21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í C-deild Alþingistíðinda. (2607)

68. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. ráðh. spurði mig, hvers vegna ég hefði ekki nefnt árið 1934 áðan. Ég nefndi einmitt það ár til samanburðar við árið 1932, en yfir árið 1935 eru ekki til skýrslur, eins og hann veit sjálfsagt, en hæstv. ráðh. er orðinn svo djúpt sokkinn í blekkingarvaðal sinn, að hann sér ekki, hvað þessi spurning hans er heimskuleg. Hæstv. ráðh. getur ekki hnekkt því, að skýrsla forstjóra S. Í. S. ber það með sér, að eignir fyrirtækisins hafa aukizt um 1,2 millj. króna á meðan verið er að leggja starfsemi annara verzlunarfyrirtækja í rústir, og ofan í þetta ætlar hann að staðhæfa, að allt gangi jafnt yfir, en það gat hann ekki sannað með einu orði í ræðu sinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekki rétt, að S. Í. S. hefði fengið sinn gjaldeyri frjálsan, heldur hefði hann verið notaður til þess að borga skuldir, sem hefðu skapazt sökum vörukaupa erlendis. Ég veit ekki, hverskonar hænuhausar hann heldur, að séu hér í d., ef hann heldur, að það sé ekki öllum kunnugt, að verzlunarfyrirtæki nota gjaldeyri einmitt til þess að greiða andvirði erlendra vara með honum.

Hæstv. ráðh. var að segja, að það væri komið á ágætt samkomulag á milli kaupsýslumanna annarsvegar og S. Í. S. hinsvegar. Ég gat um það áðan, að í þessari skýrslu nefndarmanns innflutnings- og gjaldeyrisnefndar er talað um, að þessir aðiljar hafi komizt að góðu samkomulagi. En það er hæstv. ráðh., sem stendur á móti því, að það samkomulag megi gilda. Annars held ég, að hæstv. ráðh. flaski á því, hvernig hann talar um kunnugleika sinn í þessum efnum. Þegar þetta mál var fyrir nokkrum dögum til umr., harðneitaði hann, að hann vissi, hvernig þessum málum væri komið nú í ár. Auðvitað veit hann þetta; hann segist bara ekki vita það, til þess að koma í veg fyrir, að hann sé krafinn sagna um það.

Mér kemur ekki til hugar að misnota tímann hér, enda stendur óhaggað það, sem ég hefi áður sagt, þrátt fyrir nasablástur hæstv. ráðh. Það stendur óhaggað, að innflutningshöftunum er misjafnlega beitt, eftir því hvort í hlut eiga kaupmenn eða kaupfélög. Ég vil benda á, að það væri ekki svo mikið út á þetta meðlimasystem hæstv. ráðh. að setja, ef hann ekki reiknaði það rammvitlaust út. Hann gæti t. d. heimtað, að 1/3 hluti Reykvíkinga hefði allan innflutninginn til Reykjavíkur, því hann tekur ekki aðeins meðlimatölu kaupfélaganna, heldur margfaldar hana með þremur eða fjórum. Hann ætlar öllum einhleypum mönnum úti um sveitir, sem eru meðlimir í kaupfélögunum, að hafa fjögra manna fjölskyldur. Slíkt og annað eins er bara búið til, til þess að geta misboðið kaupsýslumönnunum. Það er nú sannað, að S. Í. S. vill ekki taka á móti svona miklum sérréttindum. Það sér sér það ekki fært að taka á sig svo mikla áhættu til þess að drepa kaupsýslumennina. Það er hæstv. ráðh. einn, sem er gersamlega skilningslaus á það, hvaða þýðingu það hefir að hafa verzlunina í góðu lagi. Hann vill misbjóða S. Í. S. með svo miklum innflutningi, að það gæti komið því á kaldan klaka, til þess að koma kaupsýslumönnunum í ógöngur.