24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (2812)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. 4. minni hl. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég ætla að byrja á að víkja nokkuð að meðferð málsins í n. Málið var tekið fyrir jafnskjótt og það barst til n., lesið yfir og rætt. En það kom fljótlega fram, að hugir manna skiptust mjög um þýðingarmikil atriði frv. Það var gert svo ráð fyrir, að brtt. skyldu koma fram, mig minnir á 3. fundi n. Lagði ég þá þegar fram brtt. við I. kafla frv., sem var meir orðalagsbreyt. en efnisbreyt., þó ekki veruleg. Ég lýsti ennfremur yfir á sama fundi, hver afstaða mín væri til frv. í heild, eins og ég hefi gert grein fyrir í nál., nefnilega að ég myndi ekki geta fylgt II. kafla frv., III. og IV. kafla, þungamiðju þess að því er tekjurnar snertir.

Ég hygg, að dráttur á afgreiðslu málsins úr n. hafi mest stafað af því, að örðugt hafi verið að finna nokkurn samfelldan meiri hl. innan n. Og ég tel vafasamt, að 1. minni hl. hefði á nokkurn hátt getað samlagað sig hinum öðrum minni hl., sem vildu ganga nokkuð lengra, eftir því sem nú er komið á daginn, svo að afleiðingin af því, að málið hefir tafizt þetta í n., er þær sundurleitu skoðanir, sem yfirleitt ríkja í þessu máli. Ég held það hafi verið bein tilhneiging hjá 4 nm. a. m. k. að kljúfa n. Ég sagði hv. 1. minni hl., að ég teldi ekki vert fyrir hann að bíða eftir sérstöku nál. frá mér, því að ég mundi yfirleitt koma á eftir hinum, enda skar hann sig úr í n. og byrjaði á að lýsa sinni afstöðu.

Þetta er í stuttu máli saga málsins. En það hefir og sína forsögu, eins og kom fram í ræðu formælanda hv. 2. minni hl., hv. 2. þm. S.-M., því að ég get ekki betur séð en að frá frv. hafi verið þannig gengið samkv. nál. mþn., að það hafi í raun og veru enginn meiri hl. verið, nema þá um einhver minniháttar atriði. Hefi ég bent á það í mínu nál., sem stendur skýrum orðum í áliti n., að það hafi verið svona meir tilhneiging til þess að skrifa undir, án þess að samfelld skoðun og hugur ríkti um það, sem undir var skrifað. Á 12. síðu í grg. n. má svo skilja, sem ágreiningur hafi verið um heila kafla frv., og menn áskilja sér rétt til jafnvel að breyta þeim og bera fram svo og svo margar brtt. Og þessi ágreiningur kemur svo að sjálfsögðu inn í allshn. og ristir þar dýpra inn í flokkana, eins og þeir eru skipaðir á Alþingi.

Þá skal ég víkja örfáum orðum að þeim köflum, sem ég get ekki fallizt á. Það er þá fyrst kaflinn um vegaskattinn. Skilst mér meiri hl. n. sammála um að samþ. hann. Er hann, eins og allir þekkja, lögfestur nú í hreppum og kauptúnum, svo að þessi lögfesting nær eingöngu til bæjarfélaga, sem ekki hafa hann nú. Ef við lítum á Rvík, þá er vegaskattur gífurlega mikill fyrir allar götur bæjarins. En skattur þessi er lagður á skattborgarana í útsvörunum, og ég get ekki fundið, að réttlátara sé að fara að nefskatta menn um þetta gjald frekar en önnur gjöld, þegar það er nú yfirleitt vilji manna að afnema nefskattafyrirkomulag svo sem við verður komið. Mætti benda á mörg dæmi þess, að þetta kemur mjög ranglátlega niður í ýmsum tilfellum. Af þessum og fleiri ástæðum er ég mótfallinn þessum kafla. — Um vörugjaldið get ég verið því stuttorðari, að hv. 2. þm. S.-M. og hv. 10. landsk. hafa rætt um það. Við erum í aðaldráttunum sammála um, að ótækt sé yfirleitt að leggja á þetta gjald. En sjónarmið okkar yfirleitt kann að rekast nokkuð á. Ég get að sumu leyti viðurkennt rökin fyrir þeirra andstöðu. En þó að slíkt gjald sem þetta virðist í fljótu bragði ekki ýkjahátt, þá leggst það á stórt og smátt af öllum nauðsynjum hvers einasta manns, og óhjákvæmilega hækkar allt verð á útlendri vöru. En ég tel illa hægt að halda áfram miklu lengra á slíkri braut en gert hefir verið. Hv. 1. minni hl. hefir að nokkru dregið úr þessu gjaldi og undanskilið nokkrar vörutegundir, sem upprunalega voru í frv., en hyggst í staðinn að hækka vörugjald á öðrum liðum, sem eftir standa. Er ég í sjálfu sér jafnmótfallinn þeirri stefnu og hinni. — Um IV. kafla, aðflutningsgjaldið, sem er ætlazt til, að sé tekjustofn sveita, býst ég við, að megi togast á aftur og fram; í fyrsta lagi, hvort rétt sé að leggja það á, og í öðru lagi, hvernig eigi að skipta því. Hitt er vitanlegt, að þetta gjald er ekki nema nýr skattur á nauðsynjavöru alla, ætt og óætt, sem hlýtur að skapa aukna dýrtíð. Meðal annars af þeirri ástæðu vil ég ekki fylgja þessu. Ég kem að því seinna, hvort þetta sé aðkallandi nauðsyn. En ég leyfi mér að varpa fram þeirri spurningu: Hvar á að stöðvast á þeirri braut að leggja á aðfluttar nauðsynjavörur almennings? Þeirri stefnu, sem hér er á ferð, hefi ég og flokkur sá, sem ég tilheyri, yfirleitt verið á móti, þ. e. á móti neyzlusköttum, nema þegar öll önnur sund virðast lokuð til þess að fá upp í þær nauðsynlegu greiðslur, sem við verðum að inna af hendi. Því til stuðnings vil ég benda á, að fyrir Alþingi hafa legið frv. frá einstökum þm. bæjarfélaga, sem fela í vér beiðnir um að mega afla þannig tekna fyrir bæjarfélögin, og höfum við alþýðuflokksmenn yfirleitt alltaf verið á móti þeirri stefnu. (MG: Hvernig var með klauflaxinn?). Klauflaxinn; jú, klauflaxinn var hækkun á svona gjöldum; en þar með er ekki sagt, að slíkt standi um aldur og ævi. En um leið og verið er að gera grundvallarreglur um tekjustofna fyrir bæi, þá er hæpið, að verði hægt að nema slíkt úr gildi. En með batnandi árferði mun klauflaxinn að sjálfsögðu taka miklum breyt. — Um V. kafla get ég sagt, að á hann mun ég fallast, að undanteknu ákvæðinu um 1% gjaldið, og tek undir orð hv. 10. landsk. Mun ég greiða atkv. með því að fella þetta niður.

Þá kem ég að því eina, sem ég tel, að hægt sé að gera í þessu máli. Ég sé ekki betur en málið sé komið á það stig, að það geti ekki fengið þá meðferð í d., sem að nokkru gagni má verða. Mestar líkur eru til, að stór hl. tekna þeirra, sem frv. ætlar til bæja og sveita, verði felldur niður. Fyrirfram er séð, að III. kafli verður felldur niður. Og ég tel tvísýnt, hvort hækkunin, sem lögð er til í IV. kafla, nái samþykki. En þá stendur ekkert eftir nema heimild í l. kafla fyrir hreppa og bæjarfélög, sem það vilja nota. Er þá ekki eftir ýkjamikið af frv., og er vafasamt, að rétt sé fyrir d. að afgr. málið. Ég bendi á það í mínu nál, að ekki sé fyllilega séð, hvernig geta bæjar- og sveitarfélaga verði eftir að sú löggjöf, sem nýlega hefir verið samþ. og jafnvel þetta þing þarf að samþ., verkar á bæjarfélög og sveitir. Til dæmis er kreppuhjálpin, sem gert var ráð fyrir að veita 1½ milljón til. Það er vitanlegt, að það gerir nokkru léttara um árlegar útgjaldabyrðar sveitarfélaga, þegar þessi skuldajöfnun er komin á. Og ennfremur er ég viss um, að sveitirnar munu með nýju framfærslul. fá mjög mikinn létti á sínum gjaldabyrðum, en þær gjaldabyrðar færast að nokkru yfir á bæina. En alþýðutryggingarlögin verka væntanlega þannig, að færri þurfa að leita á náðir sveitarinnar um framfærslu. En meðan ekki er sýnt í veruleika, hvernig þessi löggöf tekur til að verka á hag bæja og sveita, þá tel ég fullfljótt að fara að leggja á nýja skattstofna, sem vitanlegt er að mæta mjög mikilli andstöðu meðal búaliðs í landinu. Og ég tel, að n. hafi haft fullskamman tíma til að kafa jafndjúpt og gera þarf í slíku máli sem þessu, að leggja grundvöll að skattstofnum fyrir bæi og sveitir fyrir komandi ár. Ég geng þess ekki dulinn, að það geti farið svo, að einhver þurfi að brjóta odd af oflæti sínu áður en lýkur og ganga inn á þau svið, sem óljúft var að ganga inn á áður, eins og að leggja á verzlun meira en gert er, þ. e. alla verzlun í landinu. Í öðru lagi er ekki fyllilega rannsakað, hvort ekki sé hægt að finna möguleika fyrir skattstofna, sem koma öðruvísi niður en þetta, sem koma ekki eins þungt niður á þá, sem mjóst hafa bökin. Ég áfellist ekki n. fyrir að geta ekki kafað svo djúpt í þessu máli sem þörf var á. Það er nú svo komið, að það verður innan skamms að fara fram hrein skipting milli bæja og sveita annarsvegar og ríkisins hinsvegar hvað skattstofna snertir. Og þá getur svo farið, að sveitarfélög verði að taka við sumum þeim skattstofnum, sem ríkið hefir nú. Mþn. gat ekki rannsakað þetta mál sem þurfti vegna takmarkaðs tíma. Hinsvegar lít ég svo á, að þetta mál þyrfti meðal annars að undirbúa á þann hátt að leita umsagna sveitar- og bæjarstjórna í landinu um það, hvaða leiðir þær teldu heppilegar. Ég segi ekki, að skyldugt væri að fara eftir þeim, en í umsögnum þessum víðsvegar að af landinu ætti að felast nokkur leiðbeining. — Ég hygg það vera mjög nátengt þessu máli, að atvmrh. hefir látið stofna til endurskoðunar á útsvarslögunum. Fyrir því hefi ég lagt til, að málið verði ekki hespað í gegnum þingið nú, heldur verði því frestað um eitt ár og undirbúið. Þá hygg ég, að hægt eigi að vera að sjá, hve knýjandi þörfin er að afla sveitum og bæjum nýrra tekjustofna.