25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (736)

18. mál, útsvör

Magnús Torfason:

Það er ekki mikið mál, sem deilt er hér um, hvort það eigi að leggja það mikið á þessa sumarbústaði aðallega, að hrepparnir hafi ekki sérstaka byrði af þeim. Ég býst við, að það dragi ekki mikið, eins og sumarbústaðirnir eru nú gerðir hér. En þó verð ég að mæla með þessari brtt., því hún fer áreiðanlega í rétta átt. Ég skal fúslega játa það, að hrepparnir hafa óbeinlínis ýmislegt gagn af þessum sumarbústöðum, en ég veit það hinsvegar, að sveitirnar hafa líka ógagn af þeim. Við vitum það að oft á tíðum kemur í þessu sumarbústaði fólk, sem þarf að fá sér hvíld og gott loft, og er þá oft haldið einhverjum sjúkdómum, og ég þekki fyllilega dæmi um það, að sjúkdómar hafa borizt frá svona bústöðum inn á heimili, og það svo magnaðir, að stór skörð hafa orðið eftir fyrir bragðið. Því held ég fram, að það sé rétt, sem hv. þm. Mýr. sagði, að ekki sé vert að fara út í að metast um gagnið af þessum sumarbústöðum, en það, að ég er með þessari till., og það óbreyttri eins og hún kom frá hendi hv. þm. Mýr., er af því að hér liggur eiginlega annað að baki. Þetta er bara eylítill vottur þess að það princip, sem á bak við liggur, hafi nokkurn rétt á sér. Við vitum það, að menn eiga að greiða útsvör, ef þeir hafa jarðnæði til ábúðar í sveitum, þó lítið sé. Jarðnæði er vitanlega fasteign, og frá því sjónarmiði virðist ekki óeðlilegt, að yfirleitt væru lögð útsvör í fasteignir, einnig á þessar húseignir sérstaklega. Þetta getur haft jafnvel afarmikla þýðingu fyrir sum pláss, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem jörðum er skipt niður og leigðar út á erfðafestu. Ég get tekið það til dæmis, að á Eyrarbakka og Stokkseyri munu vera goldnar 13–15 þús. kr. til jarðeigenda og húseigenda, sem annarsstaðar búa. Ég man eftir einum stórum jarðeiganda á Eyrarbakka, sem kvartaði undan útsvari sínu, og það var rétt, að tiltölu við efni hans var útsvarið allt of hátt. Maðurinn gat ekki borgað útsvarið, sem var 250 kr., en þegar farið var að aðgæta þetta betur, nægði ekki einu sinni sú upphæð til þess að borga sýslusjóðsgjaldið af fasteigninni, sem hann átti. Nú er svo komið, að miklu meira af jarðeignum er komið í hendur annara heldur en þeirra, sem þar eru búsettir; sumar hafa verið í höndum banka, og eru nú komnar í hendur ríkissjóðs. Fer mönnum þá vitanlega að skiljast, að það er ekki svo lítið, sem þessir hreppar borga fyrir þessa jarðeigendur. Ég hygg það muni láta nærri að þessir hreppar borgi í sýslusjóð Árnessýslu nálega 1000 kr. fyrir jarðeigendur annarsstaðar að. Því tel ég í rauninni, að það hefði átt að fara miklu lengra en hér er stungið upp á í þessu efni. En þótt þetta sé lítið, er það spor í rétta átt og getur orðið til þess, að síðar meir haldi menn lengra á þessari braut, eins og rétt er. Ég býst við, að a. m. k. þeir hv. þm., sem eru úr sveit kunni virkilega að meta hvernig ástatt er. þegar mestur hluti jarðarafgjalda og leigu eftir húseignir fer til manna utan viðkomandi sveitarfélags. Og það er víst að meðan leiguábúð var víðtækari heldur en nú er, skar það talsvert úr um það, hvernig hreppar stóðu sig hvort fólkið innan sveitar átti fasteignirnar þar eða utansveitarmenn. Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en mæli sem bezt með því, að brtt. hv. þm. Mýr. verði samþ.