09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

58. mál, klaksjóður og klakstöðvar

*Jón Baldvinsson:

Eftir því sem mér hefir verið skýrt frá, eru þessir fossar ekki laxgengir, enda eru þeir um 20 km. frá ósum. Laxinn fær uppeldi sitt fyrir neðan fossana, og kemur því ekki til mála, að laxaseiði verði sleppt fyrir ofan þá, og því kemur ekki til greina, að það fari í túrbínuna, en í Elliðaánum eru aðeins fáir metrar frá ósum, þar sem þær falla í sjó, og upp að virkjuninni. En ætlunin er að flytja seiði frá klakstöðinni í Laxá í ár í Eyjafirði og jafnvel Skagafirði, en auðveldara mun vera að flytja seiði frá klakstöðvum í Borgarfirði til Húnavatnsýslnanna en frá Þingeyjarsýslu. Mikil nauðsyn er á að reyna að auka laxveiði í ám á Norðurlandi, þar sem hún hefir verið upprætt að miklu leyti vegna óvægilegrar veiði, en búast má við, að mikil búbót verði að laxveiði fyrir þær jarðir, sem rétt hafa til hennar. Held ég, að veiðinnar vegna muni það ekkert gera til, þó Laxá verði virkjuð, en það er aðeins ráðagerð ennþá.