05.03.1936
Neðri deild: 16. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

52. mál, skipun prestakalla

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég gat við því búizt, að hv. þm. V.-Sk. léti ljós sitt skína einmitt í þessu máli. Hann hefir nú, síðan aldur færðist nokkuð yfir hann, gerzt ákaflega mikill kirkjunnar maður. Reyndar er löng stund síðan hann fór fyrst að hafa afskipti af þessum málefnum. En eins og vænta mátti, þegar alvara lífsins eykst með meiri reynslu, þá er eðlilegt, að hann láti þessi mál til sín taka enn meir en nokkru sinni fyrr, og segi ég þetta ekki hv. þm. til lasts á nokkurn hátt. En það er skýring á þeim hræringum, sem verða í sál hans í hvert skipti, sem minnzt er á kirkju og kristindóm og klerkastétt þessa lands. En mér þykir leiðinlegt, að ræður þessa hv. þm. byggjast á allmiklum misskilningi. Ég get vitaskuld ekkert um það sagt, hverskonar vitneskju hann hefir fengið af mörgum og margháttuðum fundahöldum frá því að síðasta þingi lauk. Ég þekki dálítið til þeirra, og þau eru svona heldur fábreytt. Fundirnir víðast hvar mjög fámennir, og þær ályktanir, sem þar voru gerðar, sumar hverjar a. m. k., sem ég þekki til, voru með mjög lítilli þátttöku, jafnvel talsvert innan við tuttugu. Fá atkv. hafa verið á móti. Hafi fundargestir verið eitthvað fleiri en atkvæðatölur sýna, hafa hinir sem sagt setið hjá og ekki látið málið neitt til sín taka. Og sumstaðar hefir orðið að kveðja til þessara fundahalda oftar en einu sinni, til þess að koma á þau einhverju nafni. Og þar, sem fundahöldin hafa staðið, eru það sumpart prestar og svo þeir menn, sem eru líkrar skoðunar og hv. þm. V.-Sk., sem hafa gengizt fyrir þeim og vilja halda tölu kirkna og presta, eða jafnvel fjölga prestaköllum og prestum í landinu. Enda er vel skiljanlegt, að einmitt þeir, sem standa á móti breyt., muni helzt láta þetta málefni til sín taka. Það er því nokkuð lítið upp úr þeim fundahöldum leggjandi og samþykktum, sem gerðar hafa verið.

En út af því, sem hv. þm. V.-Sk. skaut til mín, að mér væri kunnugt, hvað gerzt hefði í Árnessýslu, þá er það rétt, að ég veit um afstöðu fólks þar, og ég veit líka, hvernig það mundi greiða atkv., ef til atkvgr. kæmi um þessi mál.

Mér dettur ekki í hug að væna hv. þm. V.Sk. um, að honum gangi nokkuð annað en gott til. En ég held, að það sé hæpið fyrir menn, sem vilja, að kirkjan skipi þann sess meðal þjóðarinnar, sem henni ber, og hafi þann virðuleik, sem prestastéttinni ber og hæfa á. — ég held það sé hæpið mjög að halda þessu í sömu skorðum og verið hefir. Það er opinbert leyndarmál, það þekkir hv. þm. V.-Sk. eins vel og ég, að þjóðin hefir ekki ráð á því að launa öllum sínum embættismannafjölda og starfsmannafjölda, svo að vel sé, og eina ráðið til þess að geta búið vel að þeim nauðsynlegu starfsmönnum, sem þjóðin þarf, er, að þeir séu ekki fleiri en minnst verður komizt af með. Ef farið verður að okkar till. og vel verður búið að prestastétt landsins, þá þori ég að fullyrða, að prestarnir verða hæfari til síns prestsstarfs en nú, og kirkjan skipi veglegri sess á eftir meðal landsmanna einmitt fyrir fækkunina. Með því móti á að verða þannig að prestum búið, að þeir geti gefið sig alla og óskipta að sínu starfi, lagt fram þá fjármuni, sem þarf til þess að afla sér góðs og nægilegs bókakosts, til þess að auðga og efla anda sinn til þeirra starfa, sem embætti þeirra heimtar. Áreiðanlegt er það, að fjöldamargir prestar í landinu nú hafa ekki getu til að afla sér þess bókakosts, sem nauðsynlegur er.

Hv. þm. V.-Sk. var að tala um goluþyt, sem sumir menn blésu upp til meðmæla sínum málum. Ég vil nú alls ekki kalla því nafni þær samþykktir, sem komið hefir verið á í landinu frá síðasta þingi út af þessu máli, en hitt er vitanlegt, að það eru einmitt margir úr prestastéttinni og svo einstöku maður, sem er þeirrar skoðunar, að halda beri í þessu horfi, sem hafa staðið að þessum samþykktum, en allur þorri þjóðarinnar hefir látið sig málið engu skipta hingað til. Það þori ég að fullyrða.

Hv. þm. V.-Sk. spurði, til hvers væru kirkjur og prestar. Ég mætti kannske varpa spurningunni aftur fram: Til hvers eru kirkjur og prestar? Eru kirkjurnar til þess, að að þeim sé búið eins og tíðkast, mikið sakir fátæktar fólksins í prestaköllunum, og til að standa oftast tómar og til þess að messa ekki í þeim? Eru kirkjurnar til þess? Og eru þá prestarnir til þess að skrá messuföll og njóta sín ekki í sínu starfi eins og þyrfti að vera? Ég hefi nú þá skoðun á kirkjunni og hennar starfsemi, að hún ætti að vera til alls annars, og það veit ég líka, að fyrir hv. þm. V.-Sk. vakir. En við verðum að horfast í augu við þann veruleika, sem opinberar skýrslur sýna, sem haldnar eru af prestunum sjálfum og ég vil á engan hátt vefengja. Þær hafa þá sýnt á undanförnum árum 3 þús. messuföll á landinu og stundum talsvert þar yfir. Sum árin hefir jafnvel farið svo, að harla litlu munar á messutölu og messuföllum. Ef kirkjurnar eiga að vera fyrir almenning, sem þær vissulega eiga að vera, og prestastéttin á að starfa fyrir almenning og ná til fólksins svo sem heyrir þeirra verkahring til, þá verður áreiðanlega að skipast eitthvað frá því, sem tíðkazt hefir langa stund. Og það er mesti misskilningur á ferð hjá þeim mönnum, sem andmæla þessari breyt. á þessari skipun, að það þurfi endilega að gæta því minni áhrifa af starfi presta sem þeim fækkar. Því að aðstaða til þess að gegna þessu starfi, miðað við það, sem áður var, er svo gersamlega ólík, samgöngur allt aðrar og ólíku betri, og við höfum nú útvarpið, sem hefir mikla þýðingu í þessu efni.

Það er af tveimur ástæðum sem þetta mál er borið fram. Það er bein fyrirskipun af hálfu þingsins til mþn. að gera till. til sparnaðar, eftir því sem hún sér frekast fært. Nú hefir hv. þm. V.-Sk. andmælt tveimur þeim atriðum, ef ekki fleirum, sem helzt gætu leitt til sparnaðar í þessum till. n. Og hann hefir hingað til ekki bent á neitt, sem komið gæti í staðinn. Ég hygg hann sé þó sammála n. um það, að kostnaður við embættis- og sýslunarmannahald sé það mikill, að gott væri, ef hægt væri eitthvað að draga úr þeim kostnaði. Þá verða menn að gera uppástungur um þau efni til sparnaðar, sem menn ætla, að skaði ekki eða skaði sem minnst. Ég skal t. d. víkja að till. um barnakennara. Samkv. þeim má fækka þeim um liðugt 100, án þess að kennslan á nokkurn hátt bíði hnekki við þá ráðstöfun. En einmitt með slíkri breyt. er hægt að búa betur að þeirri stétt, sem er þjóðinni öldungis nauðsynlegt.

Ég hefi þá drepið á nokkur atriði og ætla ekki af minni hálfu að fjölyrða frekar. Hv. þm. sagði, að komið hefði fram fávizka í þessu eins og svo mörgu öðru hjá n. Þesskonar köpuryrði læt ég mér í léttu rúmi liggja. Þessum hv. þm. er nokkuð tamt að grípa í frekara lagi til fullyrðinga. Og ef hann vill finna orðum sínum stað með því, að gleymzt hafi að telja 2–3 sóknir, sökum þess að skýrsla hagstofunnar bar ekki með sér breyt. í þessu efni, þá má hann alveg velja því það heiti, sem honum finnst bezt við eiga. Og ef hann með þesskonar ummælum ætlar að bjarga málstað sínum og þeirra, sem hann talar fyrir, hirði ég ekki um það. Án þess að ég vilji sveigja sérstaklega að þeirri stétt, sem hv. þm. heyrir til, þá býst ég við, að ef farið er gegnum dómasafn og athugaðar forsendur og áyktanir, þá finnist ýmislegt, sem ekki er eftir rökréttri hugsun a. m. k., svo að ekki sé meira sagt. Hér á ég við það, að mannanna verkum er náttúrlega í ýmsum efnum meira og minna ábótavant, og um þau geta fyrst og fremst verið skiptar skoðanir. En gildi skoðananna fer ekki ætíð fyrst og fremst eftir fullyrðingum þeirra, sem flytja þær fram.