09.03.1937
Neðri deild: 17. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal benda hv. þm. á það, að það er útilokað að setja svo skýr ákvæði um þetta, að ekki þurfi í hverju einasta tilfelli að meta það, hvort viðkomandi maður uppfylli ákveðin skilyrði. (JS: Það er metið með vottorðum, sem gefin eru). Já, en það þarf einhver að skera úr því, hvort maðurinn falli undir ákvæðin, sem sett eru. Og eins og ég hefi haldið fram, er eðlilegast, að þetta falli undir nýbýlan., þar sem það er svo náskylt þeim málum, sem hún hefir með höndum.

Hv. þm. má ekki halda því fram, að þótt ég eigi sæti í n., þá sé ég þess vegna að sækjast eftir, að þetta verði lagt undir hana. Ég geri það af því, að aðalbankastjóri Búnaðarbankans, sem hefir athugað málið með okkur, sem frv. sömdum, sannfærði okkur um það, að eðlilegast væri, að þessi styrkjastarfsemi væri lögð undir þessa sömu n. og fer með nýbýlamálin, og hv. þm. hefir ekki getað sannfært mig um það, að þetta sé ekki rétt.

Um það, hvernig við, sem í n. erum, notum þetta, þegar verið er að „agitera“ í pólitískum málum, skal ég ekkert segja. Það eru yfirleitt svo mörg ráð, sem notuð eru, þegar svo stendur á, að aldrei er bægt að synda fyrir, að ein n. eða einn maður, eða hvað sem vera skal, noti sér slíkt sér til framdráttar í ýmsum kringumstæðum, og býst ég við, að það þekkist ekki síður í flokki hv. þm. en í Framsfl. Og ég segi ennþá, að á meðan það er ekki með rökum borið á n., að hún hafi starfað pólitískt í úthlutun lána og styrkja, þá álít ég ekki ástæðu til þess, þeirra hluta vegna, að neita að fela henni þessi mál. Og ég viðurkenni ekki, að n. hafi á neinn hátt unnið til þess.

Um það, að nauðsyn sé að auka lánsfé í þeim deildum, sem fyrir eru, er ég hv. þm. sammála. Og ég álít, að byggingar- og landnámssjóður, með þeim tekjum, sem hann hefir árlega og fær frá ríkinu, standi verr að vígi með að taka lán til sinnar starfsemi með þeim kjörum, sem hann á að lána með, þótt þau séu dýrari. Og það mál væri hægt að leysa með formsákvæðisleið, sem ekki þyrfti að verða þessu frv. fótakefli. Og það er það, sem ég veit, að Búnaðarbankinn leggur langmesta áherzlu á, að honum verði veitt fé til að leysa það fé, sem hann hefir bundið í kreppulánasjóði. Þá hefir hann nægilegt fjármagn til að lána byggingar- og landnámssjóði og öðrum deildum, sem fé þurfa til þessarar starfsemi.