20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Ég þarf litlu að svara hv. þm. Mýr., en vil aðeins benda á, að það er rangt hjá honum, ef hann vill halda fram, að það sé í beinu greiðaskyni gert, er landeigendur leigja mönnum úr Rvík land undir sumarbústaði fyrir verulegar upphæðir. Það land, sem þar er um að ræða, er venjulega mjög lítið að flatarmáli, og þó ekki sé greitt meira fyrir þessa litlu bletti, sem annars eru varla nema örlítið notaðir, heldur en hv. þm. upplýsti, að greitt væri fyrir þann sumarbústað, sem minnzt var á áðan, hygg ég það a. m. k. ekki tap fyrir landeigandann að leigja þá.

Hv. þm. Borgf. taldi ástæðu til að taka til máls út af því, að í nál. er komizt svo að orði, að n. telji rétt, „að gagngerð endurskoðun fari fram á útsvarslögunum, og telur heppilegt, að n. sú, er nú starfar að undirbúningi löggjafar um tekjuöflun sveita og bæja, taki einnig þetta mál til athugunar“. Hann taldi, að í fyrsta lagi væri þessi n. alls ekki starfandi. Í öðru lagi væri ekki vitað, að það lægi neinn almennur vilji á bak við það, hvorki innan þings eða utan, að útsvarslögin væru endurskoðuð, og heyrðist mér að honum fyndist allshn., sem skilaði þessu áliti, fara nokkuð villt í þessu efni. En ég held einmitt, að hv. þm. hafi ekki athugað þau atriði, sem telja má upplýst um þessi mál. Hann talaði um útsvarslögin sem mjög heppilega löggjöf, eins og þau eru nú, en hann gat þess í innskoti, að Siglfirðingar mundu þó sérstaklega óánægðir með þau. Ég ætla ekki að draga neinar dulur á það, að Siglfirðingar eru eflaust óánægðir með útsvarslögin. Ég veit ekki, hvort Akurnesingar eru sérstaklega ánægðir með þau, en ef marka má afstöðu hv. þm., má gera ráð fyrir, að svo sé. En ég held þó, að það sé almennt álitið, að útsvarslögin séu orðin úrelt og að það þurfi að breyta þeim gagngert við fyrsta tækifæri.

Í fyrra kom fram þáltill. um skipun n. milli þinga til þess að athuga tekjuöflun bæja og sveita og þá einnig athuga útsvarslögin. Ég verð til þess að sýna, að hv. þm. Borgf. hefir farið villur vegar, að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, það sem þessi n. sjálf segir um þetta:

„Það, sem vakti fyrir flm. þáltill. frá 2. des. f. á., var það, að sú tekjuöflunarlöggjöf, sem bæjar- og sveitarfélög nú hafa við að búa — sem er þá sérstaklega útsvarslögin — yrði endurskoðuð gaumgæfilega og breytt í það horf, er betra þætti en nú er, og að jafnframt væru sveitar- og bæjarfélögum fengnir nýir tekjustofnar, sem gætu borið nokkuð af byrðum þeim, sem útsvörin verða nú að standa undir. N. varð þegar í upphafi ljóst, að sá rúmi mánuður, sem hún hafði til umráða til þess að gera till. sínar og semja frv. fyrir næsta Alþingi, nægði hvergi nærri til þess að gera það hvorttveggja, að endurskoða útsvarslögin og koma fram með ný tekjuöflunarfrv. Varð það því að samkomulagi að reyna heldur að finna leiðir, sem veittu sveitar- og bæjarfélögum nýjar tekjur, þ. e. aðrar tekjur en útsvörin, en láta endurskoðun á útsvarslögunum bíða næsta þings.“

Af þessu verður þegar ljóst, að fyrir flm. vakti þetta tvennt, að fram kæmu till. um nýjar tekjur sveita og bæja, og hinsvegar að athuguð væru útsvarslögin. N. hefir sjálf skilið þetta þannig, því að hún treysti sér ekki til að inna þetta hvorttveggja af hendi og valdi þann kostinn að koma fram með till. um tekjur sveita og bæja, en láta útsvarslögin bíða. Svo heldur n. þannig áfram:

„Þó er rétt að taka það fram strax, að n. er öll á einu máli um, að ekki megi lengur dragast en til þingsins 1937, að fram fari gagngerð endurskoðun á útsvarslögunum. N. telur, að þegar að þessu þingi loknu ætti að hefja endurskoðun útsvarslaganna, svo að fyrir næsta Alþingi geti legið vel undirbúið frv. um það efni. Ætti ekki að þurfa sérstaka þál. um það, þar sem starf þessarar n. getur ekki talizt nema nokkur hluti þess starfs, sem ætlað var, að framkvæmt yrði eftir þál. frá 1935.“ — Ég veit ekkert um það, hvort n. segir nú, að hún hafi hætt störfum um leið og hún skilaði frv. um tekjur sveita og bæja, en hitt er víst, að hún hefir ekki litið svo á, þegar hún skilaði áliti sínu, að starfi hennar væri lokið fyrr en báðir þættir þessa tvískipta starfs væru afgr. Það er því misskilningur hjá hv. þm. Borgf., ef hann telur ekki nægan þingvilja á bak við það að láta athuga útsvarslögin, þar sem þáltill. gerir beinlínis ráð fyrir slíkri athugun. Og það er líka misskilningur, ef hann heldur, að starfi n. sé lokið með því, að hún hefir skilað frv. um tekjustofna sveita og bæja, þar sem n. tekur sjálf fram, að svo sé ekki og að ekki þurfi nýja þáltill. til þess, að athugun á útsvarslögunum sé hafin þegar að loknu þessu þingi. Það er því algerlega óréttmætt, þegar hv. þm. finnur sig knúðan til að standa á fætur og ávíta allshn. fyrir það, þó hún láti það sama í ljós sem meiri hl. þings í fyrra, í fullu samræmi við það, sem kemur fram í grg. n. þeirrar, er ég tel starfandi að þessum málum.