17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

19. mál, eyðing svartbaks

*Jón Baldvinsson:

Ég heyri á öllu, að þeir hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Dal. eru slegnir ótta, og verða það sjálfsagt á meðan nokkurt svartbakstetur flögrar yfir þessu landi. Svo að það er fullkomin ástæða til þess að ætla, að hv. þm. Dal., sem góða aðstöðu hefir til að ráða miklu um samþykkt viðvíkjandi framkvæmd þessara lagaákvæða hjá sér, muni og gera það. Því að það þarf ekki meira en að fimm eða fleiri æðarvarpseigendur eða leigutakar æðarvarpslanda krefjist þess, að samþykktir þær verði gerðar, sem um getur í frv. til þess að skylt sé að setja þær. Því mun það ekki fjarri sanni, að hreppsnefndir geti ráðið hér allmiklu um.

Ég skil satt að segja ekki þessa hv. þm. Það er eins og komið sé við hjartað í þeim, ef inn í frv. á að koma ákvæðum, sem girða eiga fyrir það, að jafnmannvonzkufullri aðferð sé beitt við útrýmingu þessa fugls og eitrunin er. Þeir vilja koma í veg fyrir, að ráðh. geti hindrað, að ákvæði um slíka eyðingaraðferð verði sett í reglugerð.

Hv. þm. Dal. hefir fundizt ég vera of mikill skipulagningarmaður. En hér hefir hann þó hafið sjálfur skipulagða árás á veslings svartbakinn og vill útrýma honum úr landinu. Ég efa nú, að hv. sjálfstæðismenn vilji nú styðja þennan flokksbróður sinn á þessari skipulagningarbraut, þó að kannske fáeinir bændur við Breiðafjörð, sem hafa nytjar af æðarkollunum, hafi eitthvað gott af þessu máli. (PM: Laxveiðamenn verða líka fyrir skaða af völdum svartbaksins). Ég skil ekki þann ógnar hita, sem hefir gripið menn út af þessari góðlátlegu brtt. minni, sem gerð var til þess að koma í veg fyrir mannvonzkuleg hrekkjabrögð, sem menn kynnu að finna upp gegn þessum fugli.

Ég er á móti því, að prentararnir hafi ekki leyst sitt starf vel af hendi við prentun á þessu þskj., þar sem orðið „svartbakur“ er að finna í. En ég gæti frekar trúað, að í því moldviðri, sem þyrlazt hefir um þetta mál, hafi prófarkalesarinn kannske haldið, að hér væri búið að skapa nýja tegund af fugli, sem héti „svartbakur“. (ÞÞ: Þeir hafa líklega lesið skakkt blessaðir prentararnir, eins og fleiri prentarar).