10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í B-deild Alþingistíðinda. (428)

50. mál, eftirlit með útlendingum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. tók fram, að í stað þess, að þingið setji ákvæði um, hverskonar skilríki skuli sýnd, er það eftir till. n. lagt í vald ráðh. En ég vildi vekja athygli hv. þdm. á því, sem stendur hér í brtt.: „Útlendingum, sem koma hingað til lands, er óheimilt að fara í land til dvalar, nema þeir hafi skilríki, sem sýni á fullnægjandi hátt, hverjir þeir eru.“ Það er, eftir þessu nægir, að útlendingar sýni fæðingarvottorð, eða bifreiðastjóraskírteini, til þess að þeir sýni, hverjir þeir séu. En þar stendur ekkert um, hvort þeir séu fangar nýsloppnir úr tukthúsi eða hvað. (MG: Það stendur hér: „á fullnægjandi hátt“). Það er þýðingarlítið að samþ. frv. með þessari breyt., sem hér liggur fyrir, því þá er aðalatriðinu algerlega sleppt, sem sé að krefjast vegabréfs, og eins og ég hefi bent á, getur hvaða stj. sem er lagað þetta í hendi sér og t. d. aðeins gert kröfu um bifreiðastjóraskírteini, því þau eiga að sýna, hver eigandinn er. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. hélt fram, að með þessu er algerlega lagt í vald ráðh. hvaða skilríki skuli heimtuð.