28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

103. mál, landsreikningurinn 1934

*Sigurður Kristjánsson:

Ég verð að þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið mér, en annað mál er það, að ályktanir hans eru út frá mínu sjónarmiði fjarri réttu lagi í þessu efni, því að það liggur í hlutarins eðli, að það kemur ekki til mála, að endurskoðendur landsreikninganna gangi nokkuð verulega gegnum reikninga ríkisstofnananna. Ef það ætti að vera gert, þá þyrfti að starfa að því af og til allt árið. En nú er ekki hægt að snúa máli sínu til endurskoðenda landsreikninganna hérna, því að sá eini þm., sem starfar að henni, á ekki sæti í þessari d.

Ég hefði vissulega haft ástæðu til þess að biðja um skýringu á mörgu fleira en þessu. Það er í sjálfu sér þakka vert, að hæstv. ríkisstj. hefir skipt um bifreið, þegar hún fann það út, að þessi bifreið var dýr í rekstri. Maður veit ekki ennþá, hvernig hún reynist; það kemur fram á reikningum síðar, en undarlegt er það, ef ríkið á einar 6 fólksbifreiðar, að þær skuli ekki vera taldar þess virði að koma á efnahagsreikning. Og jafnvel þótt ekki séu teknar með í reikninginn þær 4, sem til eru fyrir utan bíla landssímans og vegamálastjóra, þá eru þær ekki síður þess virði að koma á efnahagsreikning heldur en t. d. smájarðarkot upp á 1–2000 kr. því að þessir bílar eru ekki af verra tæginu; og ég skil ekki, að þessir 4 bílar séu minna virði en 20000 kr., þegar þeir eru nýir. En hvað sem því líður, hvort rétt er að setja þessa bíla á efnahagsreikning eða ekki, þá er það víst, að ef almenningur í landinu, sem nú á við margvíslega örðugleika og skort að búa og sendir Alþingi beiðni um hjálp í baráttunni, ef þetta fólk mætti sjálft meta það, hvort með þessum bílasæg sé verið að fullnægja brýnni þörf en þeirri þörf, sem því er oft synjað um af þinginu, þá er ég ekki í vafa um það, að almennt yrði litið svo á, að það mætti fækka þessum bílum a. m. k. um helming. Það mætti vel hafa 2 fyrir utan bíla vegamálastjóra og landssímastjóra. Ég hefi fyrir satt, að bifreiðaeftirlitsmennirnir skoði bílana hér í bænum, og þá get ég ekki skilið, hvað þeir hafa að gera við tvo bíla, nema ef þeir nota þá í hinar og aðrar snattferðir með ýmsa gæðinga hæstv. stj. Ég spurðist fyrir um og fékk mann til þess að athuga, hvaða bílar væru skráðir hjá ríkinu, og kom þá í ljós, að þeir voru 5 fyrir utan bíla vegamálastjóra og landssímastjóra, og þar af hefi ég komizt að raun um, að þessi svokallaði vegaeftirlitsmaður hefir fengið nýjan bíl. Annars veit ég ekki, hvað þessi maður á að gera; hann á víst að passa, að vegirnir liggi kyrrir — það er verið að tala um að færa vegina, einum á t. d. að snara suður á Reykjanes — eða hann á að líta eftir því, hvað fram fer á vegunum, en mér er sagt, að það hafi ekki þótt fært að láta hann aka í þessum vagni, sem hann hefir haft, og þess vegna var keyptur nýr bíll handa honum, og mun það vera svo, að hann eigi að hafa þennan skrautvagn, þegar hann er á betri vegunum í nánd við höfuðstaðinn, en grófa vagninn, þegar hann fer upp í sveit. Ég hefði nú haldið, að þessum virðulega manni hefði átt að nægja gamli rokkurinn fyrst um sinn, sérstaklega ef hann kemst ekkert út af malbikuðu vegunum í fína vagninum. Þetta er nú aukaatriði, en hitt er ekki aukaatriði, að það þarf að koma endurskoðun landsreikninganna í betra horf og láta hana fylgjast með rekstri ríkisstofnananna. Hefði einhver af endurskoðendunum átt sæti í þessari d., þá hefði ég spurt um ýmislegt fleira, eins og t. d. kostnaðarhlið áfengisverzlunar ríkisins. Kostnaðurinn við hana hefir aukizt ákaflega síðustu ár. Það er bannað með lögum að auglýsa áfengi hér á landi, en svo hefir áfengisverzlunin séð sér færi á að auglýsa ýmislegt, sem ekki telst til áfengis; auglýsingareikningur áfengisverzlunarinnar hefir komizt hæst hátt á annað þús. kr., þangað til hann loks komst hátt á sjötta þús. kr. Ég skal taka það fram, að ég fór til fjöllesnasta blaðs landsins, Morgunblaðsins, og spurðist fyrir um það, hvað mikið hefði verið auglýst hjá því síðasta ár frá þessu fyrirtæki; það var auglýst fyrir 125 kr., en auglýsingareikningur áfengisverzlunarinnar er allur 5646 kr.

Ef til vill getur hæstv. ráðh. gefið skýringar á þessu, en mér þykir ekki ólíklegt, að hann mundi segja, að hann treysti forstjóra verzlunarinnar og endurskoðendunum til þess að athuga þetta, svo að það má vera. að hann sé ekki við því búinn að gefa skýringu.