25.02.1936
Efri deild: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Ég verð að lýsa undrun minni og ánægju yfir því, að undirbúningur þessa máls hefir gengið svo greiðlega sem raun ber vitni um. Og mér virðist líkur fyrir því, að þetta mál muni ná fram að ganga hér á þingi í einhverri mynd, svo framarlega að þingið geti orðið sammála n., sem undirbúið hefir þetta frv. En það finnst mér nú ekki ólíklegt, þar sem sú hv. n. er skipuð mönnum úr öllum þremur stærstu flokkunum á þingi, sínum manninum úr hverjum fl., — mönnum, sem vænta má, að séu í svo nánu samræmi við skoðanir sinna flokka, að ólíklegt má teljast, að frv., sem þeir verða sammála um, rekist hatramlega á stefnur flokkanna. Ég álít mjög heppilegt, ef hægt væri að ráða þessu máli nú til lykta, því að enginn vafi er á því, að að þessu máli verður unnið, þangað til einhverju heildarfyrirkomulagi verður komið á um þetta vandamál. Mér virðist þessi mþn. hafa tekið starf sitt á raunhæfan hátt. Er ákaflega mikill munur á starfsháttum hennar og annarar hv. mþn., sem á sínum tíma safnaði utan um sig öllum lifandi ósköpum af skýrslum, sem sú n. sjálf svo notaði alls ekki; bara lét prenta þær. Og svo urðu þær ekki að nokkru gagni fyrir nokkurn mann á eftir. Þetta voru skýrslur um starfsmenn ríkisins og laun þeirra og kjör. Svo þegar hv. fjvn. tekur málið fyrir á eftir, leitar hún til hinna sömu manna og stofnana um þessar sömu skýrslur aftur. Þetta sýnir, hve störf n. eru oft ákaflega þýðingarlaus. En þessi hv. n. virðist hafa tekið á þessu máli á miklu raunhæfari hátt.

Ég get sagt fyrir mitt leyti um frv. í heild sinni, — ég hefi að vísu aðeins lesið það lauslega í gegn —, að ég býst við, að ég muni geta fylgt því yfirleitt. Þar fyrir vil ég gjarnan láta það í ljós, að ef ég ætti einn að ráðstafa þessum málum, þá mundi ég gera það mjög á annan hátt. En það er nú einatt svo, að það er meira ástandið í landinu og svo þær stefnur, sem uppi eru á hverjum tíma, sem ráða úrslitum mála, en ekki skoðanir einstakra manna. Ég vil fyrir það fyrsta víkja að því, að hér er í raun og veru verið að leggja nýja tekjustofna á landsmenn. Það má segja, að ekki sé um hækkun á gjöldum að ræða, því að þessir nýju tekjustofnar komi í staðinn fyrir gjöld, sem áður voru greidd á annan hátt, en það eru nýir tekjustofnar samt. Það er bent hér á þrjá flokka nýrra tekjustofna, án þess að nokkuð sé hróflað við þeim eldri. Rétturinn til að jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum er jafn eftir sem áður. Það er að vísu svo, að svo framarlega að útgjöldum bæjar- og sveitarfélaga er haldið í sama horfinu, þá koma nýju tekjustofnarnir til frádráttar útsvörunum, þannig að þau geta orðið þeim mun lægri. En reynslan bendir á, að allar slíkar breyt. feli í sér einskonar tilhneigingu til meiri eyðslu. Hér eru sveitar- og bæjarfélögunum, sérstaklega bæjarfélögunum, veittir allríflegir tekjuaukar, en hinsvegar geta þau jafnframt þanið gjaldþol manna til hins ýtrasta með útsvörunum, svo að í þessu felst viss hætta. En við því getur n. ekki gert; það eru einstakar bæjarstjórnir, sem þar reynir á. Mér þykir mjög vænt um, að bæði í nál. og framsögu 1. flm. er það tekið skýrt og ótvírætt fram, að hér er ætlazt til, að þeim nýju tekjum, sem frv. heimilar að innheimta, verði varið til þess að létta útsvarsbyrðarnar. Ég hefi heyrt þær raddir utan þings, að hér sé verið að útvega bæjunum nýja tekjustofna til þess, að þeir geti ráðizt í auknar framkvæmdir og aukin útgjöld; því er áreiðanlega þörf á að taka þetta skýrt fram, að það er ekki tilætlun n., og sennilega ekki heldur þingsins, að stofnað sé til álaga á menn umfram það, sem verið hefir, heldur að hér sé aðeins um breyt. á álagningaraðferðinni að ræða. Það, sem mér finnst í rauninni óeðlilegast við þá aðferð, sem hér er stungið upp á, er það, að hér skuli eiga að blanda saman hinum tveimur aðaltekjuöflunarleiðum, beinum og óbeinum sköttum, bæði hjá ríkinu og bæjar- og sveitarfélögunum. Frá sjónarmiði skynseminnar er eðlileg regla, að hver félagsheild hafi aðeins leyfi til að skattleggja sína eigin þegna. Þessu getur þjóðfélagið náð bæði með beinum og óbeinum sköttum. Gjöldin, sem það leggur á, lenda að öllu leyti á landsins eigin börnum og er varið til sameiginlegra þarfa þeirra allra. Þessu er öðruvísi háttað um einstök sveitar- og bæjarfélög. Það er erfitt að ná þeirra sköttum inn öðruvísi en að ganga beint að hverjum borgara og leggja á hann persónulega eða hans eignir, án þess að um leið séu skattlagðir einhverjir aðrir heldur en þegnar viðkomandi sveitar- eða bæjarfélags. Virðist því í fljótu bragði eðlilegasta leiðin, að ríkið hirði þá skatta, sem ómögulegt er að vita með vissu, hvar koma niður innan þjóðfélagsins, en eftirláti bæjar- og sveitarfélögunum þá skatta, sem hægt er að vita, hvar koma niður, nefnilega beinu skattana. Ef nú þörf er á að auka tekjur bæjar- og sveitarfélaganna, sýnist liggja beinast við, að ríkið afhendi þeim eitthvað af þeim sköttum, sem innheimtir eru beint, t. d. eitthvað af tekju- og eignarskattinum eða fasteignaskattinum, en tæki upp almenn óbein gjöld í staðinn, ef nauðsyn krefði, til sinna þarfa. Mér sýnist, að þetta hefði verið einfaldasta leiðin, e. t. v. ekki einföldust í framkvæmdinni, en réttlátasta leiðin til þess, að hver og einn borgaði aðeins til þarfa fyrst síns þjóðfélags og svo síns bæjar- eða sveitarfélags. Ég býst við, að þessu hefði verið hægt að koma í kring að því er snertir kaupstaðina, en það er hætt við, að sveitarfélögin nái ekki inn sínum gjöldum með beinu sköttunum, sem þegar hafa verið reyndir til hins ýtrasta. Það þýðir t. d. ekki að gefa sveitarfélögunum eftir tekju- og eignarskattinn, því að það kemur hvort sem er svo lítið af honum úr sveitunum. Fasteignaskatturinn er líka lítill þaðan. Þá virðist eðlileg leið að létta einhverjum byrðum af sveitarfélögunum, til þess að þurfa ekki að vera með þá fremur óeðlilegu aðferð, að borga mönnum fyrst peninga, til þess að þeir geti aftur borgað sama aðilja, eða að ríkið, í stað þess að eftirláta sveitarfélögunum eitthvað af tekjum og láta þau svo aftur greiða part af ýmsum útgjaldapóstum, eins og t. d. berklavarnakostnaðinum, taki beinlínis að sér þau útgjöld, sem heildin þarf þannig að greiða. En ég sé, að n. hefir tekið aðra leið, og ég skal ekkert segja um það nema ég hefði e. t. v. verið með í að fara þá leið, ekki af því, að mér finnist hún skynsamlegri eða rökréttari. heldur til þess að beygja mig fyrir því raunverulega ástandi, að það er sennilega hægra að framkvæma málið á þann hátt, eins og oft vill verða, að léttara er að leysa málin á óviturlegri hátt heldur en menn gætu í rauninni fundið beztan.

Um þær einstöku leiðir til tekjuöflunar, sem hér er stungið upp á, er það að segja, að ég býst sérstaklega við, að III. kafli, um vörugjald, muni reynast að ýmsu leyti varhugaverður í framkvæmdinni. Þar er um svo geysilega flókið efni að ræða, að ég þykist vita, að engin n. og ekkert þing geti gengið frá því svo, að þar komi ekki í ljós fjöldi missmíða. Þar er ekki aðeins gripið inn í öll viðskipti, heldur einnig vöruflutninga á milli staða innanlands. Þetta er svo flókið og margþætt atriði, að ég þykist vita, að þar komi í ljós ýmiskonar hræðileg ósanngirni, sem menn vilja bæta úr eftir því sem reynslan sýnir heppilegast. Það er strax auðséð, að 5. flokkurinn, með 50 aura gjaldi af hverjum 100 kg., verður meginflokkurinn, ruslakistan, sem menn geta hnoðazt í næstu áratugina, til þess að kippa þar út einu og öðru, sem menn sjá, að nær ekki nokkurri átt, að þar sé, og setja í 1. flokk, eða undir 19. gr., þar sem taldar eru þær vörur, sem undanþegnar eru gjaldinu. Eins þykist ég vita, og það er n. eflaust einnig ljóst, að það er ákaflega hætt við, að meira eða minna af vörum sleppi framhjá þessu gjaldi; um það er ekki að sakast, það ætti ekki að þurfa að verða í stórum stíl.

Þá verð ég að segja, að það er ekki eðlilegt að gera þennan grundvallarmun á því, hvort vörurnar eru fluttar á sjó eða landi. Munurinn er aðeins sá, að menn treysta sér ekki að ná í þær vörur, sem fluttar eru á landi. Það er t. d. ekki gott að sjá, hvaða eðlismunur er á því, við skulum segja, þegar kominn er góður bílvegur vestur í Búðardal í Dalasýslu, hvort vara er flutt þangað á bíl frá Borgarnesi eða alla leið héðan, eða hvort hún er flutt þessa leið á skipi, og er náttúrlega mjög einkennilegt, að í öðru tilfellinu sé flutningurinn háður skattgjaldi, en í hinu skattfrjáls. Ég býst við, að ýmislegt í sambandi við þetta vörugjald geti komið til með að standa lengi, en þar er áreiðanlega efni í margvíslegar breyt. og leiðréttingar á næstu árum, enda hefir n. haft þar ákaflega lítið við að styðjast, annað en þessa litlu reynslu, sem fengizt hefir af vörugjöldunum í sambandi við hafnargjöld. Hún hefir því orðið að spinna þetta mest út úr eigin höfði, en maður veit, að ímyndunaraflið er nú minna virði en almennt er álitið; yfirleitt verða menn að styðja sig við reynsluna.

Hvað snertir skattinn af ríkisstofnunum, þá sé ég náttúrlega, að hann miðar í rétta átt. Ég flutti hér á síðasta þingi frv. um að hækka hann úr 5% upp í 10%, og áttu þau 10% að ganga öll til þess staðar, þar sem stofnanirnar eru starfræktar. Nú er ætlazt til, að 5% lendi í jöfnunarsjóð svokallaðan; úr honum á svo n. að úthluta, án þess að um það séu frekari reglur settar. Það ræður af líkum, að ég sem þm. Reykv. er ekki ánægður með þetta fyrirkomulag. Skattur af ríkisstofnununum er í stórum dráttum gjaldstofn, sem tekinn er af Reykjavík. Hefði mér því fundizt eðlilegt að hækka gjaldið upp í 10%, og taka 5% að auki í þennan jöfnunarsjóð. Það hefði alls ekki verið of miklu offrað af ríkisins hálfu til þess að bæta ofurlítið upp það, sem það sviptir bæjarfélagið tekjum með atvinnurekstri sínum. Þennan jöfnunarsjóð álít ég út af fyrir sig gott fyrirtæki, til þess að hlaupa undir bagga með þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem örðugast eiga í hvert skipti. Ég vildi óska, ef fram kæmi till. í þessa átt, að hún fengi sæmilegar undirtektir; þegar ríkissjóður er á annað borð farinn að gera ráðstafanir til þess að bæta úr þessari þörf sveitar- og bæjarfélaga, er ekki of mikið, þótt hann þurfi að sjá af svona lítilli upphæð í því skyni.

Út í einstök atriði frv. skal ég ekki fara við þessa umr. En almennt vil ég segja það um þennan sjóð, að ég held, að það þyrfti að setja þeim mönnum, sem eiga að úthluta honum, einhverjar reglur um, hvernig þeir eiga að gera það. Það virðist sem þeir eigi að vera hér um bil einráðir um það samkvæmt frv. Einu ástæðurnar, sem færðar eru fyrir því, eru þær, að þessa þriggja manna n. velji Alþingi, svo að ætla megi, að sjónarmið stjórnmálaflokkanna komi þar fram. Herra minn trúr! Ef ekki væru nú önnur sjónarmið í landinu heldur en sjónarmið stjórnmálaflokkanna! Hvenær ætli sjónarmið stjórnmálaflokkanna kæmu til með að láta t. d. Reykjavík fá úr sjóðnum? Ég held það yrði á seinni skipunum. Mér finnst, að það væri ekki óeðlilegt að hafa ákvæði í þá átt, að taka bæri tillit til þess við úthlutun úr sjóðnum, hverjir greiða mest í hann eða missa mest við það, að ríkið hefir tekið í sínar hendur þennan verzlunarrekstur, sem greitt er af í sjóðinn. En það er eins og hv. flm. sagði og einnig er tekið fram í grg., að það má búast við ýmsum breyt. á þessu frv.; ég vil þó ekki óska eftir þeim stórvægilegum, því að ég er hræddur um, að þær gætu eins orðið í lakari áttina eins og þá betri, þótt vafalaust vilji þingið koma að einhverjum breyt., stærri eða smærri.

Eitt atriði finn ég alls ekki í þessu frv., sem ég bjóst endilega við, að verða mundi fyrir, ef á annað borð væri farið að tala um tekjustofna handa bæjar- og sveitarfélögum. Einn af drýgstu tekjustofnum bæjar- og sveitarfélaga hefir verið verzlunin á hverjum stað. Það er segin saga, að hvar sem verzlunin hefir dregizt saman, hafa komið fram fjárhagsörðugleikar. Við getum tekið bæjarfélög eins og Ísafjörð, Hafnarfjörð, Akurureyri, Reykjavík; hvernig mundi fara, ef verzluninni væri kippt burtu frá því að vera verulegur og fullgildur tekjustofn? En það, sem er að kippa þessum tekjustofni burtu, er það, að verzlunin færist í hendur aðilja, sem er undanþeginn því að þurfa að borga útsvar. Nú ætla ég ekki að fara að vekja upp þá gömlu deilu, sem stóð um það, þegar kaupfélögin voru undanþegin útsvarsskyldu. Það má vel vera, að ástæða hafi verið til þess, meðan þau voru að vinna sig upp, á þeirri gróðaöld, þegar auðvelt var að ná inn tekjum á annan hátt. En ég hélt endilega nú. þegar verið er að leita með logandi ljósi eftir nýjum tekjustofni handa bæjar- og sveitarfélögum, þegar sverfa verður til stálsins, og þegar þessar verzlanir eru orðnar svo voldugar, að þær mega heita einvaldar á stórum svæðum, þá gæti ekki þessi n. eða Alþingi komizt framhjá því að láta þennan aðilja taka sinn þátt í byrðunum með öðrum. Ég skal játa það, að með vörugjaldinu og aðflutningsgjaldinu, sem frv. gerir ráð fyrir, er þessi aðili nokkuð dreginn inn í hringiðuna, nokkur gjöld tekin af honum til þessara þarfa, en ekki meiri heldur en af öðrum, sem verzlun reka á sömu stöðum. En mér finnst, að það verði að koma til álita, einmitt þegar stendur á eins og nú, er verið er að ráða þessum málum til lykta, hvort ekki beri að taka það til nýrrar yfirvegunar að láta samvinnufélögin annaðhvort greiða útsvör á sama hátt og aðra, eða þá a. m. k. ríflegar og á annan hátt heldur en gert er nú. Það er ómögulegt að neita því, að sú tilhögun, sem nú er á skattgreiðslum samvinnufélaga, virðist mjög einkennileg og óheppileg, þar sem gjöldin lenda þyngst á þeim félögum, sem skapa sér mest þyngsli, t. d. með stórum byggingum, en hin, sem fara gætilegar með efni sín eða fengið hafa þægilegri aðstöðu, sleppa miklu billegar í þessu efni. Virðist það a. m. k. ekki bera vitni um mikla kreppuerfiðleika, ef menn vilja ekki líta við að athuga þetta atriði.

Ég skal ekki á neinn hátt skipta mér af því, til hvaða n. þetta mál fer. Ég er víst haldinn alveg sömu auðmýktartilfinningu eins og hv. 1. flm., því að ég er líka í fjhn. og játa með honum, að það er mjög mikill vafi á, til hvorrar n. frv. á að fara, allshn. eða fjhn. Þó hygg ég réttara að vísa því til allshn., því að fjhn. er ætlað aðallega að athuga tolla- og skattamál ríkisins. Þótt aldrei nema hér sé um skatta- og tollamál að ræða, þá er það hreint sveitarstjórnarmál.