02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

125. mál, framfærslulög

*Pétur Ottesen:

Mér þykir harla einkennilegur sá söguburður, sem hv. 1. landsk. er með, að það muni þurfa að taka flokksafstöðu til þessa máls. Ég hefi ekki heyrt þess getið í mínum flokki. Ég held, að þetta séu bara slúðursögur, sem hv. 1. landsk. lætur sér sæma að bera inn í þingið til þess að nota til framdráttar sínu máli. Mér kemur það einkennilega fyrir — og ég verð að mótmæla því —, þegar hv. þm. er að setja það fram, að það sé búið að taka afstöðu í flokkunum til þessa máls. Ég veit, að það er ekki í Sjálfstfl., en ég veit ekki, hvað gerist í öðrum flokkum.

En út af því, sem hér er fram komið um það, að láta nú þetta mál ganga til 3. umr., þrátt fyrir að meiri hl. þeirrar n., sem málið hafði til athugunar, sé ekki reiðubúinn til þess að taka ákvörðun um málið, þá vil ég skjóta máli mínu til hæstv. forseta, ef hann mætti vera að því að hlusta á það, sem ég vildi segja. — Gangur mála hér á þingi er þannig, eins og kunnugt er, að við 2. umr. er tekin ákvörðun um efni hvers frv., og gert með þeim hætti, að hver grein frv. er borin undir atkv. Mér virðist þess vegna hljóta að leiða af sjálfu sér, að slík atkvgr. um hvert einasta atriði hvers frv. eigi ekki að fara fram fyrr en a. m. k. nefndarhlutar eða n. öll sé búin að taka afstöðu til málsins. Það geta náttúrlega verið undantekningar frá þessari meginreglu, ef um það er að ræða, að n. ætlar að sýna sig í því að sitja á máli til þess að reyna að koma því fyrir kattarnef. Þá er réttmætt að taka í taumana, ef n. ætlar að beita sínu áhrifavaldi með þeim hætti. En ég held, að ekki sé neinu slíku til að dreifa hér, þar sem þessu máli var vísað til allshn. fyrir nokkrum dögum. Og frummælandi meiri hl. n. hefir fært gild rök fyrir því, á hvaða rökum það byggist, að meiri hl. hefir ekki gefið út nál. um málið. Ég vildi þess vegna skjóta því til hæstv. forseta, hvort honum fyndist ekki rétt að halda sig við reglur og tilgang þingskapa um meðferð mála á Alþingi og láta nú niður falla að greiða atkv. um málið við 2. umr., þangað til meiri hl. n. er búinn að fá það álit, sem hann hefir leitað eftir, svo að málið geti þá sætt þinglegri meðferð að, þessu leyti til.

Annars vil ég benda á, í sambandi við það, sem sagt hefir verið um, að hér sé um að ræða breyt. á lögum frá síðasta þingi, að það er algerlega sneitt framhjá þeirri gr. framfærslulaganna, sem vitað er um, að verður mjög mikill ágreiningur út af, hvernig beri að skilja. Og það er gefið, að t. d. á næsta þingi muni þurfa að breyta löggjöfinni út af þeim mismunandi skilningi, sem fram kemur á þessari gr., þegar farið verður að framkvæma lögin. Ég held þess vegna, að frá þessu sjónarmiði séð sé of snemmt að fara nú að gera breyt. á þessari löggjöf, og bíða ekki eftir því, að hún sé framkvæmd í eitt ár, svo að betur sjáist, hverjar breyt. er nauðsynlegt að gera.

Auk þessa er þetta frv. að ýmsu leyti varhugavert, þar sem það kippir í burt heimild, sem mikill meiri hl. þm. á síðasta þingi var á einu máli um, að nauðsynlegt væri að hafa í sambandi við þetta mál.

Það er svo ekki fleira, sem ég hefi ástæðu til þess að segja. Mér þykir það gott, að form, Sjálfstfl. er kominn hér inn, þar sem hv. 1. landsk. leyfði sér að bera fram fullkomnar slúðursögur um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa máls.