24.02.1936
Neðri deild: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2328)

22. mál, námskeið fyrir atvinnulausa unglinga

Flm. (Sigurður Einarsson):

Frv., nokkuð svipað því, sem hér liggur fyrir, bárum við fram nokkrir alþýðuflokksmenn á síðasta þingi, og málið er því, að því er ég ætla, hv. þm. kunnugt. — Þær breyt., sem eru á þessu frv. frá því, sem það áður lá fyrir, eru í stuttu máli þær, að hreppsnefndum og bæjarstjórnum er heimilt að efna til þessara námskeiða að vetri til, og er ætlazt til, að ríki og bæjarfélög eða hreppsfélög kosti þau í sameiningu. Með þessu er það lagt í vald bæjarstjórna og hreppsnefnda, hvort þær yfirleitt ráðast í þessar framkvæmdir eða ekki, og verður þó hlutaðeigandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd að meta þörfina á að gera eitthvað fyrir atvinnulausa unglinga, eða hvort fjárhagsgetan er þannig, að hreppsfélagið eða bæjarfélagið geti ekki lagt út í það.

Þá er líka í 3. gr. nokkuð vikið frá því, sem áður var, þannig að námsgreinar eru taldar upp, en rýmkað svo, að leggja má stund á hverja þá námsgrein, sem henta þykir. Þetta er gert með tilliti til þeirrar reynslu, sem þegar er fengin hér í Reykjavík, þar sem rekinn hefir verið skóli fyrir atvinnulausa unglinga og þeir hafa stundað líkamlega vinnu, svo sem jarðrækt suður í Fossvogi, jafnframt bóklegu námi. Að öðru leyti er þetta hugsað svo einfalt sem verða má. Bæjarstjórnir og hreppsnefndir eiga að hafa frumkvæðið að þessum framkvæmdum, þar sem þess er talin þörf; að öðru leyti fara skólanefndir með framkvæmd þessara mála. Svo er ákvæði um, að skýrsla skuli send fræðslumálastjóra á hverju ári. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um það, hver nauðsyn er á að skapa atvinnulausum unglingum einhver viðfangsefni. Ég vil bara minna á, að nú um þessar mundir eru Englendingar að hækka skólaskyldualdurinn, m. a. til þess að girða fyrir, að unglingum sé varpað út í atvinnuleysið áður en þeir eru komnir á þann aldur, að þeim sé minni hætta búin af spillandi áhrifum eða að það sé nokkur von að koma þeim fyrir í atvinnulífinu.

Ég vil svo segja eins og ég sagði þegar málið kom fyrst fyrir þessa hv. d., að mér skilst, að þér geti ekki verið stofnað til stórra útláta fyrir ríkissjóð, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður styrki þessi námskeið með átta krónum fyrir mánaðarkennslu hvers nemanda. Það verður á tiltölulega fáum stöðum, sem þetta kemur til framkvæmda fyrst um sinn, og ég ætla, þar sem bæjarstjórnum og hreppsnefndum er falið að eiga frumkvæðið að þessu, að fjárhagur þeirra sjálfra verði nægilegt aðhald með, að ríkissjóði verði ekki bundnar óhæfilegar byrðar. En ég vil taka það fram, að fjölda manna í þessum bæ sárnaði, hvernig fór um þetta mál á síðasta þingi. En héðan af verður ekki staðið á móti þessu máli, þar sem Reykjavíkurbær hefir hafizt handa um framkvæmdir í þessum efnum.

Ég geri svo að till. minni, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til menntmn.