19.03.1936
Sameinað þing: 7. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3103)

75. mál, þingfréttir í útvarpi

*Magnús Jónsson:

Menn búast ef til vill við einhverri roku frá mér eftir þessa síðustu ræðu hv. þm. S.-Þ., en því fer fjarri, að hætt sé við því, sökum þess að þótt ræða eins og þessi veki eftirtekt hjá öðrum, þá veldur hún ekki öðru en hlátri, þegar hún kemur frá þessum hv. þm., sem síðast talaði. Þessi runa, sem hv. þm. romsaði upp úr sér, er búin að koma oft og mörgum sinnum í þeim blöðum, sem hann hefir aðgang að. Það er eftirtektarvert í þessum árásarklausum hv. þm., að í þeim ræðst hann á menn, sem molnað hafa úr hans eigin flokki, og kallar þá þjófa og ræningja eftir að þeir eru komnir í andstöðu við hann, en þegar þeir voru í hans flokki, þá var vandlega þagað yfir öllu. Í þessu sambandi má nefna dr. Pál E. Ólason; þegar hann kemst í andstöðu við hv. þm., þá er honum bætt á þann lista, sem hv. þm. hefir samið yfir ýmsa andstæðinga sína.

Ég verð að viðurkenna það, að ég er yfirleitt í vandræðum með ræður þessa hv. þm., því að þegar búið er að taka burt orðin „ræfill“, „þjófur“ og „þessi maður“, þá er ekkert eftir. Það er jafnauðvelt að fást við þessar ræður og að glíma við draug; ef maður tekur á þeim, þá verður ekkert fyrir. Ég býst því við, að ég geti látið mér nægja mjög svo meinlaust svar við þessari ræðu.

Hv. þm. hélt því fram, að ég hefði svo litla þekkingu á þessu máli, sem hér um ræðir, að ég ætti ekki að vera að tala um það. Ég sagði ekkert um það, hvað stöðin væri stór, en ég sagði, að þegar hv. þm. og samherjar hans komu á fót ríkisútvarpi, þá settu þeir upp stöð, sem hafði 3 kw.; annað sagði ég ekki. En annað mál er það, að það hlaut að koma í ljós, hver sem við völd var, að þessi stöð væri of lítil, svo að það þyrfti að stækka hana. Þetta er ósköp eðlilegt.

Þá minntist hv. þm. á mínar löngu ræður; ekki alls fyrir löngu kom ég inn í aðra þd., þegar umr. voru um þingsköpin, og gerði þá einn maður skrá yfir ræðulengd flokka, sem hafa verið í andstöðu við stj. Kom þá í ljós, að þegar Íhaldsfl. var við völd, var ræðulengd andstæðinganna sú langmesta, sem nokkur dæmi eru til. Ég varð hissa á þessu, en svo kom það upp úr kafinu, að hv. þm. S.-Þ. var þá í stjórnarandstöðu, og á hann 100 dálka ræðu í þingtíðindunum frá þeim tíma, og tók flutningur þeirrar ræðu 7–8 klst., svo að það er ekki furða, þótt þessi gagnorði maður sé vandlætingarsamur út af löngum ræðum. Ég skal ekki fara langt út í umr. um þessar ofsóknir, sem hv. þm. hélt fram, að Sigurður Einarsson hefði orðið fyrir; ég leyfi mér að nefna hann þannig, því að hér hefir ekki verið talað um hann sem þm. í þessum umr. Ég skal annars ekki deila um þetta mál, því að mín ræða gaf ekkert tilefni til þess; ég geri ráð fyrir, að allir hafi tekið eftir því, hvað ég sagði um þetta. Ég sagði ekkert um það, hvort mér fyndist fréttaflutningur hans góður eða vondur, leiðinlegur eða skemmtilegur; ég sagði aðeins, að þeir, sem skipa fréttamann í útvarpið og skipa til þess mjög harðvítugan pólitískan mann, gera sitt til þess að gera útvarpsfréttaflutninginn hlutdrægan, og þetta stend ég við, en hinsvegar sagði ég aldrei, að þessar fréttir væru hlutdrægar. — Hvað gáfnaprófi í sambandi við fréttaflutninginn viðvíkur, þá þakka ég hv. þm. fyrir þá viðurkenningu, sem hann gefur mér í því efni, því að ég verð að segja, að mér þykir skemmtilegt að hlusta á Sig. Einarsson lesa upp fréttir, svo að ég hefi staðizt þetta gáfnapróf. Ég skal hinsvegar ekkert um það fullyrða, hvort málrómur hans er sá fallegasti, sem maður heyrir í útvarpinu.

Hv. þm. sagði, að ég væri ósannsögulasti maður, sem til væri á Íslandi. Ég ætla að láta hann um það; ég hélt, að hann vildi hafa metið, en ef hann vill láta mér það eftir, þá þigg ég það með þökkum, eins og annað frá þessum hv. þm.

Þá minntist hv. þm. á útvarpsstjórann og reyndi að hrekja þau orð mín, að það væri ómögulegt að finna, hvað útvarpsstjórinn hefir gert. En það fór eins fyrir hv. þm. og mér; hann gat alls ekki fundið, hvað útvarpsstjórinn hefir gert. Eftir skoðun hv. þm. gæti útvarpið vel haft forstjóra, sem ekkert kann. — Ég er svo eiginlega búinn með það, sem ég þarf að svara þessum hv. þm.

Ég skal ekki fara að minnast mikið á þetta með bílana og það. Honum fannst þetta sjálfsagður hlutur. Ég skil það vel; þessi hv. þm. hefir sem ráðh. keypt 100 sinnum meira af bílum heldur en Jónas Þorbergsson gerði; svo notaði hann varðskipin líka. Það var ekki nóg fyrir hann að ferðast fyrir óleyfilegt fé á landi; hann varð að gera það líka á sjó, svo að það er ekki von, að honum vaxi þetta í augum. En það var þó úrskurðað af stj., að það skyldi endurgreiða nokkuð af þessu fé, svo að það eru ekki eingöngu Morgunblaðslygar, að hann gerði það, sem hann átti ekki að gera. Almenningsálitið kom svo skýrt fram, að hann reyndi ekki að bjóða sig fram aftur, enda vitanlegt, að hann hefði sótt slíkan dóm til sinna kjósenda, að það var miklu skynsamlegra af honum að bjóða sig ekki fram. Ég veit það, að þegar hann fer að verja svona hluti, eins og t. d. þjófa og þess háttar, þá verður hann fyrst verulega mælskur. Og ég ætla, að ef þjófur þarf að fá mann til að verja sig, þá fái hann ekki betri mann en þennan hv. þm. (JJ: Ég varði aldrei Jóhannes Jóhannesson). Þetta er sennilega af því, að hann þarf svo oft að verja sjálfan sig.