02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (2768)

125. mál, framfærslulög

*Frsm. 1. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil mótmæla því, sem hv. þm. Borgf. hélt fram, að ég væri að bera slúðursögur inn í þingið. Ég hafði aðeins eftir það, sem tvær konur úr mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur sögðu mér, að þær hefðu rætt um málið við forustumenn þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna hér á þingi, og að það hefði verið vel tekið í málið af þeirra hálfu. Þetta vænti ég, að þessar tvær konur, sem sögðu mér, muni standa við, hvenær sem er. Hinsvegar vil ég og vænta þess, að þessar tvær konur hafi sagt mér rétt frá. En það lá alls ekki í mínum orðum, að flokkarnir hefðu verið búnir að taka afstöðu til málsins, heldur að forustumenn flokkanna hefðu fengið vitneskju um málið og væru því fyrir sitt leyti velviljaðir. Þetta vænti ég að fá staðfest, þegar hv. þm. G.K. tekur til máls. Ég skal og geta þess, að það var hæstv. forsrh. og hv. þm. S.-Þ., sem konurnar töluðu við af hálfu Framsfl., en hv. þm. G.-K. af hálfu Sjálfstfl.