14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

98. mál, vátryggingarfélög fyrir vélbáta

*Pétur Ottesen:

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að ég óskaði eftir því að fá tækifæri til að bera fram brtt. við frv., og þess vegna var umr. frestað. Ennfremur benti ég á ýms atriði í frv., sem mér þótti vera áfátt. En hitt er ekki rétt hjá hv. frsm., að gagnrýni mín og aths. við frv. stafi af því, að ég hafi ekki kynnt mér málið. Gagnrýni mín byggist á því, að mér finnst, að þau kjör, sem frv. gefur kost á, séu erfiðari en þeir kostir, sem bátaeigendur hafa átt við að búa þar, sem ég þekki til. — Ástæðan til þess, að ég er horfinn frá því að flytja brtt. við frv. að þessu sinni, er sú, að mér finnst það vera höfuðatriði þessa máls, að ekki megi ákveða skyldutryggingu fyrir vélbáta svona alveg út í loftið, eins og hér virðist vera gert; m. ö. o., ég vil láta fara fram athugun á því, hvað félagið þarf að krefjast hárra iðgjalda af félagsmönnum til þess að vera öruggt, áður en skyldutryggingin er ákveðin. Ég fæ ekki séð, að það geti verið svo erfitt fyrir sérfróða menn, sem væri falið að ákveða takmörk hvers áhættusvæðis, að binda sig við þau, og reikna þá fyrst og fremst út í tölum, hversu há iðgjöldin þurfa að vera á hverju áhættusvæði fyrir sig. En þá gætu bátaeigendur borið það saman við þau kjör, sem þeir eiga nú við að búa, hvort heldur sem bátar þeirra eru í beinni tryggingu hjá vátryggingarfélögum eða tryggðir í félögum þeirra sjálfra, og síðan endurtryggðir hjá samtryggingunni. Mér finnst, að það muni vera réttast að fresta málinu og láta þessa rannsókn fara fram fyrir næsta þing. Og það, sem ég meina með þessari frestun, er það, að slík rannsókn verði einskonar framhald af því, sem nú hefir verið gert til undirbúnings málinu. Hlutaðeigendur mundu þá láta til sín taka, þegar sú rannsókn lægi fyrir. Það er með tilliti til þess atriðis, að ég legg til, að málinu verði frestað, eins og farið er fram á með dagskránni, og þar sem mér er það kunnugt, að vilji vélbátaeigenda er þessi, þá get ég ekki horfið frá því, að málið sé afgr. á þennan hátt.

Það er ekki höfuðatriði fyrir mér, að iðgjöldin séu beint tekin upp í frv., heldur hitt, að það liggi fyrir rannsókn á því, hve háar kröfur í þessu muni felast með iðgjöld og önnur skilyrði, sem verða sett, og er þá tímabært að gera brtt. við einstakar gr. frv., þegar þessi undirbúningur hefir verið inntur af hendi.

Ég vil benda á það í sambandi við ákvarðanir um áhættusvæði, að gera má ráð fyrir, að innan sama áhættusvæðis verði mismunandi góðar legur og misjafnt öryggi fyrir báta. Á sumum stöðum er búið að leggja mikið í sölurnar og skapa bátum nýtt öryggi, en á öðrum stöðum hefir lítið verið gert og bátarnir eru þar í miklu meiri hættu. En afleiðingin af þessu er sú, að ef sama iðgjald er alstaðar innan hvers áhættusvæðis, þá verður að færa nokkuð af áhættu þeirra, sem eru á ótryggari stöðum, yfir á hina, sem eru á þeim stöðum, sem búið er að kosta miklu til að gera örugga. Það er því ekki að ófyrirsynju, þótt t. d. Akurnesingar, sem hafa lagt mikið í kostnað til þess að auka öryggi báta sinna, vilji sjá það, hvort þeir með þessu nýja fyrirkomulagi yrðu ekki að taka á sig áhættu annara, í stað þess að þar, sem þeir vátryggja nú, fá þeir tekið tillit til þess, sem þeir hafa gert. Ég vil benda á þetta sem grundvöll fyrir því, að nánari rannsókn sé látin fara fram, og ætla, að það geti ekki talizt ósanngjarnt, þótt óskað sé eftir nánari athugun, og óska ég þess vegna eftir, að dagskráin sé samþykkt.