02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2765)

125. mál, framfærslulög

*Jakob Möller:

Það er dálítið undarlegt, að þetta frv. skuli koma fram nú á þinginu, því að eins og hv. þm. A.-Húnv. minntist á og öllum hv. þm. er í fersku minni, þá er þetta breyt. á lögum, sem sett voru á síðasta þingi, og a. m. k. öll höfuðatriði þess frv. voru einmitt sérstaklega til nákvæmrar rannsóknar á síðasta þingi, því að þau voru, að ég hygg, allákveðin ágreiningsmál milli Alþfl. annarsvegar og annara flokka hinsvegar. Þess vegna finnst mér það furðulegt, að nú skuli tveir alþýðuflokksmenn eftir nokkurra mánuða bið koma fram með brtt. í þá átt að fá knúð fram þau atriði, sem þeir urðu í minni hl. með á síðasta þingi. Ég skil ekki í, að það sé réttlátt að líta svo á, að það varði svo miklu að hraða málinu nú, að það megi ekki bíða þeirrar athugunar, sem meiri hl. allshn. óskaði eftir. Mér er kunnugt um, að sá meiri hl. hefir sent málið til umsagnar framfærslun. Rvíkur, og geri ég ráð fyrir, að það mætti með góðum vilja afgr. þá umsögn svo tímanlega, að málinu ætti ekki að stafa veruleg hætta af því. Að öðru leyti er það náttúrlega alveg nauðsynlegt, að full grein sé gerð fyrir efni frv. af báðum hlutum n., þegar ekki er allskostar samkomulag um það. Og þar sem það er meiri hl. n., sem ekki telur sig tilbúinn að svo stöddu að lýsa sinni afstöðu, þá finnst mér það sjálfsagður hlutur, að málinu sé frestað, til þess að meiri hl. n. fái tíma og tækifæri til þess að rannsaka þetta mál til hlítar og komast að ákveðinni niðurstöðu um afstöðu sína til þess.