07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1937

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Hv. hlustendur! 14 mínútur er ekki langur tími og ég kemst ekki yfir mikið af því, sem ég vildi segja.

Ég vil minna á það, út af orðum hv. þm. V.-Húnv., þegar hann var að eigna okkur framsóknarmönnum hv. 10. landsk. og hans ráðherradóm, að það, sem við finnum að hv. 10. landsk., er það, að hann starfaði í anda sjálfstæðismanna og gleymdi öllum áhugamálum Framsóknarflokksins á meðan hann sat í ráðherrastóli og getur ekki á neinn hátt talizt til þess flokks eftir að hann hóf starf sitt í samsteypustjórninni, og Framsfl. hefir enga ábyrgð á hans aðgerðum.

Það er rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., að Sjálfstfl. hefir verið með ýmsum góðum málum. Hann hefir verið með þeim, þegar búið hefir verið að þvinga hann til þess með almenningsálitinu. Þannig er það t. d. með jarðræktarlögin og m. fl. Ég hygg jafnvel, að þeir mundu nú fást til að flytja frv. til l. til að fyrirbyggja njósnarstarfsemi fyrir landhelgisbrjóta, þótt þeir hafi barizt á móti því nú í mörg ár. Nú greiddu þeir atkv. með því. Þannig má þvinga þá til að fylgja góðum málum og það hefir verið gert í þessum málum með því að nota almenningsálitið til þess að beygja þá.

Þá höfum við einnig næga reynslu af skuldasöfnun sjálfstæðismanna þegar þeir hafa farið með völd. Og hér í Reykjavík, þar sem þeir eru einráðir, hafa gjöldin hækkað svo gífurlega á síðustu árum, að ef eins væri hjá ríkinu ættu fjárlög nú að vera yfir 40 millj. kr. Hvernig var á Ísafirði þegar sósialistar tóku við af íhaldinu? Hvernig er í Vestmannaeyjum? Nei, í öllum bænum reynið ekki að bera blak af fjármálastjórn íhaldsins, við höfum svo allt of mikla reynslu af henni.

Hv. 10. landsk. ætla ég að yfirgefa í stórveldisdraumum sínum, en vil aðeins minna hann á í sambandi við kreppulánasjóðinn, að honum hefði verið nær að ganga sæmilega frá þeirri löggjöf í fyrstu heldur en að vera nú að hæla sér af því að hafa komið henni á, eins og hún var.

Þessi hv. þm. á nú eftir að tala, og ég býst við að hann fari þá að vana sínum og tali um 10–20 liði, sem hann segist hafa borið hér fram og hafi ekki verið svarað og bæti þá einhverju nýju við. Þetta er hans venjulega aðferð og sjálfsagt bregður hann ekki vana sínum.

En áður en ég hætti, vil ég rifja upp eitt atriði, sem mér finnst eiga vel við í sambandi við þessa stórveldisdrauma hv. 10. landsk. Þetta atriði, sem ég ætla að rifja hér upp og festa í minni hlustenda, eru þau orð, sem hv. þm. G.-K. segir um það, hvernig hv. þm. V.-Húnv. komst á þing nú síðast. Hann segir svo — með leyfi hæstv. forseta:

„Það er satt, að ég hefi í því engu að leyna, að meðan stóð á undirbúningi fyrir síðustu kosningar var ég því heldur fylgjandi, að þessi hv. þm. kæmist á þing, og þó að Sjálfstæðisflokkurinn hefði frambjóðanda í þessu kjördæmi, þá var hvorki af mér né sumum öðrum flokksmönnum gert það, sem hægt var til stuðnings kosningu hans og sagði ég honum frá því.

En eftir að formaður flokksins hafði tekið sína afstöðu og skrifað bréf norður, þá fylgdi ég honum vitanlega að málum í þessu sem öðru. En ég leyni því ekki, að ég hygg að mín afstaða og sumra annara sjálfstæðismanna hafi ráðið miklu um það, að þessi hv. þm. komst að, og ég harma það ekki, að svo fór.“

Ætli það fari ekki að draga úr stórveldisdraumunum þegar það er upplýst mál og sannað, að Sjálfstfl. þarf ekki annað en að kippa í snúru, til þess að sjálft móðurskipið sökkvi og flokkurinn sé ekki lengur til. Halda mun, að hjá þessum flokki, sem þannig er ástatt um, sé til nokkurt sjálfstæði gagnvart þeim flokki, sem ræður algerlega yfir lífi hans? Ég vil aðeins minna hv. 10. landsk. á þetta, áður en hann kemst hærra í sínum stórveldisdraumum.

Ég vil svo jafnframt minna hv. þm. V.-Húnv. á það, að í umr. um fjárl., þegar þau voru lögð hér fram, var skorað á hann að nefna einhvern af þeim bitlingum, sem hann sagði, að ríkisstj. hefði haldið að sínum fylgismönnum. Ég minni hv. útvarpshlustendur á það, að því hefir verið haldið fram, að varið hafi verið allt að einni millj. til þess að ausa í fylgismenn stj. með bitlingum. Hv. þm. V.-Húnv. lofaði að nefna dæmi um þetta við þessar útvarpsumræður, en hann hefir ekki ennþá komið með eitt einasta dæmi, ef til vill reynir hv. 10. landsk. að koma með „dæmi“ núna, þegar ekki verður hægt að svara ósannindunum.

Þetta er eftirtektarverður málflutningur. En þessar útvarpsumræður eru merkilegar fyrir fleira en þetta. Á þessum eldhúsdegi er aðeins deilt um landsmálin, en það hefir svo að segja ekkert verið deilt á stj. fyrir einstök mál, og það mun vekja athygli ekki síður nú en í útvarpsumræðunum síðastliðið ár.

Ég geng þess náttúrlega ekki dulinn, að nú eru fram undan erfiðir tímar, en ég geng þess heldur ekki dulinn, að það er tiltölulega auðveldar nú en nokkurn tíma áður að draga kjark úr landsfólkinu á þann hátt, sem reynt hefir verið að gera í þessum umræðum. Það er auðveldara en nokkru sinni áður að vekja óánægjuöldu hjá fólkinu, ef það fylgist ekki með, og þess vegna er aðalatriðið í þessum umræðum, að hver maður í landinn fylgist með því, sem verið er að gera.

Því hefir verið haldið fram við þessar umr., sérstaklega af Sjálfstfl., að það væri mikil bót í máli ef hann fengi að taka við völdum, svo að nýtt blóð kæmi í pólitíkina eins og hv. þm. G.-K. hefir orðað það. Landsmenn þekkja sannarlega þetta nýja eða öllu betur þetta gamla íhalds-blóð. Þessi flokkur hefir áður farið með völd í þessu landi, og landsmenn þekkja hug hans til alþýðunnar og bændastéttarinnar. Ætli alþýðumenn þessa lands teldu það til bóta, að þessi flokkur tæki við völdum? Ég held ekki. Dettur hv. form. Sjálfstfl., Ólafi Thors, í hug, að hann fái fólkið úti um land til þess að trúa því, að það yrði fjármálum þessarar þjóðar til hagsbóta, að hann tæki við fjármálastjórninni, hann, sem hefir haft mjög góða aðstöðu til þess að stjórna fyrirtæki sínu, sem þó er ómótmælanlega eitt af langskuldugustu fyrirtækjum landsins? Áður en hv. þm. G.-K. getur gert slíka kröfu til trausts landsmanna, ætti hann a. m. k. að reyna að sýna betra lit á því að stjórna sinn eigin fyrirtæki dálítið betur. Ég tel þessi ummæli mín réttmæt vegna þess, að hv. þm. beindi þeim orðum til stj., að hjá henni væri fjársukk.

Ég held að þeir séu fáir sem álíta að það yrði til bóta fyrir fjármálastjórnina í landinu að þeir menn, sem nú stjórna fyrirtækinu Kveldúlfi, og þeir sem stjórna Reykjavík, tækju við völdum.