06.04.1936
Efri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

88. mál, vegalög

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Það er rétt hjá hv. 1. þm. Skagf., að ég gleymdi að svara þessu atriði viðvíkjandi fjvn., og vil ég nú minna hv. þm. á það, að hvort sem það er nú rétt eða rangt, þá hefir þessu ekki verið fylgt eins ýtarlega eins og hann vildi vera láta. Ég efast um, að vegalögin 1933 hafi verið borin undir fjvn. Enda er það svo, satt bezt að segja, að þar sem fjvn. ræður yfir því fé, sem er veitt til vega — í þessu frv. er engin fyrirskipun um bein fjárframlög, svo að ég viti —, þá er óþarft að vera að senda það til fjvn., því það er einmitt hún, sem á hverjum tíma ræður því, hve mikið fé er veitt í þessu skyni.

Þá vil ég svara því, sem hv. þm. spurði að um Krísuvíkurveginn. Ástæðan til þess, að við fengum ekki þetta svar, var sú, að vegamálastjóri gat ekki komið því við að skrifa þetta ýtarlega álit, sem hér er, og hitt álitið líka, nema með lengri tíma. Okkur þótti réttara að reyna að koma málinu áfram, ef hugsanlegt væri að koma því í gegn fyrir hátíð. En ég hefi óskað þess, að vegamálastjóri sendi ýtarlegt álit um þessar till., og ekki sízt um suðurleiðina, sem hann er kunnugri en við. Ég er þess vegna fús til þess, sem hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að þetta álitsskjal hans, það sem það nær, komi fyrir sjónir allra þm., og form. samgmn. hefir einmitt í dag verið að gera ráðstafanir til þess að ýta undir, að vegamálastjóri komi með þessa skýrslu nú, til þess að hún geti orðið sem fyrst þm. til aðstoðar.