15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (856)

88. mál, vegalög

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Síðan málið var hér til umr. síðast, hefir n. haldið nokkra fundi, og flytur hún nú nokkrar brtt. við frv. á þskj. 315 og 322. Þær 2 brtt., sem eru á þskj. 313, eru mjög lítilvægar. Sú fyrri er gerð í samráði við þm. kjördæmis þess, sem um er að ræða. Er ætlazt til, að vegurinn verði ódýrari með því, að gerð verði sérstök brú á Ásavötnin og hann lagður þar yfir. Síðari brtt. er viðbót, og er þar farið fram á, að lagður verði svolítill spotti. 3–4 km. langur, frá læknissetrinu Brekku í Fljótsdal og niður að Jökulsá. Þykir eðlilegra, þar sem þarna hefir verið gerð brú á Jökulsá með ærnum ríkisstyrk, að þjóðvegurinn verði lagður að henni.

Þá hefir n. komið sér saman um að mæla með tveim brtt. á þskj. 322. Eru þær þess efnis, að teknir séu í þjóðvegatölu tveir vegir, Staðarfellsvegur, frá Vesturlandsvegi hjá Ásgarði að Staðarfelli, og Laugalandsvegur, frá Norðurlandsvegi hjá Kaupangi að Laugalandsskóla. Stendur líkt á um þessa vegi báða, að þeir eru akfærir á sumrum, en hvorugur er upphleyptur. En þar sem það eru opinberar stofnanir, sem þarna koma til greina, hefir n. tekið upp þessar till. frá hv. þm. Dal. og Eyf.

Þá ber ég hér fram fyrir hönd samgmn. skrifl. brtt., sem er aðeins orðabreyt. á frv. viðvíkjandi Mýraveginum. Við flytjum þessu till. eftir ósk hv. þm. Mýr. og í samráði við vegamálastjóra, en hún fer fram á það, að í staðinn fyrir Mýraveginn frá Stykkishólmsvegi vestan við Langá að Okrum í Hraunhreppi komi tvær vegálmur niður Mýrarnar, Álftaneshreppsvegur og Hraunhreppsvegur, eins og þar er greint frá. Hv. þm. kjördæmisins fór þangað vestur eftir núna um páskana og fann bændur Mýrasýslu, og féllust þeir á það að fá þessa tvo stuttu spotta í staðinn fyrir einn lengri.

Þá hafa komið fram nokkrar brtt. frá öðrum hv. þm., sem n. hefir að vísu ekki enn sem komið er tekið til meðferðar í heild sinni. Ein þeirra er frá manni úr samgnm., og mæli ég með henni fyrir mitt leyti. Út á till. hv. 1. þm. Skagf. er það að setja, að þær fara út fyrir takmörk þess framkvæmanlega. Við höfum í n. viljað sinna öllu því, sem framkvæmanlegt er, en ekki öðru. Þá höfum við gert það í samráði við hv. þm. Snæf. að taka ekki með veginn frá Grundarfirði til viðbótar við veginn yfir Kerlingarskarð. N. hefir aftur tekið tvo vegi af þeim fjórum, sem hv. þm. Snæf. fór fram á, og þykist hún þannig hafa stillt öllu í hóf, svo að ekki verði sagt, að hún hafi hallað réttu máli.

Hv. 10. landsk. hefir flutt till. um, að lagður verði í Dalasýslu vegur kringum Klofninginn, milli Saurbæjar og Ásgarðs. Þetta er meira en sjálfur þm. kjördæmisins fór fram á. Ef þetta yrði gert, myndi ríkið bæta á sig nær öllu því, sem hugsanlegt er, að unnið verði á þessu sviði í Dalasýslu næstu árin. Að vísu er allslæmur vegur eftir Skarðströndinni, og væri ég því í sjálfu sér meðmæltur, að þetta yrði gert, en eins og nú er ástatt, þykir mér ekki líklegt, að samþykkt þessarar till. verði til bóta. Þykir mér sennilegt, að hún myndi fremur tefja fyrir vegalagningu í Dalasýslu, því að ég sé ekki, hvað sýslunni stæði nær en að láta gera þennan veg.

Þá vil ég ekki vera að slást gegn till. hv. þm. N.-Ísf. um veg frá Ísafirði um Arnardal til Súðavíkur. Væri ekki nema gott um þessa till. að segja, ef landslag væri þarna heppilegra. En þar háttar svo til, að ekki er hægt að gera veginn.

Þá hefir hv. 1. þm. Skagf. borið fram till. um tvo vegi í Skagafirði, annan frá Sauðárkróki vestan fjarðarins og út á Skagatá, en hinn frá vegamótunum austan við Víðimýri að Goðdölum, framhjá Mælifelli og fram sveitina vestan Vatna. Í Skagafirði eru nú orðnir margir ríkisvegir og nú á að koma hringvegur í miðri sýslunni, svo að ég held, að sýslunni sé það ekki til gagns, að ríkið fari nú að taka að sér þessar vegalagningar, og gildir hér það sama og ég sagði áður um Dalasýslu. Hlýtur það að taka ríkið mörg ár að gera veginn austan Héraðsvatna, frá Flugumýri á þjóðveginn vestan Viðvíkur, veginn að Hólum, veginn frá Vatnsskarði áleiðis til Siglufjarðar og veginn frá Fljótum til Ólafsfjarðar. Ég þykist vita, að hv. þm. muni sjá, að með þessum vegum hefir ríkið tekið á sig miklar byrðar, og að sýslan ætti að geta tekið að sér þessa tvo vegi, sem fyrr var getið, því fremur sem meira léttir á henni annarsstaðar.

Þá hefir hv. 2. þm. Rang. borið fram brtt. þess efnis, að hin nýja Suðurlandsleið nái bara til Krýsuvíkur. Þetta væri auðvitað ágætt fyrir Hafnfirðinga, en kæmi ekki að gagni þeim þar eystra. Er ég hissa á því, að hv. þm. skuli bera fram slíka till., sem sviptir kjördæmi hans þeim hagsmunum, sem leiða myndu af þessum nýja vegi.

Kem ég þá að till. okkar um suðurleiðina. N. hefir borizt bréf frá vegamálastjóra. Er það heldur andsfætt því, að þarna komi vegur. En það þyrfti ekki að hindra framgang hugmyndarinnar, jafnvel þótt vegamálastjóri hefði að nokkru leyti á réttu að standa. Þarna yrði að fara fram rannsókn, nákvæmari en sú, sem hann hefir látið gera nú í vetur.

Vegamálastjóri heldur því fram, að leið þessi sé dýr og að á henni sé mjög erfitt um ofaníburð. Þetta er nú ekki vel undirbyggt hjá honum, eins og ég skal skýra síðar. En svo er annað. Þetta er einhver þurrasta leið, sem til er á landinu, og liggur víst ekki yfir nema einn læk, og hann ekki stóran. Því er tvennt, sem hægt er að slá föstu: Þetta er snjóléttasta leiðin milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins, og þetta er þurrasta leiðin og liggur hvergi um votlendi, en það veldur því, að leiðin yrði ódýr í viðhaldi. Þetta er hægt að segja með vissu um leiðina. Að vísu er ekki hægt að segja, að bak við þetta standi djúp rannsókn hjá okkur, en svo er heldur ekki um álit vegamálastjóra. Það, sem mælir með þessari leið, er fyrst og fremst heilbrigð skynsemi. Árni Eylands stakk upp á þessari leið í fyrrasumar. Hann kemur þarna í hóp verkfræðinganna eins og barnið hjá H. C. Andersen, sem sá í gegnum nýju fötin keisarans. Má segja, að í þessu máli standi hinir ólærðu á móti þeim lærðu. Þykir það ef til vill ójafn leikur við fyrstu sýn, en oft hefir þó farið svo, að hinir ólærðu sáu betur, eins og barnið í æfintýrinu.

Ég vil svo biðja hæstv. forseta fyrir skrifl. brtt., sem ég nefndi áðan, og vænti ég, að afbrigði fáist fyrir henni.