27.02.1936
Efri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

33. mál, kennsla í vélfræði

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál er hv. þdm. kunnugt frá síðasta þingi. Það var þá flutt af sömu n. og nú, að beiðni hæstv. atvmrh., eins og nú, ásamt fleiri frv. líks efnis, og er þess að vænta, að þessi mál nái nú fram að ganga. Ég ætla ekki að fara ýtarlega út í efni frv., þar sem svo skammt er liðið frá því, að frv. lá fyrir þessari hv. d., og er þar af leiðandi hv. þdm. kunnugt. Því voru þá gerð greinileg skil við 1. umr., og síðan var það vendilega yfir farið af n., sem gerði við það aðeins eina smávægilega brtt., sem nú hefir verið færð inn í frv. N. mun að sjálfsögðu fylgjast vel með málinu og vill hafa um það óbundnar hendur að koma með brtt. við frv., ef henni svo sýnist, en hinsvegar telur hún ekki þörf, að því sé vísað til n., þar sem það er komið frá n. Þetta mál er sérfræðilegt, og er um það, hvernig haga skuli kennslu í meðferð eimvéla og mótorvéla. Frv. sameinar allmörg gildandi lög um þetta efni og felur í sér nokkrar breyt. á þeim í þá átt, að gera meiri kröfur um þekkingu til þeirra manna, sem frv. fjallar um.