17.04.1937
Neðri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég skal strax taka það fram, að ég vil ekki lengja nema sem minnst umr. um þetta mál, til þess að hefta ekki eða tefja framgang þess, því ég vænti þess, að þetta frv. hv. landbn. nái fram að ganga á þinginu. Það er þó ekki svo, að ég og væntanlega fleiri hv. þm. hafi ekki ýmislegt við frv. að athuga, en mér er það ljóst, að málið er bæði svo aðkallandi og alvarlegt, að ég vil ekki, að höfuðatriði frv. séu tafin frá því að fá lögfestingu. Í stað þess því að bera fram brtt. við frv. vil ég nú beina nokkrum aths. við það til hv. landbn., sem ég vona, að n. taki tillit til við nánari athugun sína á frv.

Mér finnst, að takmörk þau, sem um ræðir í 4. gr., séu engan veginn sjálfsögð þannig skorðuð sem þar er gert ráð fyrir, svo að rétt sé að fastákveða þau þannig, að engar aðrar ráðstafanir en þær, sem þar er gert ráð fyrir, geti komið til greina. Í fyrsta lagi af því, að ég tel, að orkað geti tvímælis um það, hvort þau svæði, sem þar er talað um, verði undir öllum kringumstæðum endilega umgirt eins og þar er gert ráð fyrir. Í öðru lagi — og eru fleiri á því máli, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Árn., — hygg ég, að þær ákveðnu ráðstafanir, sem taldar eru í frv., séu sumstaðar engan veginn fullnægjandi, auk þess sem komið geta til greina, þó ekki sé upplýst nú, fleiri svæði, sem verja þurfi með girðingum. Þess vegna tel ég rétt að fastbinda ekki með lagaákvæðum, hvar girðingar verði lagðar, heldur sé heimild gefin fyrir því að leggja girðingar til varnar. Mætti breyta þessu með því að segja í upphafi 4. gr. frv. „má girða“ í staðinn fyrir „skal girða“. Nú mun þessu verða svarað því, að síðar í frv. séu ákvæði, sem heimili framkvæmdarstjóra að haga girðingunum öðruvísi en segir í 4. gr. Þó mun það aðeins ná til girðinganna á þeim svæðum, sem þær eru ákveðnar, en ekki heimila að flytja þær yfir á önnur svæði. Eins og máli þessu er komið, tel ég, að hver stjórn og framkvæmdaráð, sem fer með þessi mál, skuli hafa heimild til að gera allt, sem í frv. er tekið fram, en fyrirmælin um það, hverjar framkvæmdir skuli gera og hvernig, ættu að vera svo rúm, að hægt væri að haga framkvæmdum eftir hverri nýrri vitneskju, sem fram kann að koma, og heilbrigðum ráðum, hvaðan sem eru. Með þessu vildi ég segja það, að sú stj. og það framkvæmdaráð, sem fara með þetta mál, séu ekki um of bundin af fastákveðnum varnaraðgerðum. Í annan stað tel ég, að í 18. gr. frv. sé ekki rétt skipt þeim kostnaði, sem leiðir af vörnunum. Ég álít, að sá kostnaður eigi að öllu leyti að greiðast úr ríkissjóði, og þá hinum almenna bjargráðasjóði, en að sleppt verði þeirri niðurjöfnun á alla aðra fjáreigendur en þá, sem búa á sýkta svæðinu. Sú hugsun mun vera á bak við þessar till. um niðurjöfnun, að það sé rétt, að þeir beri kostnaðinn, sem verið er að verja, en mér skilst, að sá almenni sjóður landsmanna standi þarna næstur.

Í þriðja lagi eru það nokkur atriði, sem telja má, að meir séu meðferðaratriði og 12., 16. og 17. gr. fjalla um. Ég tel réttara, eins og réttarfarsmálum er hér hagað, að binda þá umsjón, sem hreppstjórum er fengin í þessum gr. frv., heldur við vald lögreglustjóra, því ég tel, að hreppstjórar hafi ekki nægilegt vald til að framkvæma það eftirlit, sem gert er ráð fyrir, að þeim verði falið, án þess að þeir þurfi að leita á náðir lögreglustjóra. Bráðabirgðalögin, sem hæstv. landbrh. gaf út í vetur um varnir gegn sauðfjárpestinni og frv. það, er hér liggur fyrir, er að miklu leyti sniðið eftir, höfðu einnig þennan galla, að hreppstjórum er falið eftirlit, sem raunverulega heyrir ekki undir þá. Mun þetta ekki hafa verið athugað af hæstv. ráðh., en brbl. þannig búin honum í hendur af öðrum. Ef þessu verður dembt á hreppstjórana, sem raunar er þó ekki hægt, þá getur orðið álitamál, þegar til framkvæmdanna kemur, hver á að bera þær fram, og getur svo farið, að enginn verði til þess. Þetta vil ég benda hv. landbn. á að athuga.