29.04.1936
Efri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (2826)

30. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Bernharð Stefánsson:

Frá mínu sjónarmiði var þessu máli spillt við 2. umr. að því leyti, að dregið var úr möguleikum til tekjuöflunar fyrir sveitar- og bæjarfélög. Ég hefði þó getað unað því, að vörugjaldið var fellt niður, enda var ég á móti því í mþm. En ég hefði talið nauðsynlegt, og ég veit, að sama er um hina mþnm., að hafa aðflutningsgjaldið nokkru hærra og öðruvísi skipt en nú er ætlazt til. Ég hafði hugsað mér að bera fram brtt. um þetta milli umr., ef brtt. 2. minni hl. yrðu samþ. En ég sá það á atkvgr. við 2. umr., og hefi heyrt það á hv. þdm., að slíkar brtt. myndu hafa fallið. En þótt ég líti svo á, að frv. hafi að þessu leyti verið spillt, verð ég þó að telja, að frv. sé allmikils virði enn, þrátt fyrir allt. Ef áætlun mþn. er lögð til grundvallar. og ég hefi ekki heyrt, að hún hafi verið rengd ennþá, eru möguleikar eftir frv. nú til þess að afla bæjar- og sveitarsjóðum tekna, sem nema 1265000 kr. Þessi upphæð finnst mér vera svo mikils virði fyrir bæjar- og sveitarsjóðina, að ekki megi gera neitt, þar sem nú er orðið svo áliðið þings, til þess að breyta málinu og tefja það, heldur verði að leggja allt kapp að koma því áfram eins og það er nú, eða sem næst því. Af þessari ástæðu hefi ég fallið frá því að bera fram víðtækar brtt., enda þótt ég hefði talið þess þörf. Ég hefi aðeins borið fram eina litla brtt. á þskj. 451, um að gjald síldarverksmiðjanna verði 0,8%. Ég minntist á þetta við 2. umr. í sambandi við þá till. allshn. að lækka gjaldið niður í 0,5%. Ég stakk upp á 1%, en fer milliveg með þessari till. minni. Þar sem ég vil vona, að hér finnist fleiri menn sanngjarnir en ósanngjarnir, vænti ég þess, að þessi brtt. fái góðar undirtektir.

Ég mun ekki fara út í brtt. annara þm., enda stendur nm. það nær en mér. Um brtt. á þskj. 458, frá hv. 4. þm. Reykv., er það að segja, að mér virðist 1. og 2. brtt. ekki stórvægilegar. En ákaflega finnst mér undarlegt orðalag á fyrstu brtt., t. d. skilgreiningin á því, hvað þorp sé, og fæ ég ekki séð, að það taki orðalagi frv. fram. En annars skal ég ekki skipta mér af þessum till. um fasteignaskattinn. Hinsvegar vil ég víkja örlítið að 3. brtt., um vegaskattinn, því að hún kemur mér ákaflega furðulega fyrir sjónir. Ég hefði vel getað skilið þá afstöðu hv. þm., að hann vildi engan vegaskatt hafa. En samkv. till. hans á vegaskattur að gilda í þeim kaupstöðum utan Reykjavíkur, sem hafa undir 2000 íbúum. Mér skilst, að hér sé nú ekki nema um tvo kaupstaði að ræða, Seyðisfjörð og Norðfjörð. En hvers vegna á að taka þá kaupstaði út úr? Hvers vegna er þessi heimild ekki látin gilda alstaðar í kaupstöðum, eða þá kaflinn alveg felldur niður? Ég skal ekki halda þessum kafla fram, en ef slíkur skattur er réttmætur í sveitum, — hvers vegna er hann það þá ekki líka í kaupstöðum? Hv. 4. þm. Reykv. kvaðst vera andvígur slíkum sköttum sem þessum, enda ætti að leggja á menn eftir efnum og ástæðum. En þetta frv. er nú einmitt samið og fram komið vegna þess, að sú aðferð hefir ekki fullnægt þörfum sveitar- og bæjarfélaga. Hann sagði ennfremur, að með þessum hætti væru sumir þeir menn skattlagðir með vegaskatti, sem ekki væru lögð á útsvör. Þetta kann að vera, en er þá víst, að þessir menn hafi aldrei dagstund afgangs til þess að vinna af sér skattinn, þótt þeir hafi ekki peninga til að greiða hann með? — Þá er sú brtt., að fella niður III. kaflann, um aðflutningsgjald. Hv. flm. sagði, að ekki væri gerlegt að skattleggja nauðsynjavörur almennings. Ég man nú samt ekki betur en að þessi hv. þm. hafi greitt atkv. með einhverju svipuðu áður. Svo er annað. Það heyrast aldrei frá þessum hv. þm. né öðrum þeim, sem honum standa næst, nokkrar till. um að lækka útgjöld sveitar- og bæjarfélaga. Þeir eru á móti því að skattleggja nauðsynjar, — en hvar á að taka peninga til þess að gera það, sem þeir heimta, að sé gert? Ég játa það fúslega, að það er ekkert skemmtilegt að skattleggja nauðsynjar, en það verður annaðhvort að gera, að draga úr kröfunum, eða að afla fjár til þess að hægt sé að fullnægja þeim. Það er hægt að gera sig góðan með því að segjast heimta atvinnubætur, en segja svo, þegar kemur að því að afla fjár, til þess að hægt sé að verða við þessari kröfu: „Ég er á móti þessu“. Hann segist vera á móti þessu at principástæðum og að sinn flokkur sé alltaf á. móti því. Ég vil minna hann á það, að hv. 6. landsk., sem átti sæti í mþm., var ekki hvað sízt fylgjandi því að hafa þann kaflann, sem nú er búið að leggja niður, og þar stóð til að skattleggja nauðsynjar meira en nú. Ég vildi nú gjarnan — án þess að vilja hvetja mikið til áframhaldandi ræðuhalda — fá að vita, hvernig á að fara að, þar sem sá möguleiki, að leggja á útsvör, er tæmdur, — þar sem ekki er hægt að innheimta útsvör og bæjarfélög og sveitir standa ráðþrota. Hvernig á að innheimta tekjur þar? Og et það á að taka af tekjustofnum ríkissjóðs, hvar á þá ríkið að fá tekjur í staðinn? — Þá vil ég drepa á 5. brtt. hv. þm., sem fer fram á, að felld sé niður 24. gr. frv., sem mælir svo fyrir, að síldarverksmiðjur skuli greiða til bæjar- og sveitarfélaga, þar sem þær eru starfræktar, ½% af andvirði seldrar framleiðsluvöru. Hann spurði. hvers vegna þessi bæjarfélög ættu að njóta þeirra hlunninda öðrum fremur að skattleggja þennan atvinnurekstur. Hvers vegna eiga bæjarfélög yfirleitt að njóta þeirra hlunninda að hafa rétt til að skattleggja atvinnurekstur? Í mínu kjördæmi eru tvær verksmiðjur, sem eru reknar af einstaklingum. Það er sama um þær að segja eins og hinar verksmiðjurnar, að þær kaupa síld af ýmsum skipum, en það dettur engum annað í hug en að þær séu skattlagðar og greiði útsvör. Ég sé ekki annað en að það eigi að gilda alveg það sama, þótt verksmiðjurnar séu reknar af ríkinu. Hv. þm. taldi það sem rök í þessu efni, að Siglufjarðarbær hefði lagt til land handa verksmiðjunni og gefið þetta land. Mér finnst ekki, að þetta séu rök fyrir hans máli, heldur einmitt fyrir mínu. Mér sýnist ekki ástæða til þess, þegar bærinn gefur lóðina, að hann fái síður tekjur af verksmiðjunni heldur en ef hann hefði selt lóðina háu verði. Það er rétt, að íbúar Siglufjarðar vildu gjarnan, að þessi verksmiðja kæmist þarna upp. Það er vitanlegt, að svo er með öll bæjarfélög, að þau vilja hafa mikinn atvinnurekstur, en þau vilja líka hafa leyfi til að skattleggja hann. Hann var að tala um, að það væru hlunnindi að fá menn inn í bæjarfélagið, vegna aukinna viðskipta. En þetta er mjög tvíeggjað, og það stafar ekki lítil áhætta og kostnaður af fólki, sem þannig kemur, ef illa fer. Hvað viðvíkur þeim háu hafnargjöldum, sem hann var að tala um, þá er því til að svara, að hafnarmannvirki eru dýr, og ég býst við, að það borgi sig fyrir þá, sem þangað koma, að nota höfnina.

Hv. þm. endaði ræðu sína með því að segja, að það væru allir ráðalausir yfir þessu máli. Það getur hugsazt, að það séu fleiri, sem hafa slíka skoðun, — þeir sem vilja fá fé til nauðsynlegra framkvæmda, en þora ekki að horfast í augu við, að það þurfi að afla fjár, þegar á reynir. Hitt er ekki ráðaleysi, að gera þetta frv. að lögum og breyta því sem minnst frá því, sem nú er. Ég veit ekki, hvað þeir hv. þm., sem vilja hundsa þetta mál, hugsa um framtíðina. Það er nú svo komið, að ef ekkert er að gert, þá eru ýms bæjar- og sveitarfélög, t. d. sérstaklega við sjó; sem ekki geta staðið undir gjöldum sínum lengur, og þótt þetta frv. sé enginn kína-lífselixir, sem læknar öll þeirra mein, þá ætla ég, að það gerði mikið gagn, ef að lögum yrði.

Út af till. hv. 1. þm. Reykv. vil ég segja, að það hefði verið nauðsyn að bæta kaupstöðunum og kauptúnunum meira upp, ef vörugjaldið er fellt niður, heldur en gert er með till. hv. 2. minni hl. n., og þá helzt með því að hækka innflutningsgjaldið og skipta því bæjunum í hag.

Ég verð að taka undir það með hæstv. fjmrh. um afstöðu mþn., að hún leit svo á, að það ætti ekki að hrófla við einkasölum ríkisins, bæði af þeirri ástæðu, sem hann nefndi, og svo af þeirri ástæðu, að ef um meiri tekjur af þeim yrði að ræða síðar, þá væri það eðlileg tekjuleið fyrir ríkið.