30.03.1936
Sameinað þing: 8. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3172)

62. mál, raforkuveita frá Soginu

*Flm. (Eiríkur Einarsson):

Hv. þm. vita, að af þeim framfaramálum, sem hér hafa verið á dagskrá á síðustu árum, hefir raforkumálið skipað fyrsta sess. Það er ekki heldur undarlegt, að svo skuli vera, þegar tekið er tillit til þess, hvers raforka má sín til þess að veita birtu og hlýju og verða til annara nota hér á landi skammdegis og vetrarfrosta. Þá sér maður, að mikið gott mætti af því hljótast, ef slíkur máttur yrði tekinn almennt í þjónustu manna hér á landi. Það er líka augljóst, að hér á landi eru raforkulindir svo að segja óþrjótandi.

Þegar menn eru að vakna til meðvitundar um mikilvæg framtíðarmál, þá eru það venjulega aðeins þeir viljamestu og framsýnustu, sem sjá, hvers virði þau eru, og eru þá eins og árrisulir menn, sem komnir eru á fætur og farnir til vinnu á meðan aðrir eru í fasta svefni, en geta þá oft verið gengnir til hvílu áður en almenningur er kominn á fætur.

Það hefir margt skeð síðan og áratugir hafa liðið síðan fyrst var farið að tala um virkjunarmöguleika Sogsfossanna og þangað til nú, að það er að komast til framkvæmda. Það er ekki heldur undarlegt, þótt langur tími liði frá því byrjað var að ræða um slíkt stórmál, því það er til afsökunar að sumu leyti, að aðstöðu vantaði til þess að hagnýta orkuna, þótt vilji hefði verið nægur og þekking og undirbúningur, og að sumu leyti verkið svo sérstakt og stórvaxið, að von var, að langur tími yrði að líða áður en hafizt yrði handa um framkvæmd þess.

Allar bollaleggingar þær og tal um stórnot raforkunnar hafa fyrst tekið sér bólfestu í heimi veruleikans með virkjun Sogsfossanna (sem nú er komin svo langt, að ætlazt er til, að hún komi að notum á næst, ári, eða svo er til ætlazt, að hún verði fullgerð haustið 1937), með þeim hætti, að Reykjavík er sá aðili, sem þar hefir hafizt handa og ætlar að tileinka sér þessa orku og nota hana sjálf eða selja hana öðrum, eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Þegar ég sem meðflm. að þeirri till., sem hér liggur fyrir, fer að ræða um þetta mál, þá er eins um mig farið eins og ég þykist vita, að sé um marga aðra, að þekkinguna brestur til þess að vita ýmislegt það og geta gert sér grein fyrir ýmsu því, sem ég gjarnan vildi geta frætt aðra um. Verkefnið er stórt, og mikla þekkingu þarf til að fara með þetta efni. En ég hefi þá gildu afsökun, að með þessari till., sem er flutt hér, er verið að leita fróðleiks og þekkingar, en ekki verið að veita það, og það er í vanþekkingarinnar heimi afsakanlegt, þótt reynt sé að leita meiri þekkingar.

Ég vil þá á víð og dreif ræða nokkru nánar ýms atriði, sem lúta að framkvæmdum þessa máls eins og það horfir við og um þá till., sem hér liggur fyrir til umræðu. — Ég vil þá í fyrsta lagi varpa fram þeirri spurningu og gera grein fyrir því, hvort svo sé háttað, að aðrir en Reykjavík sjálf geti orðið þessarar raforku aðnjótandi. Þessari spurningu er hægt að svara án umræðu. Allir vita það, að svarið er játandi. Það er full rannsókn fyrir því að orkan í Soginu, eins og það er virkjað og með þeim aukningarmöguleika, sem þar er fyrir bendi, er langtum meiri en til þarfa Reykvíkinga. — Þegar teknar eru til athugunar þær uppástungur, sem komið hafa fram um það, að raforkan frá Soginu nægi til þess að lýsa upp stór svæði á Suðurlandi — jafnvel alla leið frá Skaftafellssýslu og vestur á Snæfellsnes — hygg ég að svarið verði einnig játandi. Eftir umsögn kunnugra manna hygg ég, að orkan mundi nægja til þess, ef um venjulega notkun er að ræða; og aðeins til þess að gera sér nokkra hugmynd um þetta, má geta þess, að það, sem Reykjavík lætur virkja af Soginu, mun vera um 10 þús. hestöfl, en virkjunarmöguleikarnir eru 25 þús. hestöfl. Hér er því um mikið afl að ræða, og eru miklir möguleikar til, að hægt sé að njóta góðs af því.

Ég vil náttúrlega strax slá þann varnagla, að þótt ég segi það, að orkan sé svo mikil, að hún væri nægileg á þessu stóra svæði, sem ég nefndi, þá er öðru nær en að hér sé verið að bera fram till. til þál. um, að stofnað sé til svo stórfelldrar raflagningar. Höfuðatriðið er að fá skorið úr því, sem helzt orkar tvímælis um það, hve langt sé gerlegt að ganga um rafleiðslur í sambandi við Sogsvirkjunina og hvar eigi að setja takmarkið, svo að það borgi sig nokkurnveginn og að ríkið reisi sér ekki hurðarás um öxl.

Þar næst vil ég bera fram þá spurningu, hvort það sé kleift fyrir aðra en Reykjavík, og að hve miklu leyti það sé kleift. Um þetta þarf rannsókn, og fyrr en hún hefir farið fram er ekki hægt að marka skýra afstöðu, en náttúrlega verður það jafnan almenn ákveðin ósk að fá að njóta raforkunnar. (Það væri á móti náttúrlegu eðli að vilja ekki njóta þess, sem sólin veitir á þeim tíma, sem hennar nýtur ekki). En þótt almenningur sjái þessa nauðsyn og gæði þess að geta notið raforkunnar, þá hafa vaxið upp miklir hleypidómar um þetta mál og skoðanir manna eru skiptar um það. — Í öðru lagi hefir almenningur hugboð um, að hér er um stórmál að ræða og að fyrir fátæka þjóð yrðu það miklir peningar, sem slíkt stórvirki kostaði, og það er í sjálfu sér góð og gild afsökun. Það hefir farið svo, að margir þeir, sem ræða um þetta, eru annaðhvort bjartsýnir eða of svartsýnir. Þeir bjartsýnu segja sem svo: Þegar búið er að beizla Sogið og veita raforku þaðan til Reykjavíkur, — hvers vegna skyldum við þá verða settir hjá? Við höfum samskonar þörf fyrir raforkuna, og úr því að hægt er að leiða hana til Reykjavíkur, hvers vegna skyldi þá ekki líka vera hægt að leiða hana til okkar? — Þetta segja þeir bjartsýnu án þess að leita að rökum fyrir því. — Aðrir eru til, sem segja sem svo: Þetta verður svo dýrt, að ekki er til neins að tala um það, — það er ókleift. — Báðar þessar hleypidómaskoðanir hefir maður orðið var við í sambandi við þetta, og sérstaklega frá sjónarmiði þeirra, sem eru hræddir um, að raforkunotkun í leiðslum út frá Soginu yrði svo dýr, að hún sé ekki framkvæmanleg. Þá hættir þeim við að blanda því saman, hvað er erfitt fyrir þá, sem eru nærri, og hina, sem eru fjarri.

Það er vitaður hlutur, að því lengri veg, sem þarf að leiða, og því færri sem notendur eru, því dýrara og erfiðara verður aflið. Þar gildir rannsókn, hvort helzt sé um greinar að ræða frá Soginu og ekki lengri leiðslur en svo, að þær geti borgað sig.

Því hefir verið haldið fram af kunnáttumönnum, sem um þetta hafa fjallað, að hér ætti að fara að á svipaðan hátt eins og með landsímann, að byrja fyrst á því að leggja til þeirra staða, þar sem fólkið er flest og skemmst er að leggja og láta það svo þróast af sjálfu sér, eftir því hvernig það ber sig. Þetta sýnist manni með leikmannsviti á málefninu, að sé sanngjarnt og rétt.

Í bráðabirgðaáliti, sem rafmagnsfræðinganefnd gerði á árinu 1931, eru margar upplýsingar. Með því að leggja kostnaðinn reikningslega niður fyrir sér, kemst nefndin að þeirri skyndiniðurstöðu, að nokkrar rafleiðslulínur (utan þeirrar, sem liggur til Reykjavíkur) muni geta orðið sjálfstæðar og borið sig, og það, sem þar er sagt hefir vitanlega meiri stoð í veruleikanum heldur en það, sem einn eða annar kann að segja um málið. Þær línur, sem þar er gert ráð fyrir frá Soginu, eru lína um Hvalfjörð til Akraness og lína, sem næði til Hafnarfjarðar og Reykjaness, og svo lína frá Soginu og niður í kauptúnin Eyrarbakka og Stokkseyri, og svo að síðustu lína til Vestmannaeyja. Þetta minnir mig, að væru aðallínurnar, sem í álitinu væri gert ráð fyrir, að væru sjálfstæðar og mundu bera sig með normal-tekjum, og að það yrði ekki þungbærari skattur en svo sem 42 kr. fyrir ársnotkun manns, sem við það ætti að búa, til ljóss og hita og jafnvel meiri notkunar, eftir því hvernig notkun verður fyrir komið í hvert skipti og eftir því, hvort fólki fjölgar eða fækkar.

Samkv. þessari bráðabirgðaniðurstöðu rafmagnsnefndar — ef hún er rétt — ætti fyrst og fremst öllum þessum stóru kauptúnum og kaupstöðunum að verða kleift að nota raforku frá Soginu, og jafnframt er líklegt, að jákvætt svar verði við þeirri spurningu, hvort það verði ekki líka kleift fyrir íbúa þessara sveitabyggða, sem menn áætla, að nemi um 30% af fólksfjölda. (Það er í þessum sýslum: Rangárvalla-, Árnes- og Gullbringu- og Kjósarsýslum og héruðunum vestur um Borgarfjörð). Hér er um svo stórt mál að ræða, að ef allt gengur vel, þá ætti Ljósafoss eins og hann nú er virkjaður og með auðveldri aukningu að geta gefið raforku helmingi þjóðarinnar. (Þessum héruðum að Reykjavík meðtalinni). Hér er því um þjóðmál að ræða, og ber því að athuga sem bezt alla möguleika því til framkvæmdar.

Það sést bezt á því, hve mörg heimili sækja það fast að verða rafmagnsins aðnjótandi, með því að búa út stöðvar hjá sér, hve almennt það er talið mikils virði að fá raforku heim til sín. — Sama er að segja um kauptúnin: mörg þeirra hafa lagt mikið í sölurnar til þess að koma á raflýsingu hjá sér, keypt dýra mótora o. s. frv. Alveg sama máli gegnir um einstaklingana; margir bændur hafa kostað miklu fé til þess að koma upp rafmagnsstöðvum hjá sér, og þess munu jafnvel dæmi að slíkar stöðvar hafi kostað allt að 20 þús., og hafa því í sumum tilfellum reynzt ofraun fyrir hlutaðeigendur. Þrátt fyrir þessa örðugleika og ýmsa fleiri mun þó mega fullyrða, að engir, sem á annað borð hafa komizt á að nota rafaflið til lýsingar og hitunar, vilja missa af því aftur. Menn vilja þvert á móti nær allt til vinna til þess að fá að halda því. Hvort hægt muni verða fyrir þau héruð og þá einstaklinga, sem í þessu tilfelli gætu komið til greina, að fá raforku til hitunar og lýsingar frá Sogsvirkjuninni, að kljúfa þann kostnað, sem af því myndi leiða, eiga rannsóknirnar eftir að sýna. Jafnframt verður geta þjóðarinnar líka að segja til um, hvað hægt verður að gera.

Ég þori nær alveg að fullyrða, að sú skoðun muni vera allvíða ríkjandi, að þetta mál sé eitt hið allra nauðsynlegasta þjóðþrifamál, sem nú er á döfinni hjá okkur. Það má því með engu móti láta standa á rannsókn og undirbúningi þess, þegar Alþingi kynni að vilja hefjast handa um framkvæmdirnar. Ef sú spurning skyldi vakna hjá einhverjum, hvort fólk austan heiðar hefði nú í raun og veru mikinn áhuga fyrir þessu, þá þori ég alveg hiklaust að svara því játandi, og jafnframt skal ég geta þess, að á sínum tíma var stofnað félag eystra til þess m. a. að halda þessum málum vakandi, og nú síðan byrjað var á Sogsvirkjuninni hefir áhugi fólksins fyrir þessu velferðarmáli héraðsins vaknað enn á ný. Hann er jafn og óskiptur, hvort heldur er fram til dala eða niðri í kauptúnunum. Þar kemst enginn flokkadráttur að. Pólitík Sogsmálsins þar eystra er málið sjálft, og ekkert annað.

Hvað snertir Suðvesturlandið, þá mun varla um annað verða að ræða en nota afl frá Soginu til lýsingar og hitunar. Það hefir að vísu verið talað um að virkja ýmsa fossa fyrir ákveðin héruð, eins og t. d. Andakílsfossana fyrir Borgarfjörð og héruðin þar fyrir vestan, en allt slíkt umtal hefir legið niðri nú um tíma vegna Sogsvirkjunarinnar. Það eru allra augu, sem mæna þangað hvað lausn þessara mála snertir, eins og nú standa sakir. Hver áhrif það myndi hafa fyrir vellíðan og afkomu þess fólks, sem kæmi til með að njóta þessara framkvæmda, verður ekki neitt fullyrt um að svo komnu, en ég get hinsvegar búizt við, að það geti haft mikil og djúptæk áhrif á vellíðan fólksins, svo djúptæk, að það verði eitt stærsta atriðið til þess að fá fólkið til að vera kyrrt í sveitunum. — Þá má og í þessu sambandi minna á nýbýlahugmyndina, sem nú er að verða að veruleika. Hvað myndi kannskt frekar en ylur og birta ýta undir hana? Í einu orði sagt, framkvæmd þessa mikla menningarmáls myndi verða hin mesta jafnréttishjálp, sem hægt væri að gera fyrir fólkið í þessum byggðarlögum, því að jafnt snauðir sem ríkir myndu hafa þess not.

Þá er það atriði, hvort rannsókn á þessu máli sé mjög aðkallandi. Þessu hefi ég í raun og veru svarað áður játandi. Það liggur nfl. alveg í augum uppi, hvort ekki sé miklu heppilegra fyrir stj. að láta gera heildaryfirlit yfir leiðslu á raforku frá Soginu til hinna ýmsu héraða, sem komið getur til mála að láta fá orku þaðan, heldur en að láta fara að rannsaka möguleika til rafmagnslýsingar og hitunar fyrir hin ýmsu héruð á þessu svæði. En eins og kunnugt er, þá hefir bæði Akranes og fleiri kauptún á þessu svæði haft á orði að reyna að koma á virkjun til lýsingar og hitunar fyrir sig. Með því að láta gera ýtarlega rannsókn fyrirfram, sem byggja mætti á, ætti að vera auðveldara að forðast ýms skakkaföll, sem oft vilja eiga sér stað, þegar undirbúningur er slæmur.

Þá er og aðkallandi að fá heildarrannsókn á þessum málum með tilliti til smárafveitanna, því að eins og kunnugt er, þá eru alltaf einhverjir einstaklingar, sem brjótast í að virkja fyrir sig, og það oft án nægilegs undirbúnings, sem leiðir svo stundum til þess, að hlutaðeigandi reisir sér hurðarás um öxl með fyrirtækinu.

Þá má og benda á eitt enn, sem getur gert það aðkallandi, að rannsókn þessari sé flýtt, en það er hin fyrirhugaða áburðarverksmiðja, sem rætt hefir verið um hér á Alþingi nú fyrir stuttu. Að nú sé hentugur tími til þess að láta þessa rannsókn fara fram, getur varla orkað tvímælis, þar sem þörfin fyrir hana er svo knýjandi, eins og ég hefi bent á, og í öðru lagi má líka taka tillit til þess, að eins og nú standa sakir, þá hefir ríkið í þjónustu sinni sérfræðinga á þessum sviðum, sem nú munu hafa lítið að gera.

Eina hugsanlega mótbáran, sem ég gæti búizt við, að kynni að koma fram gegn því, að þörf væri á þessari rannsókn, er sú, að þegar sé búið að rannsaka þessa hluti. Þessari mótbáru, ef fram kemur, get ég svarað því, að fræðimennirnir, sem á sínum tíma voru skipaðir í nefnd til þess að rannsaka þessi mál, telja sjálfir, að rannsókn sú, sem þeir gerðu, hafi aðeins verið bráðabirgðarannsókn, og skýrsla sú, sem þeir gáfu 1931, því bráðabirgðaskýrsla, sem aðeins beri að líta á sem byrjunargrundvöll, sem byggja megi á víðtækari rannsóknir. Þá telja þeir líka alla aðstöðu nú mjög breytta frá því, sem hún var þá. M. a. hafi verðlag t. d. breytzt mjög frá því, sem það var þá, og ennfremur, að Sogsvirkjunin sé nú hafin, en við hana verði að sjálfsögðu að miða runnsóknina nú.

Um tillöguliðina mun ég ræða lítið eitt. Þeir eru, eins og sjá má á þskj., þrír alls. Þar er fyrst farið fram á, að framkvæmdar verði rannsóknir og áætlanir gerðar um hentugustu raforkuveituleiðir frá orkuveri Sogsins til þeirra byggðarlaga, sem rafveita þaðan gæti helzt komið að notum. Þá er það og tekið fram, að það þurfi að koma skýrt fram í áætluninni, hvað raforka myndi verða dýr fyrir einstök heimili, bæði hvað stofnkostnað snertir og notkun. Jafnframt er gert ráð fyrir, að það komi og einnig fram, hver myndi verða kostnaður við stofnun raforkuveitu til almenningsþarfa í þeim byggðarlögum, sem hugsanlegt er, að ná myndu í þessu tilfelli til Sogsvirkjunarinnar, svo og hvern styrk myndi þurfa að veita til þess að koma slíkum orkuveitum á.

Þá er og eitt atriði, sem ég vil láta koma fram hér, og ég skal taka það fram, að ég segi það alveg án tillits til þess, hvort ég telji ríkisrekstur almennt hagkvæman eða ekki, en það er, að ég álít, að raforka til almenningsnota eigi að vera í ríkisrekstri, og í þessu tilfelli tel ég, að ríkið eigi að verzla við Reykjavíkurbæ. Mér finnst nfl. ekkert eðlilegra en að ríkið sjálft veiti ljósi og yl út til barna sinna.

Hvað snertir kostnað við þessa rannsókn, þá hygg ég, að hann geti orðið lítill, því að eins og ég tók fram áðan, þá hefir ríkið í þjónustu sinni sérfróða menn á þessum sviðum, sem eru á fullum launum hvort sem þeir hafa lítið eða mikið að starfa. En eins og nú standa sakir mun frekar lítið vera fyrir þá að gera. Annars má gjarnan geta þess svona til gamans, án þess að það út af fyrir sig hafi beinlínis þýðingu í þessu sambandi, að einmitt þessa dagana var íslenzkur maður, Jón Ágústsson að nafni, sonur Ágústs Bjarnasonar prófessors, að ljúka prófi í rafmagnsverkfræði við pólytekniska háskólann í Kaupmannahöfn, og tók sér fyrir verkefni útreikningana við Sogsvirkjunina hér. Hann mun hafa hlotið bezta próf. Þetta sýnir aðeins, hve Sogsvirkjunin vekur víða athygli og er talin mikið verk.

Mun ég svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vænti þess, að hæstv. stj. taki till. vel og veiti henni brautargengi.