25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

123. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Svipað frv. þessu lá fyrir síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Það var nokkru víðtækara en frv., sem sjútvn. ber fram að þessu sinni. Því að frv. gerir ráð fyrir, að ríkisstj. geti tekið eignarnámi tilteknar laxár og veiðihús við laxár ásamt landspildum. Þá var hugsunin sú, að ríkið eignaðist veiðiár, sem það hefði til afnota, sérstaklega þó í því augnamiði að hafa þar klak, en einnig í öðrum tilgangi. Nú hefir verið dregið úr frv. á þann hátt, að hér er aðeins átt við veiðiréttindi til þess að geta haft þar klak. Og það eru tilteknar tvær ár, önnur á Suðurlandi og hin á Norðurlandi, sömu árnar og í fyrra, Laxá í Kjós og Laxá úr Mývatni. Það er hugsað, að reistar séu klakstöðvar við þessar ár, til þess að dreifa seiðunum í ár á Suður- og Norðurlandi.

Frv. var allýtarlega rætt í Nd. í fyrra. Og ástæða sú, sem fyrir mér vakir að hafa þetta frv. umfangsminna en þá, er erfiðleikar ríkissjóðs að leggja í mikinn kostnað, sem hefði af því leitt að halda uppi heilli veiðiá ásamt húsum án þess að geta haft tilsvarandi fé upp úr. Því er það, að við höfum aðeins bundið okkur við að taka veiðiréttindin. Í þessu frv. er heimild til að taka eignarnámi þessi veiðiréttindi, ef ekki komast samningar á við eigendur veiðinnar.

Þá er og því haldið í þessu frv., að stj. sé heimilt að innheimta klaksjóðsgjald, er nemi 6 aurum á kg. af laxi, sem veiddur er hérlendis og seldur á innlendum eða erlendum markaði. Þetta gjald er ætlað til að styðja klakið. Það er sjálfsagt, að þar, sem lax er veiddur mikið í bú, gefist mönnum kostur á að fá seiði til viðhalds laxinum. Annars er mín skoðun sú, eins og ég sagði í fyrra, að laxaklak þurfi að verða í miklu stærri stíl en búast má við, að einstakir menn geti haft, vegna þess að það er áreiðanlega ekki rannsakað ennþá, hversu stórvirk náttúran er að framleiða laxinn, ef vel tekst til um hið sjálfráða klak og annað. Hinsvegar er vitanlegt, að það koma fyrir tímabil, þegar hið náttúrlega klak eyðileggst alveg í ánum, bæði vegna frosta, ár ryðja sig, stórflóð hlaupa í ár o. s. frv.

Í raun og veru get ég sagt fyrir mig, að þetta frv. er í samræmi við þá skoðun, sem ég jafnan hefi haft um laxveiði, og einnig að nokkru leyti kemur fram í till., sem við hv. 2. þm. Rang. fluttum í Sþ. um endurskoðun á löggjöfinni um lax og silungaklak. Ég teldi hentugast fyrir landsmenn, ef hægt væri að koma því fyrir, að eingöngu sé stunduð stangarveiði í ánum, því að það mundi gera laxstofninn miklu meiri og veita jafnari og meiri tekjur heldur en ránveiði sú, sem víða er nú rekin. Því er ekki hægt að neita, að það er víða ránveiði á laxi, sérstaklega í minni bergvatnsám, — bókstaflega þurrkaðar allar hrygningarstöðvar, og ekkert eftirlit er hægt að hafa með því, nema því aðeins, að hægt sé að leggja í lófa þessara bænda þær fjárhæðir, sem þeir telja sig vel sæmda af og álíta, að þeir hafi meira upp úr heldur en taka vafasama vöru úr ánum: því að þó að kannske megi borða laxinn á haustin, þá er hann ekki góð vara.

Samkv. grg. er ágreiningur um einstök atriði frv., aðallega að ég ætla um að tiltaka ákveðnar veiðiár, sem eigi að taka eignarnámi. En mér hafa skýrt lögfræðingar frá því, að varla sé gerlegt að taka veiðiréttindi leigunámi, nema tiltekin sé í l. ákveðin á.

Þá er 6 aura gjaldið. Það má vera, að gera mætti einhverja bót á; en nokkru verður það þó að nema, sem ríkissjóður fengi til styrktar klakinu. Það er ekki svo ýkjamikið, sem hægt væri a, m. k. að sanna, að selt væri á innlendum markaði, svo að það verður aðallega útfluttur lax, sem borgar þetta, enda hægast að vita um magn hans og einnig þess lax, sem hinar stærstu verzlanir selja á innlendum markaði, því að það borgar sig ekki að eltast við einn og einn lax, ef seljendur ekki gefa upp smávegis sölu.

Ég tel rétt að geta þess, að landbn. mun athuga þetta mál á milli umr. En ég teldi mikilsvert, að það gengi fram á þinginu, svo að sem fyrst verði hafizt handa, því að það laxaklak, sem nú er haldið uppi af einstökum mönnum, er ákaflega lítið, miðað við það, sem þyrfti að vera. Stærsta laxaklakið, sem fer fram. er hjá rafmagnsveitu Reykjavíkur hér í Elliðaánum, ágætt fyrir þá einu á, en ekki nægilegt til þess að láta í margar ár hér á Suðurlandi. Því að það er alltaf dálitlum erfiðleikum bundið að flytja seiði mjög langt. Þó hefir það tekizt með alveg sérstökum útbúnaði og alveg sérstakri aðgætni nákvæmra manna um þessa hluti.

Ég vil að endingu mæla með því, að frv. þetta gangi áfram til 2. umr., og tel ekki, að þurfi að vísa því til nefndar.