07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1937

Ólafur Thors:

Herra forseti! Hæstv. forsrh. lauk ræðu sinni með þeim ummælum, að vegna þess að útgerðarfélag það sem ég hefi átt þátt í að stjórna, mundi nú standa höllum fæti, væri augljóst, að Sjálfstfl. væri ekki fær um að fara með fjármálastjórnina í landinu. Þetta er gáfulega mælt(!) og ætla ég hlustendur einfæra um að dæma, bæði sannleiksgildi spakmælisins og manngildi og vitsmuni höfundarins. Forsrh. sagði, að þetta félag hefði haft öllum öðrum betri aðstöðu til að efnast. Allir aðrir en ráðh. vita, að nær öll útgerð landsmanna er gjaldþrota, og veldur þar um allt í senn: skattaæði rauðliða, kaupgjaldskröfur og verðfall framleiðsluvörunnar. Nei, Kveldúlfur hefir ekki fremur en önnur útgerðarfélög haft sérréttindi til fjársöfnunar. Ég þekki mann — og forsrh. þekkir hann sérlega vel —, sem hefir haft allt aðra aðstöðu til að auðgast. Hann hefir hvorki unnið né spunnið, en þó safnað í kornhlöður. Forsrh. ætti að fá hann til að leggja svo sem 50 þús. kr. í útgerð. Hann kynni að vísu að tapa peningunum, en hann mundi fá í staðinn nokkra menntun og aukinn skilning á lífi og örðugleikum þjóðarinnar. þ. á. m. og ekki sízt þeirra manna, sem öllu sínu hafa tapað á viðleitninni til að halda uppi atvinnu- og framleiðslulífinu.

Hæstv. fjmrh. var enn að streitast við að verja opin og augljós ósannindi. Deila okkar liggur skýr fyrir í fyrri ræðum okkar, en út af beinni fyrirspurn ráðh. minni ég annarsvegar á m. a. kaffi- og sykurtoll og viðskiptagjaldið, sem lagt er á flestar notaþarfir almennings, en hinsvegar á tilraunir okkar til að fækka bitlingaliðinn, sbr. t. d. fiskimálanefnd, sem og þvermóðsku rauðliða gegn lækkun á launum þeirra, er hæst hafa launin, en það er einmitt bitlingahjörðin.

Hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, hældist um yfir því, að allt, sem hann hefði sagt, stæði óhrakið. Það var nú hvorki mikið né merkilegt, sem hann sagði, aðeins þessi venjulegi óhróður um einstaka stjórnmálaandstæðinga, sem enginn tekur lengur mark á og ekkert sannleiksgildi hefir, nema sanna lýsingu á andlegri göfgi þessa þm. Hann segir það alveg satt, a. m. k. að því er mína ræðu snertir, að allur stendur rógburður hans óhrakinn. Við þingbræður hans tökum æ minna og minna mark á honum með hverju árinu, sem líður. Þeim fækkar stöðugt, sem virða hann svars, og að sama skapi vex sá hluti úr ræðum hans, sem stendur „óhrakinn“. Ég sé enga ástæðu til að taka hann hátíðlega, þó um útvarpsumræður sé að ræða, m. a. af því, að ég hefi sannar sagnir af því, að allur landslýður skilur orðið, að ræður hans „standa óhraktar“ vegna þess að sjálfur er hann lagztur svo djúpt, að menn sneiða yfirleitt hjá honum.

Það er vinargreiði, sem Alþfl. gerir Framsfl. og Jónasi Jónssyni persónulega með því að senda Sigurð Einarsson fram á vígvöllinn ár eftir ár. Ef Alþfl. sendi sæmilegan mann, mundi að sjálfsögðu bera meira á brestum Jónasar Jónssonar. Enginn er fremur til þess fallinn en einmitt Sigurður Einarsson að breiða yfir bresti og misfellur annara. Hann nýtur minni virðingar en nokkur annar þm. — að meðtöldum þm S.-Þ. — og getur því sagt alveg eins og J. J.: ræður mínar standa óhraktar, — og af alveg sömu ástæðum.

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú hervæðzt, en það vekur sérstaka athygli, að hann kemur fyrst fram á völlinn, þegar aðrir eru að fara þaðan, — hann tekur þá fyrst til máls, þegar tryggt er, að öðrum vinnist litill tími til að svara honum. Þessi hv. þm. þykir hagsýnn. Sá eiginleiki hefir að þessu sinni ekki brugðizt. Það skilja þeir bezt, sem gerst þekkja, hve málstaður hans er hæpinn.

Ræðu hans má skipta í tvo höfuðþætti: 1) Héðinn og olían. 2) Héðinn og fiskurinn. — Að því er olíuna snerti færði hv. þm. prýðilega sannanir fyrir því, að ekkert vit væri í því, að ríkið tæki einkasölu. Sá hann á því hvern annmarkann öðrum stærri, en þann verstan og mestan, að til þeirra hluta hefði ríkið alls ekkert fé. Ég tók á allri minni stillingu. Mig langaði að hrópa. „heyr,“ og mig langaði líka og jafnvel enn meira að spyrja, hvaðan þetta fátæka og févana ríki ætlaði þá að taka peninga til að byggja alla togarana, sem hv. þm. og flokksbræður hans vilja láta ríkið byggja og reka. Ef engin tök eru til fjáröflunar, er auðskilið að allt hjal sósíalista um togarabyggingar er loddaraleikur, en sé hinsvegar hægt að afla þeirra milljóna, er til þess þarf, því má þá ekki nota þær til að létta undir með smáútveginum og útvega honum ódýrari olíu en H. V. hefir reynzt bær um ?

Hið sanna hugarfar H. V. í garð útvegsins speglast í olíuokri hans. Ofan á þær ávirðingar bætir hann svo opnum fjandskap við þá stofnun, sem útvegurinn með frjálsum samtökum hefir komið sér upp og kjörið til forustu í baráttunni gegn lágu verði á framleiðsluvörunni og innlendum ofsóknum. Þessi fjandskapur hv. þm. kemur gleggst fram í hinum látlausu svívirðingum um Kristján Einarsson, sem hefir það eitt til saka unnið, að hafa vit og þekkingu á öllum sviðum atvinnulífsins langt um fram þennan mann, sem gert hefir sjálfan sig að athlægi með því að takast á hendur formennsku í fiskimálanefnd. Þessi aðstöðumunur veldur því að sjálfsögðu, að Kr. E. varpar skugga á hv. þm., en af því spinnst öfundin og úlfúðin.

Sérhver sá sem ber hag útvegsins fyrir brjósti, gleðst yfir framtaki sölusambandsins og sendiför Kr. E. Hitt er eðlilegt, að sá sé argur, sem lætur sig einu gilda, hversu fer um hag útvegsins, en hugsar aðeins um það, að Héðinn Valdimarsson megi halda áfram að úthluta milljónum af opinberu fé milli þeirra manna, sem olíu þurfa að kaupa. Í þessu liggur skýringin á heift hv. þm. til Kristjáns Einarssonar.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. beindi til hv. þm. Vestm., þykir mér rétt að upplýsa, að ekki ferst honum þar betur vörnin úr hendi. Nú, þegar það er upplýst og sannað, að Steady-farmur sá, er seldur var til Póllands, er talandi vitni þeirrar fádæma fáfræði, sem ríkir í fiskimálanefnd undir forustu H.V. sjálfs, — nú, þegar skjallega er upplýst, að betra hefði verið að henda fiskinum fyrir borð, þegar út úr Rvíkurhöfn kom, en að kosta upp á að senda hann til Póllands, — nú, þegar sannað er, að H. hefir gert hverja vitleysuna annari barnalegri og klaufalegri að því er snertir sölu þessa fiskjar, þá er það Jóhann Jósefsson, sem á heiðurinn af öllu frumkvæði um sendingu þessa fiskjar. En í vetur stóð þessi sami H. V. og hældist um yfir frumkvæði fiskimálanefndar í þessu sem fleiru. Einhverjum varð þá á að nefna nafn Jóhanns Jósefssonar, þá meðan verzlunarvit H. V. var enn ekki búið að gera heilan fiskfarm að engu, og ynnir þóttu standa til sæmilegs árangurs af þessari fisksendingu, þá var H. V. ekki seinn á sér að sverja og sárt við leggja, að Jóh. Jós. hefði hvergi nærri þessu komið, þar hefði hann sjálfur og fiskimálan. verið að verki og ættu því allan heiðurinn.

Ég get nú ekki vegna takmarkaðs tíma gert þessum hv. þm. frekari skil. Ég tel, að honum og hans flokki hefði verið eins vel borgið með því að velja einhvern annan til þess að túlka kærleika Alþfl. í garð útvegsins en einmitt þann manninn, sem liggur undir þyngstu ámæli út af margra ára olíuokri og ekki veit betur skil á hugarfari útvegsmanna en svo, að hann telur sig ná eyrum þeirra með rógi um þá menn, sem þeir treysta bezt.

Þessum umr. er nú að verða lokið. Við sjálfstæðismenn höfum, eins og áður fyrr, svipt tjöldunum til hliðar og sýnt þjóðinni inn á leiksvið stjórnmálanna, svo að almenningi hefir gefizt kostur á að virða fyrir sér stjórnarherrana og fylgilið þeirra, og dæma þá eftir afrekunum.

Við höfum fært sönnur á, að eftir 9 ára nær óslitinn valdaferil þessara flokka, eru sveitir landsins að leggjast í auðn, en framleiðslan við sjávarsíðuna að hruni komin, vegna þess að valdhafarnir hafa látið greipar sópa og hirt hvern eyri, sem til hefir náðzt.

Það hefir verið sannað að nú, þegar hinir eldri fiskmarkaðir eru að bresta, hefir stjórnarliðið, vegna ofmetnaðar, ofsa og valdagræðgi formanns fiskimálanefndar, Héðins Valdimarssonar og þróttleysis atvinnumálaráðherra stigið örlagaríkt víxlspor. Er allur þessi leikur með fjöregg þjóðarinnar svo fráleitur og fordæmanlegur, að fiskimálanefndin og ríkisstjórnin, sem ber ábyrgð á gerðum hennar og hefir verið leiksoppur í höndum hennar, hefir unnið sér til óhelgis í hugum allra þeirra, er eitthvað eiga undir þeim málum og um þau hugsa.

Það hefir verið sannað, að lánstraust þjóðarinnar og eigur hafa verið uppétnar, og nú stendur þjóðin uppi varnarlítil gegn aðsteðjandi örðugleikum, atvinnuleysi, skorti og eymd. Það hefir verið sannað, að stj. hefir svikið kosningafyrirheitin. lagt 5 millj. króna skatta á þjóðina, í stað þess að aflétta sköttunum, hækkað fjárlögin um margar millj., í stað þess að lækka þau, sökkt þjóðinni í 20 millj. króna skuldir út á við, í stað þess að stöðva greiðsluhallann, leitt hvern nýjan gæðinginn af öðrum að stjórnarjötunni, í stað þess að skera niður óþörf embætti og bitlinga, og rutt atvinnuleysinu braut, í stað þess að tryggja atvinnu handa öllum.

Það hefir verið sannað, að eins og stj. brauzt til valda með óhróðri og ósannindum, þannig reynir hún nú að hanga við völdin með sömu baráttuaðferðum, enda þótt sérhverjum hugsandi manni sé ljóst, að fyrsta skylda valdhafanna er sú, að vara þjóðina við þeim hættum, sem framundan eru. og það hefir verið sannað, að valdhafarnir víla ekki fyrir sér að afnema anda og bókstaf stjórnarskrárinnar með einföldum lögum, hvenær sem þeim býður svo við að horfa, heft athafnafrelsið og með því brotið niður einkaframtakið og étið upp efni og lánstraust þjóðarinnar. Það hefir verið sannað að vegna alls þessa er þjóðin nú stödd í yfirvofandi geigvænlegri hættu.

Allt þetta hefir verið sannað, og ég hefi með þeim rökum leyft mér, fyrir hönd stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, sem við síðustu kosningar hafði að baki sér allt að því jafnmarga kjósendur eins og báðir stjórnarflokkarnir til samans, og sem nú alveg tvímælalaust hefir að baki sér miklu fleiri kjósendur en allt stjórnarliðið, að bera fram þá kröfu að stjórnin svari nú til saka, og leggi afbrot sín undir dóm þjóðarinnar með nýjum kosningum.

Þessari kröfu minni hefir stj. neitað að verða við, og það er vegna þess, að enda þótt samkomulag innan stjórnarflokkanna sé svo illt og bölvað, að þar sé hver höndin upp á móti annari, og flokkarnir innbyrðis berist á banaspjótunum og hafi fullkomna fyrirlitningu ef ekki fyrir sín eigin, þá þó a. m. k. hver fyrir annara afbrotum og yndaferli, velur stj. sér samt það hlutaskipti að hanga við völd, af því hún þorir ekki fyrir sitt lifandi líf að ganga fram fyrir dóm kjósendanna í landinu, því hvaðanæva utan af landinu berast henni fregnirnar um þverrandi fylgi og vaxandi andúð, sem magnast með hverjum deginum, sem líður. Stjórnin hefir því, þrátt fyrir að sambúðin sé með hinum mestu örðugleikum, og í rauninni báðum flokkunum til ama, haft á rökstólunum sáttanefnd allan þingtímann, til þess að reyna að jafna misklíðarefni, og þá eins og fyrri daginn með því að úthluta nýjum fríðindum til gráðugra fylgismanna, á kostnað gjaldvana ríkissjóðs.

Frá flokkslegu sjónarmiði megum við sjálfstæðismenn una vel við þessa úrlausn, því að flokkslega séð eigum við kröfu á því, að mennirnir sem brotizt hafa til valda með gyllingum og blekkingum, fari með völdin, þangað til augu allrar þjóðarinnar hafa opnazt fyrir afrekum þeirra.

Það er réttlátt, að þeir, sem skapað hafa örðugleikana, leysi þá, og það er sanngjarnt, að þeir menn, sem kennt hafa fólkinu að gera hærri kröfur á hendur annara en hægt er að rísa undir, sýni, hvernig á að fullnægja þeim kröfum, og það er sunnarlegu verðskuldað, að stjórnin fái að lifa það, að dómur reynslunnar skeri úr um það, hvort vonirnar, sem stjórnin hefir með fagurgala sínum kveikt í brjóstum almennings, eru aðeins hillingar, eða hvort þær eiga eftir að rætast.

Stjórnin hefir sjálf valið hlutskipti sitt.

Ég þekkti einu sinni gamla konu. Hún var blind, eins og íslenzka ríkisstjórnin, heyrnarlaus, eins og íslenzka ríkisstjórnin, og orðin hálfsljó, eins og íslenzka ríkisstjórnin. Hún var vesöl, eins og íslenzka ríkisstjórnin, og karlæg. Hún gat einskis góðs vænzt af lífinu, fremur en íslenzka ríkisstjórnin, og engum verið til gagns eða góðs, fremur en íslenzka ríkisstjórnin. En hún var lífhrædd og óttaðist dauðann, eins mikið og íslenzka ríkisstjórnin kosningar. Forsjónin hefir nú miskunnað sig yfir hana og veitt henni hægt andlát, eins og íslenzka ríkisstjórnin myndi fá við kosningar.

En íslenzka ríkisstjórnin hefir kosið sér annað hlutskipti. Hún ætlar að sitja meðan sætt er, hanga við völdin til lengstra laga. — Jæja, verði þeim herrum að góðu. — Ég óska, að betur megi úr rætast en á horfist, ekki vegna stjórnarinnar, heldur vegna þjóðarinnar.

En ég spái því, að enginn verði öfundsverður, þegar vonsvikinn almenningur vaknar til skilnings á svikunum og blekkingunum, því þá duga engin undanbrögð, og þá mun stjórn hinna vinnandi stétta skolast burt í brimöldum þess böls og þeirrar eymdar, sem hún hefir fært yfir þjóðina, og þá verða þyngslu sakargiftirnar þær, að vegna fagurgala og blekkinga ríkisstjórnarinnar hefir almenningur látið undir höfuð leggjast að búa sig til varnar, svo sem þó hefði verið hægt, og miklu böli hefði mátt afstýra.