27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

2. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Magnús Jónsson:

Ég gerði í raun og veru grein fyrir þessari brtt. þegar þetta mál var til 2. umr. En það er sem sagt 14. liðurinn, sem er um það að fresta framkvæmd laga um bókasöfn prestakalla. Ástæðan til þess að breyta þessu er náttúrlega sú, að það er hreinasta fjarstæða í l., sem sett eru til þess að hjálpa ríkissjóði yfir fjárhagsörðugleikana, að hafa þar á meðal frestun á l., sem hafa jafnafarlítil útgjöld í för með sér eins og þetta. Það er sem sagt svo lítil fjárupphæð, að hún getur ekki einu sinni skrifazt með 4 tölum. Ég hefi í höndum skrá um, hverju þetta hefir numið 1933–1935. 1933 nam þetta 359,87 kr., 1934 nam það 762,55 kr. og 1935 komst það upp í 1350,92 kr. Af því að þessi liður var borinn undir atkv. og samþ., taldi ég þá stappa nærri þingsköpunum að bera nú fram till. um að fella þennan lið niður. Ég taldi rétt, til þess að reyna að koma í veg fyrir, að þessi liður yrði alveg felldur niður, að bera fram till. um, að ekki væri varið nema að vissu marki í þessu skyni, eða 1000 kr. Þetta starf, að koma upp bókasöfnum við prestaköllin, vinnst hægt, en byggist á því, að alltaf sé haldið áfram. Það byggist á því, að ár eftir ár og áratug eftir áratug sé alltaf haldið áfram hægt og hægt að vinna að því, en stöðvanir eru aftur mjög óhagstæðar. Með því að bera fram brtt. um, að ríkissjóður verji ekki meira en 1000 kr. á árinu 1937 í þessu skyni, vona ég, að hv. þm. geti samþ. það í því formi, og hafi þá um leið ánægjuna af því að hafa þetta af bandorminum og tryggja, að ekki verði varið meira til þessa.