19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í D-deild Alþingistíðinda. (3100)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Magnús Jónsson:

Ég vildi aðeins út af því, sem samþm. minn, hv. 2. þm. Reykv., sagði, að í þessari till. fælist traust til forseta Alþingis, taka það fram, að ég fyrir mitt leyti mun greiða atkv. með till., eins og hann, en án þess að í því felist nokkurt pólitískt traust til þeirra forseta, sem þar er óskað eftir að ráði þessu máli. Ég ber persónulega mitt bezta traust til þeirra þriggja manna, sem sitja í forsetastólum, og þykist vita, að þeir muni beita þessu mikla valdi vel, ef þeir fá það, en álít óþarft að láta nokkra slíka yfirlýsingu fylgja með þessari till., eins og hv. 2. þm. Reykv. vildi láta fylgja henni.

Ég er samþykkur þessari till., af því að ég álít, að bezt eigi við, að þingið eigi aðgang að þeim mönnum, sem ráða flutningi þingfrétta. Það er þess vegna, sem mér finnst þetta bezt komið í hendur forseta þingsins, alveg án tillits til pólitísks trausts til þeirra, sem sitja í þeim sætum.

En það, sem kom mér til þess að standa upp, var einnig að nokkru leyti ræða hv. þm. S.-Þ., sem mér fannst lítið tilefni til, og kemur það einstaka sinnum fyrir hv. þm. og hans nóta, að flytja þannig ræður, til þess að koma að sínum venjulegu uppáhaldsmálum — og eitt af hans uppáhaldsmálum er samanburðurinn á hinu eldra og hinu nýja útvarpi. Ég hefi stundum heyrt þennan hv. þm. flytja svipaða ræðu þessari í útvarpsnotendafélaginu í Rvík og kom þetta því ekki á óvart. En það var sláandi líking, sem hv. þm. V.-Sk. kom með, án þess að ég vilji taka undir það að líkja hv. þm. S.-Þ. við fugl, hvorki kjóa eða annan, þá er það satt, að kjóarnir og aðrir svipaðir fuglar benda stundum á eggin sín með því hvernig þeir láta. Það hefði ekki verið nein ástæða að minnast á þetta egg hv. þm., útvarpið, ef hann hefði ekki með sinni ræðu bent á það. En úr því að hv. þm. gerði það í sinni ræðu, finnst mér vel við eigandi að líta í hreiðrið. Um fyrra útvarpið get ég lítið sagt. Ég komst aldrei í neitt persónulegt samband við það. Mér hefir verið sagt, að til þess hafi verið stofnað af litlum efnum — allt of litlum. Það hefir sjálfsagt verið með útvarpið eins og svo margt, sem er á byrjunarstigi, að það hafi verið ófullkomið; það vantaði bæði þekkingu og fé, — og sérstaklega er það svo með öll slík fyrirtæki, að það er erfitt að vinna þau inn. Það kostar stórfé að gera mönnum skiljanlegt, hvað er á ferðinni og fá menn til þess að laka upp það, sem er notadrýgst og bezt. Það er alveg eins og þegar sett er á stofn rafmagnsveita í stórum bæ, að það kostar stórfé og mikinn tíma að kenna mönnum að nota rafmagnið og koma mönnum í skilning um, hver endurbót það sé. — Útvarpið var þá svo nýtt í veröldinni, og það var að vonum, að menn áttu erfitt með að átta sig á, hvað var á ferðinni. Mér finnst hart, að það skuli vera hnjóðað í þá, sem gera lofsamlegar tilraunir til þess að brjóta einhverju nýju og gagnlegu braut, og ég vil ekki fyrir mitt leyti láta því ómótmælt, að það sé verið að hnjóða í þá, sem fyrstir reyndu að stofnsetja útvarp á Íslandi. Það getur vel verið, að sú útvarpsstöð hafi ekki verið fullkomin. Hv. þm. (JJ) sagði, að sendiorka hennar hefði verið 1/100 af því, sem nauðsynlegt er hér á landi. Ég vil þá bara segja, að það sé nokkuð langt í land þangað til hér verður eins sterk stöð og þarf að vera, því að mjög lítið brot úr kw. var fyrri stöðin ekki. En þegar hv. þm. og hans flokkur setti á stofn útvarpsstöð, var ekki farið harðara af stað en það, að hún hafði ekki nema. 5 eða 10 kw. afl, og var sendiorkan ekki meira en 5 eða 10 sinnum meiri en hinnar fyrri stöðvar. Eftir því er það sýnilegt, að það á mjög langt í land, að útvarpsstöðin verði nægilega sterk. Þetta gamla útvarp var sem sé einkafyrirtæki, og það fór á hausinn, sagði hv. þm. með miklum fögnuði. Kemur það prýðilega heim við hans hugsunarhátt, að einkafyrirtæki fari á hausinn. En þegar nýja útvarpið var sett á stofn, var það alt öðruvísi byggt upp, sem sé með almannaframlagi og sett í það fé sem þurfti. Það byrjaði náttúrlega ekki með glæstar vonir, eftir því sem hv. þm. sagði, úr því að hitt fyrirtækið fór svona, en það hefir kannske átt að fara eins að og hv. þm. sagði, þegar síldarbræðsluverksmiðjurnar voru fyrst settar á stofn, að það væri bezt, að ríkið ræki þær, en ef þær gæfu ekkert annað en tap, þá mætti alltaf selja þær einhverjum spekúlöntum. Þetta var fjármálaspeki hv. þm. að því er snerti þessar síldarbræðslustöðvar, og hann hefir líklega hugsað eitthvað líkt um þessa útvarpsstöð.

Það var svo búið mjög vel að þessu fyrirtæki, útvarpsstöðinni, því að henni var fenginn í hendur einkaréttur til þess að verzla með útvarpstæki, og það eru engin fyrirtæki til, sem eru gróðavænlegri en einmitt að verzla með vöru, sem sérstaklega er verið að flytja inn í landið, og einmitt um þessar mundir voru hundruð og þúsundir manna að fá sér ný tæki, auk þess sem menn þurftu að endurnýja hin eldri. Þetta framúrskarandi gróðafyrirtæki var útvarpinu fengið í hendur. Annars var eitt af því fyrsta, sem þáv. stjórn gerði viðvíkjandi þessu fyrirtæki og hefir fylgt nokkurnveginn stjórnum þeirra sömu flokka, að byrja á að skipa nóg af mönnum við þessa stofnun. Það er ákaflega einkennilegt að byrja á því að skipa mennina áður en fyrirtækið er sett á stofn. Það er eins og fyrirtækið sé sett upp af því að einhverjir vissir menn þurfi að fá stöðu. Það er byrjað á því að skipa forstjóra, svo getur fyrirtækið komið einhverntíma á eftir. Þannig er t. d. með ferðaskrifstofuna; það er búið að skipa forstjóra og landkynni o. s. frv., en það bólar ekkert á skrifstofunni. Útvarpsstjórinn var fyrst skipaður áður en útvarpið var reist. Það lá verulega á þeirri skipun. Sá, sem varð fyrir valinu, var ritstjóri stjórnarblaðsins um þær mundir. En það var farið að bera á þeirri óánægju í stjórnarflokknum, sem kom betur í ljós þegar hann klofnaði, og ritstjórinn virtist draga nokkuð sterkt taum annars aðiljans í þessum klofningi, svo að það mátti til að losna við hann frá blaðinu. Það bar því vel í veiði að skipa hann sem útvarpsstjóra. Annars var hann ekki kunnur að neinum sérstökum yfirburðum, þó að hann væri vel greindur og pennafær, sérstaklega í harðvítugum deilum. En það hafði enginn orðið var við, að hann hefði neitt sérstakt til brunns að bera af því, sem þurfti til þess að taka að sér þetta starf. Málrómurinn var ekki þannig, að hann gæti orðið þulur. Ekki hafði hann þá þekkingu í bókfærslu, sem til þess þarf að geta staðið fyrir skrifstofu. Og enga tekniska þekkingu hafði hann heldur til að bera. Ég hefi verið á fundum, þar sem útvarpsstjóri hefir verið og hv. þm. S.-Þ., og margsinnis lýst eftir því, hvaða starf við útvarpið er álitið, að hann sé sérstaklega fær um að vinna. Hvorugur þeirra hefir nokkurntíma getað svarað því, nema útvarpsstjóri sagði, að það væri undarlegt, ef útvarpið ætti ekki eins og allar aðrar stofnanir að hafa forstjóra. Sem sagt, það var ómögulegt að finna, hvað hann átti að gera sem forstjóri. Svo var skipað allmikið af mönnum, sem áttu að hafa hærri laun en aðrir embættismenn ríkisins, sumir, sem áttu að skrifa, spila og annað slíkt. Laun útvarpsstjóra höfðu allir þm. skilið að ættu að vera í hæsta lagi 9500 kr., en það lagaðist svo, að hann fékk þessa upphæð og dýrtíðaruppbót að auki. Af því að það var heldur ekki nóg, var honum falin umsjón með viðtækjaverzluninni, og fyrir það fékk hann 2000 kr. — Ég dreg þetta ekki fram sem neitt eldhúsnúmer, heldur bara af því, að hv. þm. S.-Þ. var að lýsa þessari nýju stofnun sem einhverju afskaplega tárhreinu og fínu við hliðina á þessu óþverralega gamla útvarpi, þar sem nokkrir einstaklingar fórnuðu nokkrum hluta af sínum eignum.

Ég skal svo ekki fara að lýsa þessu nánar, en af því að sérstaklega voru gerðar að umtalsefni þingfréttirnar, vil ég geta þess, að ég er ekki einn af þeim mönnum, sem er ákaflega næmur fyrir því, hvað er sagt í fréttum. Ég held, að það snúi mönnum ekki í hrönnum, þó að eitthvað sé sagt í fréttum, en hitt er annað mál, að það er óforsvaranlegt að skipa sem fréttamann mjög pólitískan mann; þó að hann sé allur af vilja gerður að segja fréttirnar litlaust og hlutlaust, þá er ekki rétt að skipa til þess mann, sem er mjög eindreginn flokksmaður. Það sýnir bara umhyggju þessara manna fyrir útvarpinu, að þeir skyldu ráðstafa fréttaflutningnum þannig.

Hvernig fór svo fyrir þessu nýja flekklausa útvarpi og forstjóra þess? Ég hefi hér fyrir framan mig ekki pólitískara plagg heldur en landsreikninginn fyrir árið 1931. Hann segir dálitla sögu af því, hvað öll gætni með peninga var gersamlega horfin frá því við það að verða ríkisfyrirtæki. Yfirskoðunarmenn landsreikninganna hafa gert nokkrar aths. við ýmsa liði, sem snerta útvarpið. Fyrsti liðurinn er bifreiðaakstur um bæinn og nágrenni, sem nemur um 200 kr. á mánuði til jafnaðar. Þetta þykir yfirskoðunarmönnunum nokkuð mikið og óska skýringa. Þetta er óneitanlega mikið, enda var það um tíma orðið máltæki í bænum, ef menn fóru í bifreið, að láta skrifa það hjá útvarpinu. — Risna nam nokkrum hundruðum króna, t. d. einu sinni á hótel Borg kr. 321.00, og í annað skipti kr. 126.00. Með þessu voru engin fylgiskjöl. Yfirskoðunarmönnum var ekki kunnugt um, að nokkur risna ætti að fylgja þessu fyrirtæki. Svo er tilfærður ferðakostnaður og engir reikningar lagðir fram né gerð grein fyrir, hverskonar ferðir þetta hafa verið. Nemur sá kostnaður kr. 1270.00. Svo eru margir liðir fleiri, t. d. brúðargjöf kr. 150.00, sem mönnum var ekki kunnugt um, að útvarpið ætti að gefa. Þá er jólaglaðningur á kr. 706.00, sem yfirskoðunarmenn sjá ekki neina heimild fyrir. Svo er í júnímánuði símsent til Miss Johnson kr. 1165.65. Yfirskoðunarmenn spyrjast fyrir um, hvort kr. 954.30 hefðu ekki verið endurgreiddar, en af þessum 1165.65 kr. voru endurgreiddar kr. 211.35. En yfirskoðunarmönnum er ekki kunnugt um, að nein Miss Johnson sé svo nátengd útvarpinu, að það þurfi að borga fyrir hana fargjald. Fleiri liði gerðu yfirskoðunarmenn aths. við. En sem sagt, þó að ég lesi þetta upp og tali um það órökstutt, þá var það alkunnugt að útvarpið var að dragast niður í öllu meira fen heldur en þekkt var um nokkra aðra íslenzka stofnun. Ef ekki hefði verið tekið svona fast á þessu bæði af blöðum og eins af yfirskoðunarmönnum landsreikninganna, þá má hamingjan vita, hverjar afleiðingarnar hefðu orðið. Því að ef útvarpsstjóranum hefði haldizt þetta uppi, þá hefðu ýmsir við aðrar stofnanir farið að taka upp á því sama, sérstaklega þegar maður minnist þess, sem útvarpsstjórinn svaraði, þegar hann var spurður, hvers vegna hann hefði látið skrifa hjá útvarpinu bílferðir, þegar hann fór í bíó. Hann svaraði því einu, að sér hefði ekki verið „boðinn neinn varnaður á þessu.“ Ef ætti að taka allt það fram, sem menn ekki mættu gera, þá væri skrítið ástandið í landinu.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en mér fannst ekki rétt, að það stæði ómótmælt, sem hv. þm. S.-Þ. sagði í sinni ræðu, sem ég skal játa, að kom þessu máli ákaflega lítið við. Ég bið því hæstv. forseta að afsaka, þó að þessi ræða snerti ekki málið, sem liggur fyrir, en hún snertir a. m. k. þær umr., sem út af þessari till. hafa orðið. Mér fannst ekki rétt að draga þennan samanburð, úr því að hv. þm. S.-Þ. fór að lýsa þessari stofnun sem sérstakri fyrirmynd og hinni merkilegustu stofnun, sem hingað hefði komið. Ég vildi með þessum orðum sýna fram á, að þessi hv. þm. og sú stjórn, sem sat að völdum þegar útvarpið var sett á stofn, gerði a. m. k. sitt til þess að skipa þannig mönnum að þessari stofnun, að hún gæti þegar í byrjun orðið dregin niður í svaðið.