10.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (3266)

119. mál, lax- og silungsveiði

*Pétur Ottesen:

Ég get fallizt á það, sem hv. fyrri flm. þessarar till. sagði, að ekki væri út frá þjóðhagslegu sjónarmiði heppilegt að sporna á móti því, eins og gert er með laxveiðilögunum, að laxinn sé veiddur þegar hann er nýrunninn úr sjónum, en ekki þegar hann er orðinn leginn og engin verzlunarvara. Þessu héldum við fram, sem gagnrýndum núverandi laxveiðilöggjöf á þinginu 1935, en ég sé ekki, að í þessari till. felist nein leiðrétting í þessu efni, því að laxveiðilögin lágu einmitt fyrir þessu þingi, og það er síður en svo, að það sé nokkur stefna uppi um það að rýmka til um veiði á laxi, sem er nýrunninn úr sjónum. Ég held þess vegna, ef ætti að ákveða með lögum að taka allan rétt af einstaklingunum, sem hagsmuna eiga að gæta í þessu efni, að það yrði til þess að bæta gráu ofan á svart og að þeirra hlutur yrði ennþá verri heldur en hann er nú. Ég vil því alls ekki ýta undir löggjöf, sem gerir þær ráðstafanir, sem gætu leitt til þess, að ennþá meira yrði skertur réttur einstaklinganna til þess að nota laxveiðarnar á skynsamlegan hátt.

Hv. fyrri flm. vildi draga það í efa, að það væri rétt hjá mér, að stefnan í landinu væri sú, að hagnýta bergvatnsárnar sem bezt til stangarveiða. Ég skal t. d. benda á, að allar bergvatnsár í Borgarfirði, sem laxveiði er í, eru hagnýttar á þann hátt, að eingöngu er veitt í þeim með stöng og gersamlega tekið fyrir alla lagneta- og ádráttarveiði. Ég get búizt við, að þó að Borgfirðingar hafi reynzt öðrum framsýnni í þessum málum, þá sé þess að vænta, að aðrir feti í þeirra spor og komi sínum laxveiðimálum í sama horf og þeir. Og eins og ég minntist á áðan, þá er lagður góður grundvöllur undir þetta í laxveiðilögunum með því ákvæði, að ekki þurfi nema 2/3 atkv. til þess að samþ., að slíkur félagsskapur sé tekinn upp.