28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

81. mál, iðja og iðnaður

*Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Hafnf. gerði ráð fyrir, að ég mundi standa höllum fæti gagnvart iðnaðarmönnum á Akureyri. Ég hygg nú, að það sé óþarfi fyrir bann að hafa áhyggjur út af mér í þessum efnum. Ég þekki marga iðnaðarmenn á Akureyri; þeir eru margir stilltir og skikkanlegir menn, sem skilja, að þeim er bezt að gæta hófs. Einmitt í kringum Akureyri hefir verið mikið byggt, og við það hefir verið leitað aðstoðar faglærðra manna af Akureyri. Það er því kannske sízt þar ástæðu fyrir iðnaðarmenn að óttast breyt. Hitt veit ég, að iðnaðarmönnum á Akureyri og annarsstaðar er ljóst, að á meðan menn geta sjálfir byggt sín hús, hvort heldur sem er peningshús, íbúðarhús eða hænsnahús, með aðstoð verkamanna, þá standa þeir varnarlausir, en því hefir verið gengið framhjá. Hv. þm. Hafnf. hefir ekki, þrátt fyrir ákafa sinn í þessum málum, gengið svo langt að taka réttinn til húsabygginga alveg af öllum nema iðnaðarmönnum. Ég vil taka undir það með hv. þm. Borgf., sem hann benti rækilega á, en ég gerði ekki nógu vel, að úti um sveitir landsins er mikið til af mönnum, fjöldi af lærðum smiðum, sem um leið eru múrarar, þó þeir séu aðeins fagmenn á einu sviði. Þessir menn, sem sumir hafa byggt fjölda húsa, yrðu að gera svo vel hér eftir, ef fylgt yrði frv., að kveðja með sér fagmenn til annara starfa en trésmíði, en þetta verður bara ekki gert. Hv. þm. Hafnf. hafði algerlega rangt fyrir sér, þegar hann var að tala um, að ég vildi heimila mönnum að vinna slík störf, sem ekki hafa fagþekkingu. Það, sem ég vil, er ekki nein heimild, því það er engu breytt; ég vil aðeins halda því, sem er hvað snertir sveitir og kauptún, en hann vill banna þessum mönnum að vinna þessi störf. Hv. þm. benti á, sem mun vera rétt, að það er mikilsvert að kenna mönnum að mála af hæfum mönnum, og ýmislegt fleira er gott, að kennt sé af hæfum mönnum. En hann vildi telja það hina mestu firru, sem ég var að gefa í skyn, að ekki þyrfti lærða menn til að kenna börnum að stafa, en hélt því fram, að ungbörnum mætti ekki kenna að stafa af öðrum en kennurum. En er ekki til hópur manna, sem kann að lesa? Og það er alveg hliðstætt að kenna börnum að stafa eins og þegar málari kennir fyrstu sporin í dráttlist.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta og ekki viðhafa neinar málalengingar, fremur en ég er vanur í málum, sem ég tala um. En ég get ekki annað að síðustu en kvittað fyrir sendingu hv. þm. Hafnf. eða þau ummæli hans, að það gilti einu, þó að einu sinni kæmi maður með viti út í sveitirnar, og þakka fyrir þau bæði fyrir mína hönd og annara, sem úti á landsbyggðinni búa.