19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Jónas Jónsson:

Ég álít, að það beri merkilegan vott um, hvað hv. þm. V.-Sk. var utan við sig í þessu máli — og hygg ég, að það sé máske eitthvað í sambandi við endurminningarnar um eldhúsdaginn —, þegar hann telur það röksemd á móti mér, að ég sé orðinn aldurhniginn, því að ef hann hefir litið á sinn eiginn líkama, sem er mjög farinn að hrörna eins og minn, þá hefir hann vafalaust séð, að við erum báðir orðnir talsvert aldraðir, og ef mér ekki skýzt, þá er hann ennþá nær þeirri óhjákvæmilegu hrörnun, sem vofir yfir okkur öllum. Ég held þess vegna, ef hv. þm. hefði verið alveg rólegur, að hann hefði ekki skopazt að sínum eigin aldri.

Annars finnst mér það nægileg viðbót við það, sem ég sagði áður viðvíkjandi þessu máli, aðeins að minnast á það, að hv. þm. V.-Sk. reyndi með misjafnlega skáldlegum líkingum að leiða rök að því, að hér ætti að gerast eitthvað rangt og vísvitandi, en af ýmsum setningum, sem féllu hjá honum, var hægt að merkja það, eins og vitanlegt er, að fyrir honum vakir ekkert annað en persónulegur áróður á þann mann, sem nú flytur þingfréttirnar. Þetta er hv. þm. V.-Sk. ljóst: þess vegna hefir hann í sínum skáldlegu líkingum þá aðferð að segja, að hér sé ekki um neitt atvinnurán að ræða. Ég álít, að ekki sé um neitt mikla atvinnu að ræða fyrir neinn, og þess vegna álít ég þetta ekki neitt peningalegt rán, en hitt býst ég við að verði athugað, hvort sem það verður útvarpsráð, útvarpsstjóri eða forsetar Alþingis, sem ráða þessu máli til lykta, að það er tilgangurinn hjá einstökum mönnum í þinginu að reyna að koma af stað pólitískum áróðri til þess að svala einhverri hefndarfýsn á pólitískum andstæðingi. En öll ræða hv. þm. V.-Sk. var þrungin af þessari löngun til þess að ræna þessu, sem raunverulega ekkert er, en fyrir honum er eitthvað. Það sýnir, hve smátækur hann er, þegar hann heldur, að það sé sigur fyrir sig, þó að það væri einhver örlítil atvinna, sem hann gæti með rógi og níði haft af manni, sem er vel starfi sínu vaxinn og hefir gert það vel og heiðarlega.

Ég vil út frá orðum hv. 2. þm. Reykv. lýsa því stuttlega yfir, að mér er ekki kunnugt, að hjá nokkrum dómbærum mönnum hafi komið fram nein óánægja með útvarpsfréttirnar. Það, sem komið hefir fram, er af persónulegum og pólitískum ástæðum, sem vitanlega útvarpsráði eða forsetum ber að meðhöndla á þann hátt, sem til er stofnað.