22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

21. mál, botnvörpuveiðar

*Pétur Ottesen:

Ég vil aðeins út af því, sem hv. þm. Ísaf. var að gera lítið úr áliti mínu og sjómanna yfirleitt, þ. e. a. s. þeirra manna, sem ekki hafa prófvitnisburð upp á vasann fyrir því, að þeir séu svo eða svo miklir vísindamenn, benda honum á, að enn sem komið er hefir Alþingi, eða meiri hluti þess, sýnt, að það er á öndverðum meiði við skoðanir þessara fiskifræðinga, með því að samþ. og halda í gildi l. um bann gegn dragnótaveiðum. Hinsvegar hefir það byggt á skoðunum og reynslu sjómanna og annara leikmanna, sem álit sitt á þessu efni hafa látið í ljós. Ég tek þetta fram til að minna á, að ég er ekki sá eini, sem lít öðruvísi á heldur en sá margumræddi fiskifræðingur, sem hv. þm. Ísaf. og fleiri, sem skerða vilja á ýmsan hátt það öryggi sem felst í verndun hinnar íslenzku landhelgi, bera fyrir sig sem skjöld í því miður þarfa starfi sínu.