09.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3060)

140. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þessi till. er flutt af sjútvn. beggja deilda, og er óþarfi að fara um hana mörgum orðum, því að hv. þm. er hún kunn.

Það hefir verið rætt um að gera nokkrar ráðstafanir í sambandi við þær afleiðingar, sem orðið hafa af þeim aflaskorti, sem varð á síðastliðinni vertíð. Það liggur í augum uppi, að þessi aflaskortur hlýtur að valda miklum örðugleikum bæði fyrir útgerðarmenn og þá, sem fiskveiðar stunda. Til þings og stjórnar hafa komið ýmsar nefndir og sendimenn frá öllum aðalveiðistöðvunum við Faxaflóa og tilmæli um hjálp frá mörgum veiðistöðvum utan Faxaflóa. — Eins og skýrt er frá hér, er aflinn hálfu minni en á sama tíma í fyrra. Afleiðingin af þessu verður sú, að fiskurinn, sem aflazt hefir, gerir ekki að hrökkva fyrir nauðsynjum útgerðarinnar, kolum, olíu og veiðarfærum, og ekkert verður afgangs handa útgerðarmönnunum eða þeim, sem stunda fiskveiðarnar. Er því ekki fyrirsjáanlegt annað en að stórvandræði verði af þessum sökum, ef ekki verður úr bætt.

Till. n. er sú, eins og sést á þskj. 629, að heimilt sé að auka starfsfé skuldaskilasjóðs til þess að greiða úr þeim skuldum, sem safnazt hafa á síðastl. vetri. — Ég vil taka það fram í þessu sambandi, að bankarnir verða sjálfir að sjá um og taka að sér þær sjóveðskröfur, sem á skipin falla. En þessi upphæð verður ekki notuð til þess. Sjómenn þeir, sem fiskveiðar stunda, eru flestir skráðir á bátana og hafa ekki sjóveðsrétt fyrir sínum hlut eða tryggingu. Hinsvegar er nokkur hluti sjómanna, sem ekki er skráður á skipin og hefir sjóveðsrétt á sínum hlut.

Það er ætlazt til þess, að vextir séu ekki hærri en af lánum skuldaskilasjóðs, eða 4½%. Hinsvegar er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þessi lán séu veitt til mjög langs tíma, eins og lán skuldaskilasjóðs. Það er ætlun ríkisstj., að með því að heimila þessa ráðstöfun, þá megi takast að hindra það, að fiskibátaeigendur verði almennt vegna aflabrests að hætta að láta báta sína og veiðitæki ganga, og þeim verði með þessu gert mögulegt að nota báta sína í sumar til síldveiða eða annara fiskveiða.

Mér þykir rétt að benda á, að þó að gengið sé út frá því, að ekki sé lánað út á sjóveðskröfur, þá getur í einstökum tilfellum verið um það að ræða, að ekki sé hægt að vita, hvort um sjóveðskröfur er að ræða, og þá gæti farið svo, að það þætti rétt að leysa í bili undan sjóveðskröfu með ábyrgð skuldaskilasjóðs, til þess að hægt sé að gera upp við þessa menn.

Í þessari till. er ekki heimild fyrir skuldaskilasjóð til þess að ábyrgjast þetta. En ef svo skyldi fara, að skuldaskilasjóður tæki á sig slíkar ábyrgðir, og það sýndi sig, að um sjóveð væri að ræða, þá mundi vera hægt að veita hlutaðeigandi útgerðarmönnum lán til þess að mæta þeim ábyrgðum, svo ég hygg þess vegna, að ekki þurfi að taka þetta fram.

Mér þykir rétt að geta þess, að vegna hins stutta tíma til undirbúnings, þá hefir ekki tekizt að tryggja lánveitingu. En þar sem ég verð að líta svo á, að bankarnir hafi mikilla hagsmuna að gæta og séu sammála ríkisstj. um nauðsyn þessa máls, þá geri ég mér vonir um, að lán fáist, eða a. m. k. að bráðabirgðalán fáist fljótlega til þess að mæta þessu. Mér er það vel ljóst, að það er nauðsynlegt til þess að þetta geti komizt í gegn, að byrja framkvæmdir sem fyrst, og það ætti strax í næstu viku að hefja rannsóknir og reyna að leysa úr þessu máli.

Ég hefi svo ekki fleira að segja að þessu sinni í sambandi við till. sjálfa. — Mér þykir rétt í þessu sambandi að bæta því við, að þingi og stjórn hafa borizt tilmæli frá eigendum línuveiðaskipa um að heimila, að kreppulánasjóður láni út á skip þeirra á svipaðan hátt og skuldaskilasjóður og með hliðstæðum eða svipuðum kjörum og ætlunin er að veita lán til vélbátaeigenda. Við afgreiðslu fjárl. kemur fram brtt. við fjárlfrv. í þá átt, að ríkisstj. hækki starfsfé skuldaskilasjóðs um 200 þús. kr. framlag, en þó er ekki gert ráð fyrir lántökuheimild í þessu skyni. Ég hefi athugað þetta mál og rætt um það við formenn Sjálfstfl. og Framsfl. Ég get sagt það, að ríkisstj. lítur svo á, að ef afgangur verður af starfsfé því, sem skuldaskilasjóði er ætlað með l., en það er 1½ millj., þá sé það rétt og eðlilegt að verja álíka upphæð, ef til vill 250 þús. kr., til þess að veita svipuð eða hliðstæð lán til eigenda línuveiðaskipa, ef búast má við því, að með því sé tryggt, að þau geti farið á síldveiðar í sumar.

Ég hefi rætt um þetta við formenn hinna flokkanna, og ég ætla, að mér sé óhætt að segja, að þeir eru stj. sammála um þetta. Ríkisstj. mun því gera þetta, ef afgangur verður af starfsfé þessa sjóðs. Hvort líkur eru til þess, að svo verði, þori ég ekki að segja neitt ákveðið um. En eftir bráðabirgðayfirliti eru hinsvegar líkur til þess, að svo verði. — Ég legg svo til, að þessari till. verði vísað til síðari umr., og ég vænti þess, að hv. þm. fallist fúslega á að veita þessa lausn á málinu.