31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

80. mál, skotvopn, skotfæri o. fl.

*Jakob Möller:

Það kemur sér víst bezt fyrir hæstv. forsrh. að vera ekki viðstaddur, þegar rætt er um þetta merkilega mál hans.

Hvað frv. þetta snertir, þá virðist mér það á þann veg, að full þörf sé til að athuga það nánar en gert hefir verið Meðferð þess hér í hv. deild hefir nú verið sú, að um það hefir ekkert verið rætt, og það má einstakt heita um slíkt mál sem þetta. Annars má kannske segja, að það hafi fengið svipaða meðferð og ýms önnur mál hér, sem komið hafa frá hæstv. stjórn, að ekki hafi verið sagt um þau eitt orð við 1. umr., ekki hálft orð við 2. umr., og svo verið undir hælinn lagt, hvort nokkuð hafi verið sagt um þau við 3. umr. Slík meðferð mála finnst mér ekki vera rétt, en þar eiga þeir aðallega sök á, sem málin flytja, jafnt hvort sem í hlut á n. eða einstaklingur.

Mál þetta mun flutt af meiri hl. allshn., og hefði því átt að vísa því til hennar í heild, en um það mun engin till. hafa komið, og hefði þess þó sízt verið vanþörf, svo mjög sem frágangur þess er gallaður að ýmsu leyti. Það er nú að vísu svo, að ennþá í frv. þetta eftir að ganga til Ed., og mætti því vænta einhverra leiðréttinga á því þar.

Ég mun nú í stórum dráttum reyna að sýna fram á, hvort ekki sé í raun og veru þörf á því, að mál þetta sé athugað nokkru nánar en gert hefir verið.

Í 1. gr. frv. segir svo: „Dómsmrh. skal heimilt að ákveða með reglugerð, hverskonar skotvopn, skotfæri og sprengjur skuli flutt til landsins og seld almenningi, um álagningu á þau, svo og hvernig fara skuli með birgðir þær af skotvopnum, skotfærum, hlutum og efni í þau, sem fyrir hendi kunna að vera í landinu.“ Hér stangast setningarnar annaðhvort af ásettu ráði eða vangá, þar sem í fyrri hluta gr. segir, að ráðh. sé heimilt að ákveða með reglugerð, hverskonar skotvopn, skotfæri og sprengjur skuli flutt til landsins, en í næstu setningu segir, að ráðh. skuli og vera heimilt að setja reglur um, hvernig fari skuli með birgðir þær af skotvopnum, skotfærum, hlutum og efni í þau, sem fyrir hendi kunna að vera í landinu. Hér er sprengjunum alveg sleppt í síðari málsliðnum. Ég vil því spyrja, hvort það sé meiningin, að hafa ekkert eftirlit með þeim sprengjum, sem kunna að vera til í landinu. Mér skilst nfl., að samkvæmt þessari málsgrein sé stj. heimilt að setja reglur um, hvernig fara skuli með skotfæri og skotvopn, sem til eru í landinu, þegar lög þessi öðlast gildi, en ekki að því, er snertir sprengjur. En ég fæ nú ekki annað séð en svo fremi sem talizt getur nauðsynlegt að setja reglur um meðferð skotfæra og skotvopna, þá sé eigi síður nauðsynlegt að setja reglur um meðferð á sprengjum og þesskonar hlutum, sem kunna að vera til í landinu.

Þá er og annað atriði, sem mér virðist þurfa athugunar við í þessari sömu grein. Næsta málsgr. þessarar gr. hljóðar svo: „Í reglugerðinni skal ennfremur kveðið á um heimild til að hafa skotvopn í vörzlum sínum, og skulu þau ákvæði einnig ná til þeirra skotvopna, skotfæra, sprengja o. s. frv., sem eru í vörzlum einstaklinga, félaga og firmna við gildistöku þessara laga.“ Ef einhver meining á að vera í þessu ákvæði, þá mun hér ætlazt til að það nái jafnt til félaga sem einstaklinga, en þá kemur aftur ákvæði 3. gr., sem gerir það vafasamt, þar sem segir svo, að auk sekta fyrir brot gegn lögum þessum, þá skuli skotvopn þau, skotfæri og sprengjur, sem inn eru flutt eða eru í vörzlum manna í heimildarleysi, gerð upptæk og andvirði þeirra renna í ríkissjóð. Í sambandi við þetta væri ekki úr vegi að fá upplýst, hvort ekki sé meiningin, að þessir hlutir séu einnig gerðir upptækir, ef þeir fyrirfinnast í vörzlum félaga, alveg eins og ef þeir fyrirfinnast í vörzlum einstaklinga, því að það er vitanlegt, að ef það er ástæða til að hafa eftirlit með skotvopnum í höndum einstaklinga, þá er ekki síður ástæða til að hafa eftirlit með þeim í höndum félaga, og gera þau upptæk, ef þörf krefur. Ríkisvaldið getur alltaf haft í fullu tré við einstaklinginn, en sama máli gegnir ekki um fjölmenn félög. Það getur því verið miklu alvarlegra, ef þau fara að flytja inn vopn, heldur en þó að dreifðir einstaklingar fái sér fugla- eða fjárbyssu.

Allt þetta, sem ég nú hefi bent á, finnst mér full ástæða til, að athugað sé nánar, og því sé ekki að ófyrirsynju, þó að þess sé óskað, að mál þetta sé athugað í n. frekar en gert hefir verið.

Það hefir áður verið vikið að því, að það virðist nokkuð óákveðið, hvað víðtæk ákvæði þessa frv. eru hvað snertir „hlut“ og „efni“, „skotfæri“ og „skotvopn“. Þó að ég ætti ekki kost á því að heyra ræðu hæstv. forsrh., þá geri ég ráð fyrir, að hann hafi gert grein fyrir því, hvernig hann hugsaði sér að komast hjá óþægindum út af því að banna innflutning á efni eða efnum, sem notuð eru í skotfæri, en jafnframt þarf að nota til annara þarfa, eins og þm. Borgf. vakti athygli á. En hvað sem hæstv. forsrh. kann að hafa sagt um þetta, þá virðist mér alveg auðsætt, að allmikil óþægindi geti hlotizt af innflutningstakmörkunum á slíkum efnum. Þau eru í ýmsum tilfellum mjög nauðsynleg.

Annars er það svo með allt orðalag þessa frv., að það er svo almennt og óákveðið, að ekki er nema eðlilegt, að menn finni til, að þörf sé á að ákveða nánar um þessa hluti. Ég geri nú ráð fyrir, að ef laghentir menn og orðhagir tækju mál þetta til nánari athugunar og gerðu sér það jafnframt ljóst, að það þyrfti að lagfæra það, þá gætu þeir fundið á því fleira en ég hefi bent á, sem betur mætti fara á annan veg en það nú er í frv., því að mér finnst frv. að öllu leyti lélega úr garði gert.

Ef ég ætti eitthvað að segja um hina almennu nauðsyn þessa máls, þá finnst mér hún vægast sagt mjög lítil. Eins og hv. þm. Borgf. tók réttilega fram, þá gegnir allt öðru máli um nauðsyn slíkrar lagasetningar hjá öðrum fjölmennari þjóðum. Meðal stórþjóðanna er fjöldi misindismanna, sem þjóðfélögin eiga erfitt með, auk margvíslegra vandræða sem ekki er hér um að ræða. Það þýðir því ekkert að vera að vitna til þess hér, að aðrar þjóðir hafi sett lög um þessi efni hjá sér, og því sé nauðsynlegt fyrir okkur að gera það líka. Ein af höfuðástæðunum fyrir framkomu frv. þessa taldi hæstv. forsrh. vera þá, að það væri nauðsynlegt að koma í veg fyrir, að misindismenn næðu í þessa hættulegu hluti. Hvað þetta snertir, þá er ég þess fullviss, að frv., þó að lögum verði, nær aldrei þeim tilgangi. Misindismennirnir hafa alltaf einhver ráð með að afla sér vopna, ef þeir á annað borð ætla sér það. Ákvæði frv. gætu þá helzt komið hinum friðsamari borgurum í koll með því að gera þeim ókleift að afla sér vopna til þess að verja sig fyrir misindismönnunum. Að nauðsynlegt sé að hafa eftirlit með sölu og notkun skotvopna vegna unglinga, sem fari sér oft að voða með þeim, er og líka út í loftið hjá hæstv. ráðh.

Komi það fyrir að unglingar verði sér eða öðrum til tjóns með þessum hlutum, þá eru það jafnan tæki, sem fullorðnir menn eiga, svo þessi staðhæfing nær því ekki tilgangi sínum.

Mun ég svo ekki fjölyrða frekar um mál þetta að sinni, og legg til, að því verði vísað til allshn. á þessu stigi.