02.03.1936
Neðri deild: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

6. mál, lax- og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Það voru aðeins tvö eða þrjú atriði, sem mig langaði til að taka fram, áður en gengið væri til atkv. Um fyrri brtt. hv. þm. Borgf. skilst mér, að áður en gengið er til atkv. um hana, þá verði hver og einn af hv. þdm. að gera sér það ljóst, hvort laxinn sé fiskur, sem eigi að tilheyra þeim, sem land eiga að sjó, eða hinum, sem land eiga að ám. Hvort þeir ætlast til, að hann sé veiddur í sjó eða í ám, og ef þeir ætlast til, að hann sé veiddur í sjó, þá greiða þeir atkv. með brtt. hv. þm Borgf., en þeir, sem álíta, að hann eigi að veiðast í ám, greiða atkv. á móti henni. Ég lít svo á, að laxinn sé árfiskur og eigi að veiðast í ám, en vera friðhelgur í sjó. Nú er þetta ekki þannig í lögum, því gert er ráð fyrir, að þeir, sem farnir eru að veiða í sjó og búa á jörðum, sem hafa hækkað í verði af þeirri ástæðu, fái að halda því áfram. En nú vill hv. þm. Borgf. færa þetta út á víðara svið og leyfa þessa veiði þar, sem hún hefir ekki verið stunduð áður, og ekkert tillit tekið til þeirra möguleika við mat jarðanna, kaup þeirra eða sölu. Ég tel þetta stefna út á hála braut og það beri að halda sem bezt á rétti þeirra, sem lönd eiga að veiðiám. Það verður ekki nógu vel tekið fram, hver hætta stafar af því, að veitt sé í sjó nálægt árósunum og í árósunum. Laxinn getur ekki farið beina leið úr salta vatninu og upp í ferska vatnið; hann drepst, ef breytingin er of snögg. Þess vegna er hann oft margar vikur að sveima um ósana, áður en hann gengur í árnar. Það þarf þess vegna miklu strangari ákvæði um lagnir í ósum heldur en í ám, því laxinn gengur beint upp árnar, en sveimar til og frá um ósana. Sá, sem getur þvergirt kvísl í ós, hefir ekki aðeins möguleika til að veiða laxinn, þegar hann gengur upp í ána, heldur hefir hann tækifæri til að reyna hvað eftir annað að ná sama laxinum, sem er að sveima um ósinn, ýmist upp hann eða niður. Það er þess vegna alveg sjálfsagt að hafa ákvæðin um veiði í ósum strangari, og leyfa ekki að þvergirða kvíslar í ósum, eins og hv. þm. Mýr. vill, að gert sé. Hann segir, að í aðfallinu eða með flóði verði ósinn eitt haf. En hvað verður svo, þegar út fellur? Skiptist ósinn þá ekki í ála? Og hvað verður þá um þann lax, sem gekk í ósinn með flóðinu? Fer hann ekki í álana? Tæplega heldur hann sig á sandeyrunum. Ég held hann hljóti að fara ofan álana, og með því að þvergirða þessar lænur, sem hv. þm. Mýr. talaði um, þá er ganga laxins hindruð. Ég held þess vegna, að till. hv. þm. Mýr., þótt hún sé miðlunartill. og til bóta frá því, sem áður var, þá sé hún mjög varhugaverð, og ekki eigi að leyfa að leggja lengra út í kvíslar í ósum heldur en 1/3. Þess vegna eiga þeir sem vilja, að laxveiðin aukist í heild, og þeir, sem vilja vernda rétt þeirra, sem búa við árnar, að greiða atkv. móti þessari till. Öðru máli er að gegna með þá sem vilja, að einstakir menn njóti veiðinnar á kostnað annara, eins og mér skildist, að hv. 2. landsk. vildi.

Þetta vildi ég segja um ósaveiðina. Ósarnir eru þeir staðir í ánum, sem verður að friða laxinn í, til þess að hann komist upp eftir ánum, upp á hrygningarstaðina. Um það var barizt á síðasta þingi, og eins um það ákvæði, hve lengi mætti veiða laxinn uppi í ánum, þar sem hann hrygnir. En nú er þar farinn millivegur, sá millivegur að banna ádráttarveiði úr því að september kemur, en leyfa lagnir og stangarveiði til 15. sept. Ég vona, að þeir, sem hafa haldið því fram, að laxinn mætti veiða til 15. sept., geti sætt sig við þennan milliveg. Það er áreiðanlegt, að með því að fara hann er víst, að fleiri laxar hrygna uppi í ánum, og það eykur aftur laxgengdina.

Loks vil ég benda á það, að reynslan hefir sýnt, að veiðin minnkar stórmikið þar, sem laxinn er veiddur í sjónum til lengdar. Það, sem við ættum því að gjalda varhuga við, er að byrja veiðina í sjónum, eins og hv. þm. Borgf. ætlast til í sínum brtt., þó takmarkað sé, og svo að veiða hann á hrygningarstöðunum uppi í ánum að haustinu, og því á ekki að leyfa þar ádrátt lengur en til ágústloka.