08.05.1936
Neðri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

34. mál, atvinna við siglingar

*Emil Jónsson:

Ég gerði ljósa grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, er það var rætt hér í d., og skýrði þá, hvað fyrir okkur hv. 3. þm. Reykv. vekti með brtt. okkar. En ég vil þó benda á það nú, hve mjög það, sem hv. þm. Ísaf. heldur fram nú, stingur í stúf við þá röksemdafærslu, sem áður var höfð hér fyrir hækkuninni á smálestatölunni úr 60 upp í 75. Þá var það aðalröksemdafærslan, að kennsla yrði aukin stórum undir hið minna próf, og því ættu að fylgja því aukin réttindi, og því þótti ekki fært að samþykkja þetta fyrr en búið væri að samþ. frv. um stýrimannaskólann. Rökin fyrir hinum auknu réttindum voru þá aðeins, eins og ég hefi sagt, aukin fræðsla, en nú á að færa þessi auknu réttindi yfir á menn, sem notið hafa miklu minni fræðslu í hinum gamla skóla, og láta þá njóta sama réttar og þá menn, sem eftirleiðis útskrifast úr nýja skólanum. Ég verð að mótmæla slíkum blekkingum harðlega. Það var sýnt fram á það við umr. hér í d., hversu hæpið væri að veita þessi auknu réttindi, en ég vænti þess, að þeir, sem vildu miða þau við hið nýja próf. haldi fast við skoðun sína á þessu atriði a. m. k. og samþykki því brtt. okkar hv. 3. þm. Reykv.