mjög margvísleg, og að það eru mjög fáar smiðjur hér í Reykjavík, sem geta afkastað þeim verkum, sem til kunna að falla og útboð mundu verða gerð á. „Héðinn“ og „Hamar“ hafa nú slegið sér saman og munu geta tekið að sér margskonar verk, en mér er ekki kunnugt um, að hér séu til aðrar smiðjur, sem gætu tekið þau verk að sér. Hér er því ekki um neina slíka samkeppni að ræða sem er á milli húsameistara.

Hv. þm. fullyrti, að landssmiðjan yrði til þess, að ríkið yrði að borga við hærra verði þau verk, sem það léti gera þar. Ég skal nú ekki vera með neinar fullyrðingar, en ég tel mjög sterkar líkur til þess, að ef engin landssmiðja væri til þá þyrfti ríkissjóður að greiða miklu hærra verð fyrir öll slík verk heldur en ella. Eins og nú er ástatt, þá er því alls ekki til að dreifa, að í þessari grein sé um nokkra almenna samkeppni að ræða. Það má fyllilega gera ráð fyrir því, að þær smiðjur, sem hér væru, mundu slá sér saman, eins og þær tvær stærstu smiðjur, sem ég gat um áðan, hafa þegar gert. Og ef ríkið ætti þá ekki sjálft smiðju, yrði það að sæta hverju sem væri frá þessum smiðjum, eða fá verkin unnin í útlöndum. En ef menn geta verið sammála um það, að ríkið eigi smiðju, þá þarf að búa henni þá sérstöðu, að ekki sé hægt með allskonar aðferðum að gera aðstöðu hennar verri en annara. Það þarf þá yfirleitt að gera henni mögulegt að halda starfi sínu áfram og fá tæki til að geta leyst þau af hendi eins vel og aðrar smiðjur.

Annars er það svo með þessa frjálsu samkeppni, að hún er orðin lítið annað en talsháttur hjá Sjálfstfl. Það mun að vísu rétt, að hennar gæti enn hjá húsameisturum, eftir því dæmi, sem hann nefndi um húsabyggingu, þar sem skakkar, að ég hygg, um 65 þús. kr. frá því áætlaða verði og á lægsta tilboði. Hinsvegar veit ég, að iðnaðarstéttir hafa gert með sér félög og sett ákveðinn verðtaxta. Ég hygg t. d., að veggfóðrarar hafi bannað félögum sínum að bjóða undir taxta, og það er ekki óhugsandi, heldur beinlínis líklegt, að framhald verði á því í fleiri og fleiri iðngreinum. En ég er sammála hv. 1. þm. Reykv. um, að það hafi sýnt sig, t. d. við byggingu atvinnudeildarinnar, að það hafi verið sjálfsagt að bjóða hana út og hafa þann hagnað, sem af því hlauzt, en það má nánast skoða það sem undantekningu. En allir, sem ég hefi talað við um þá byggingu, telja, að verktakar geti ekki sloppið skaðlausir. Náttúrlega er það þeirra tap, en slíkt er ekki hægt til lengdar og ekki eðlilegt.

Önnur atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykv. sé ég ekki ástæðu til að drepa á. Aðalatriðið er það, að væri landssmiðjan ekki til, þá væri ríkið ofurselt öðrum smiðjum, sem þá gætu selt því allt eftir eigin geðþótta, og úr því landssmiðja er til, og þarf að vera til, þá er sjálfsagt að búa svo um hana, að hún geti gert verkin á sem hentugastan og ódýrastan hátt.