08.05.1936
Efri deild: 69. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í C-deild Alþingistíðinda. (2289)

128. mál, alþýðutryggingar

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég er mótfallinn því, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Efni frv. er, að breyta svo l. um alþýðutryggingar, að ellilaun séu greidd mönnum á aldrinum 60–67 ára. Er það borið fram sem ástæða fyrir frv. þessu, að fólk, sem er á þessum aldri, hafi verið svipt ellistyrk með nýju lögunum. Því er til að svara þessu, að enginn átti kröfu eða rétt á styrknum, heldur átti þetta fólk aðeins rétt til þess að koma til greina við úthlutun hans, en hún fór eftir geðþótta eða mati hreppsnefnda.

Eins og kunnugt er, þá er ákvæði í lögum um alþýðutryggingar, þar sem tekið er fram um ellilaun eftir 67 ára aldur, og auk þess er ætlazt til, að þeir, sem misst hafa helming starfsorku sinnar eða meira, fái örorkulífeyri. Á því er enginn vafi, og hefi ég látið athuga það, að meiri hl. þess fólks, sem er á aldrinum 60–67 ára, hefir misst helming starfsorku sinnar og kemur því til greina við styrkveitingu þessa. — Ég hefi áður lýst því yfir — að ég ætla hér í þessari hv. d. — að þessi kafli laganna sérstaklega hefir verið athugaður með tilliti til úthlutunar ellilauna og örorku. Ég ætla, að ekki sé ástæða til þessara breyt. nú, heldur sé betra að sjá í framkvæmdinni, hverju breyta þarf, og verður það athuguð fyrir haustið og áreiðanlega lagt fyrir næsta þing. Þetta frv. hér er stórkostleg breyt. á lögunum, því það raskar öllum útreikningum, því ef aldurstakmarkið er fært niður í 60 ár, eykst tala þeirra, sem verða á ellilaunum, um 5000 manns, eða um 60%. Ég vil því leggja á móti því, að þetta frv. fái afgreiðslu nú.