09.05.1936
Sameinað þing: 21. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

72. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Mér finnst illa farið með síðustu stundir þingsins, þar sem svo mikið er búið að tala um fiskimálan., störf hennar og afglöp, ef nú skal eyða þeim í pólitískar deilur. Ég vil leyfa mér að lesa hér það ákvæði í l. um fiskimálasjóð, sem snertir þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta: „Fiskimálanefnd annast um veitingu lána og styrkja úr fiskimálasjóði samkv. þessari grein“ (þ. e. 14. gr.). Og það er einmitt þetta, sem farið er fram á í þáltill., og þess vegna sett inn, að fara skuli eftir till. fiskimálan. um að veita styrkinn úr fiskimálasjóði, enda er það skylt samkv. l.

Hv. frsm. minni hl. benti á, að það væri mikilsvert að hafa fiskifræðinga með í ráðum. Vitanlega er það sjálfsagt, og ég veit ekki betur en að fiskifræðingarnir séu starfsmenn ríkisins, t. d. hjá Fiskifélaginu. Ég sé því ekki, að það þurfi að taka það fram í till.; þeir eru í þjónustu ríkisins, og þeim mun verða falið að annast hina vísindalegu hlið þessa máls. Fiskimálan. er ekki falið það atriði, heldur þarf fé til þessara rannsókna, og vitað er, að styrkur sá eða lán, sem kann að verða veitt í þessu skyni, verður úr fiskimálasjóði.

Ef þessi till. væri aðeins bundin við skipið Þór, þá væri nægilegt að heimila ríkisstj. að greiða kostnað við útgerð hans, en okkur í fjvn. kom öllum saman um, að það er ekki nóg að senda Þór, heldur sé hitt meira um vert, að leita fiskimiða og finna grunnmið, sem líkleg væru til fiskveiða, og stendur þá nærri að styrkja veiðiferðir einstakra manna eða togarafélaga, er þeir kynnu að vilja fara, og stæði það jafnvel nær en að gera strax tilraunir með veiðiaðferðir.

Er ekki nema skylt og rétt að gera þessar tilraunir í samráði við færustu kunnáttumenn, enda er því ekki til að dreifa, að vísindamenn verði útilokaðir, af þeirri ástæðu, sem ég hefi áður tekið fram, að ríkið á aðgang að starfskröftum þeirra.

Að það sé út í hött að tala um fiskimálan. í þessu sambandi, er svo fjarri öllu réttu lagi, að hún verður óhjákvæmilega að gera till. um styrk úr fiskimálasjóði. (SK: Þetta er fjarstæða!). Ef hv. þm. er ekki læs, þá ætti hann a. m. k. að skilja það, sem ég las áðan upp úr 14. gr. l. um fiskimálasjóð.

Það var sagt í ræðu hér áðan, að fyrir okkur vekti að styrkja pólitískan framgang fiskimálanefndar. Þessi órökstudda fullyrðing nær engri átt, heldur fórum við aðeins eftir lögunum, enda er það sjálfsagt, að nefndin sé með í ráðum um að bera slíkan kostnað af fé sjóðsins.