24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

88. mál, vegalög

Sigfús Jónsson:

Ég á hér nokkrar brtt. ásamt tveimur öðrum hv. þm. á þskj. 399. Þessar brtt. fara fram á það að taka í þjóðvegatölu Skagaveg frá Sauðárkróki um Gönguskörð og Laxárdalsheiði að Hvammkoti á Skaga. Það var einu sinni efst á döfinni, að þessi leið frá Blönduósi til Sauðárkróks yrði tekin upp í þjóðvegatölu, því það var talið, að það væri skemmri leið heldur en sú, sem nú er farin. Og einmitt af því, að það var ofarlega í hugum manna, að þessi leið yrði tekin upp sem aðalleið, þá hafa verið gerðar allmiklar vegabætur. Húnavatnssýslumegin hefir verið lagður vegur yfir Þverárfjall, sem er á milli Norðurárdals og Ytri-Laxárdals. En Skagafjarðarmegin hefir verið lagður vegur frá Sauðárkróki og alla leið út að Laxárdalsheiði, en hann getur ekki komið að notum, nema vegirnir yfir Laxárdalsheiði og Kolugafjall gætu haldið áfram. Þess vegna leggjum við til, að tekinn verði í þjóðvegatölu vegurinn um Gönguskörð og Laxárdalsheiði og Kolugafjallsvegurinn af Laxárdalsheiði um Þverárfjall og Norðurárdal að Laxárbrú. Þarna er mikið búið að vinna, sem verður gagnslaust, ef vegur yfir Laxárdalsheiði verður ekki lagður, og svo er ætlazt til, að lagður verði vegur út Laxárdalinn og út á Skaga að Hvammkoti. Þar eru torfærur á leiðinni, ár, sem bílar geta ekki komizt yfir, ef þær eru í vexti; önnur er lítil, en önnur stór, en ég hygg, að þægilegt sé að brúa hana og að sú brú mundi ekki kosta mjög mikið. Ég hefi heyrt á ýmsum mönnum, sem farið hafa þarna um og vilja koma á Sauðárkrók, að þeir mundu vilja fara þessa leið, því að hún er styttri; annars verða þeir að taka krók á sig frá Víðimýri og niður á Sauðárkrók. Ég hefi átt tal um þetta við vegamálastjóra. Hann er þessu fremur hlynntur, sérstaklega vegna þess að svo mikið fé hefir verið látið í þessa vegi, en það fé verður allt gagnslaust, ef vegunum verður ekki haldið áfram og þeir tengdir saman. Þessi fjallvegur er 21 km. Vegamálastjóri segir svo í sínu áliti, að umbætur þar hafi allar verið kostaðar af ríkissjóði, og eiga vitanlega að vera kostaðar af honum. Ég vænti þess því, að d. taki þessu máli vel og samþ. brtt.

Ég skal ennfremur taka það fram, að á leiðinni yfir Laxárdalsheiði þarf í hæsta lagi að leggja 5 km. langan veg. Hitt eru melhryggir, sem gera mætti bílfæra án tilfinnanlegs kostnaðar. Annars geri ég ráð fyrir, að hv. þm. A.-Húnv., sem er kunnugri þarna en ég, tali nánar fyrir þeim hlut, af veginum, sem hér er um að ræða.