12.03.1936
Efri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í C-deild Alþingistíðinda. (2919)

69. mál, hrafntinna

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Það, sem kemur mér til þess að segja nokkur orð í sambandi við þetta mál, eru þær umr., sem farið hafa fram á undanförnum þingum um skyld mál.

Þegar þetta mál lá fyrir síðast í þessari hv. d., var m. a. færð sú ástæða fyrir því, að ekki væri rétt að láta það ganga fram vegna þess, að hér væri um verðmæti að ræða, sem ríkið í heild gæti notað á arðsaman hátt. Ég hefi ekki heyrt við þessar umr. nú, að neitt slíkt hafi komið fram, að þessi skoðun sé fallin úr gildi. — Hér mun sennilega vera vöknuð nokkur hreyfing fyrir því, að hrafntinna sé nytsamleg til þess að skreyta með hús manna, og augu útlendinga hafa opnazt fyrir því, að hér sé um steintegund að ræða, sem vert sé að gefa nokkuð fyrir.

Ég kynni nú betur við, ef útflutningur þessarar vöru ætti að vera á einni hendi, að þá væri það ríkið eitt, sem hefði hann með höndum, og meðan svo er ekki, er ég yfirleitt á móti því, að einum manni eða einu firma sé veitt slíkt einkaleyfi, því að ef eftirspurnin vex, því þá ekki að leyfa þeim mönnum, sem geta náð í þessa steintegund, að flytja hana út? Ég geri ekki ráð fyrir, að það yrði svo mikið kapphlaup, að það gæti ekki orðið arðsöm verzlun. Augu manna eru að opnast fyrir því, sérstaklega hér á landi, að hrafntinna er þess virði, að hennar sé aflað, og ég geri ráð fyrir, að það geti orðið fleiri en einn og fleiri en tveir, sem vildu gera það að atvinnu að sækja hana þangað, sem hún er, og vinna hana. Ég tel það varhugavert af hæstv. Alþingi að veita sérstökum mönnum fríðindi með því að þeir einir og engir aðrir fái sérstöðu til þess að flytja verðmæti, hvort sem það eru steintegundir eða annað, út úr landinu.

Ég hefi ekki heyrt í þessum umr., að þeir, sem héldu svipuðu fram og ég nú, þegar þetta lá síðast fyrir þinginu, hafi breytt skoðun frá því, sem þá var. Hinsvegar verð ég að játa, að samræmið í að veita einkaleyfi er ekki á eina og sömu lund hjá þessari hv. d., og kom það bezt í ljós, þegar var verið að ræða annað mál, sem gert var að lögum á síðasta þingi. Eins og ég var því máli mótfallinn, þá mun ég á sama hátt vera því mótfallinn að veita þetta einkaleyfi.

Ég vil að síðustu geta þess, að ég man ekki betur en að þetta mál hafi verið í fjhn., þegar það lá hér síðast fyrir. (PM: Það mun vera rétt). Ég vil því gera að till. minni, að málinu verði vísað til sömu nefndar og það var í. — Á þessu stigi málsins vil ég ekki teygja umr. frekar.