17.03.1936
Neðri deild: 26. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (479)

74. mál, herpinótaveiði

Frsm. (Finnur Jónsson):

Sjútvn. hefir borizt áskorun frá fiskiþinginu um að afnema þau lög, sem ræðir um í 1. gr. þessa frv., og sjútvn. hefir orðið við þessari áskorun af því, sem segir í grg., að lög þau, sem hér um ræðir, eru fyrir löngu orðin dauður bókstafur. Að vísu var einhverntíma samþ. að banna herpinótaveiði á Skagafirði, en sú samþykkt er nú fallin, þar sem hún er orðin meira en 10 ára gömul og hefir aldrei verið endurnýjuð. Það er líka vitað, að Skagfirðingum er það áhugamál, að veitt sé þar á firðinum sem mest af síld í herpinót, en sú veiði sé ekki heft, þar sem nú hefir verið sett upp söltunarstöð á Sauðárkróki. Í Eyjafirði hafa þessi lög aldrei verið notuð. Á Húnaflóa hafa verið bönnuð stór svæði, og er svo að vísu enn, að nafninu til en það er algerlega hætt að fara eftir því, og ég veit ekki til, að yfir því hafi verið kært, enda er það viðurkennt, að herpinótaveiði spilli ekki annari veiði. — Það er þess vegna ekki um annað að ræða með frv. en að afmá dauðan lagabókstaf til hagsbóta fyrir almenning. Sjútvn. hefir því leyft sér með þessu frv. að leggja til, að lög þessi verði afnumin.

Leyfi ég mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.