29.04.1936
Neðri deild: 59. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

130. mál, símaleynd

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Þessi þáltill. á þskj. 447, sem hér liggur fyrir, er að minni hyggju tilefnislaus. Það er þrennt, sem gert er ráð fyrir samkv. henni, að tekið verði til rannsóknar: Í fyrsta lagi, að hve miklu leyti símaleyndin hafi verið rofin, í öðru lagi, í hvaða augnamiði hún hafi verið rofin, og í þriðja lagi, að hverra tilhlutun hún hafi verið rofin. Og til þess að rannsaka þessi 3 atriði ætlast till.menn til, að sett verði n. innan þings til þess að rannsaka málið fyrir þinglok. Nú er það upplýst í þessu máli, að hve miklu leyti símaleyndin hafi verið rofin, að það hefir verið gert tvisvar, í sambandi við bílstjóraverkfallið í desember og nú í þessum mánuði í sambandi við yfirgripsmikið mál út af áfengislagabrotum. — Þá er 2. atriðið: í hvaða augnamiði þetta hafi verið gert. Því hefir verið margsvarað; það var gert í því augnamiði að reyna að komast fyrir saknæmt athæfi og afstýra vandræðum. — Í 3. lagi er spurt, að hvers tilhlutun þetta hafi verið gert. Það liggur einnig fyrir, að það var gert að tilhlutun og af lögreglustjóranum í Reykjavík sjálfum. Ég sé ekki betur en að öll atriðin, sem ætlazt er til að lá upplýst með þessu, hafi þegar verið upplýst að öðru leyti en því, hvaða númer hafi verið hlustað í. Það hefir komið fram hér í þessum umr. hjá ég held hæstv. dómsmrh., að hann telji eðlilegt og sjálfsagt, að dómur lögreglustjóra í áfengismálinu gangi til hæstaréttar til fullnaðaraðgerðar. Ég fæ ekki séð, að það sé neitt í þessu máli, sem gefur tilefni til rannsóknar eins og til er ætlazt samkv. þáltill. Ég tel ekki ástæðu til yfirleitt að setja slíka rannsókn á, þó að nokkrir miður orðvandir þm. innan Sjálfstfl. láti sér sæma að bera það fram, að ríkisstj. haldi uppi skipulögðum njósnum um pólitíska andstæðinga. Og ef ætti að fara að setja slíka nefnd á laggirnar í hvert skipti, sem einhverjum dettur í hug að ljúga einhverju upp á ríkisstj., þá mætti sennilega setja slíka n. nokkuð oft á fót. (Rödd: En ef annaðhvort ráðh. eða póst- og símamálastjóri eru staðnir að því að hafa logið?). Hvorugur þeirra hefir logið. — Ég get í rauninni látið mínu máli lokið. Það, sem er rannsóknarefni í þessu, er sumpart upplýst að fullu eða verður upplýst undir meðferð málsins í hæstarétti. Órökstuddum fullyrðingum og dylgjum um, að ríkisstj. hafi rekið pólitískar njósnir dettur mér ekki í hug að svara, því að auk þess sem það er ósæmilegt fyrir ríkisstj. að ræða slíkt atriði, þá er það líka ósæmilegt af þessum hv. þm. að láta svo, að þessi rannsókn sé af tómri umhyggju fyrir stj. og velferð hennar. Ég hefi hingað til orðið þess var, að heiðri stj. væri bezt komið með því að hlítt væri í engu forsjá hv. þm. G.-K. og hans flokksmanna. En aðalatriðið í þessu sambandi er það, að þó að einhver óvandaður stjórnarandstæðingur finni upp á því að koma með slíkar fullyrðingar, þá sé ég ekki ástæðu til að hlaupa eftir því; það yrði ærinn skollaleikur. — Út af ummælum hv. þm. G.-K. um Guðmund Pétursson vil ég segja það, að þau eru tilefnislaus og ósæmilegt að bera slík ummæli á mann sem er fjarverandi og getur þess vegna ekki borið hönd fyrir höfuð sér. (ÓTh: Þennan engil). Nei, hann er ekki engill, hann er mennskur maður, en betri þó en þessi hv. þm. Ég gat þess hér áður við umr. um þetta mál, og get endurnýjað það hér nú, að það er fullkomlega mín skoðun, að hjá þeim, sem hæst láta í þessu máli, sé ástæðan ekki opnun símanúmeranna, sem um ræðir í þessu máli, heldur gremja yfir árangri lögreglurannsóknar í landhelgismálunum og þjónustu fjölmargra þeirra flokksmanna við landbelgisbrjóta, innlenda og erlenda. Þeir hafa hugsað sér þarna leik á borði og gefið sinni gremju þarna útrás og ætlað að reyna að fá jöfnuð á. Rök hv. þm. G.-K. fyrir því, að ekki hefði verið tilefni til slíks úrskurðar, sem hér um ræðir í sambandi við áfengisrannsóknina, minna mig helzt á röksemdir Nasreddins hins tyrkneska, er það var borið á hann, að hann hefði brotið pott fyrir náunganum, en eins og dm. munu kannast við, varði hann sig á þessa leið: „Í fyrsta lagi fékk ég engan pott lánaðan, í öðru lagi var hann brotinn, þegar ég fékk hann, og í þriðja lagi var hann heill, þegar ég skilaði honum.“ Alveg nákvæmlega sömu röksemdir voru það, sem hv. þm. G.-K. bar hér fram, og get ég látið nægja að vísa til þessarar gömlu sögu.