17.04.1937
Neðri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Emil Jónsson:

Ég er sem landbnm. einn af flm. þessa frv., en ég flyt það með öðrum hætti en önnur mál, þar sem ég get ekki annað sagt en ég flytji það gegn samvizkunnar mótmælum, og þess vegna langar mig til að fara um málið nokkrum orðum.

Mér finnst allt málið í svo lausu lofti, að ómögulegt sé eiginlega að gera sér grein fyrir, hvað réttast sé að gera. Það veit enginn, hver þessi veiki er. Það er deilt um, hvort veikin sé gömul eða ný hér á landi, hvort hún sé sérstök veiki eða sérstaklega slæmt tilfelli af áður þekktri veiki. Helzt mun þó vera hallazt að því, að þetta sé ný veiki, en þá veit enginn, hvernig hún berst, enginn, hve langur er meðgöngutími veikinnar. Eru vafapunktarnir svo margir í þessu „spursmáli“, að yfirleitt verður að telja mjög vafasamt gagn af þeim ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir. Hver getur t. d. fullyrt, að veikin berist ekki með fuglum? Bæði þetta og ýms fleiri óljós atriði gera það að verkum, að mér finnst afarerfitt að forsvara það fyrir bæði sjálfum sér og öðrum að veita fé til svo vafasamra ráðstafana svo hundruðum þúsunda króna skiptir, — getur jafnvel orðið um hálfa millj., því fjárframlögum til þessa eru lítil takmörk sett í frv. En ástæðan til þess, að ég hefi ekki gert ágreining, er sú, að ég viðurkenni, að brýn og aðkallandi þörf réttlæti það, að gripið sé til örþrifaráða. (BÁ: Mikið var!). Mikið var, segir hv. þm. Mýr. Því miður eru það örþrifaráð að þurfa að kaupa fyrir of fjár þær varnir, sem óvíst er, að gefi nokkuð í aðra hönd.

Þær aths., sem hér hafa komið fram um að binda ekki um of í frv., hvað gert skuli, get ég fullkomlega fallizt á, því það er naumast hægt á þessu stigi málsins. Mín afstaða hefði frekar verið sú, að reyna að hafa þetta allt sem lausast, mest í heimildarformi fyrir ríkisstj., þannig að hún hefði leyfi til að grípa til þeirra ráðstafana, sem á hverjum tíma eru líklegastar til þess að gefa sem beztan árangur, en skylda fyndist mér, að kæmi einungis til greina sem óumflýjanleg í þeim héruðum, þar sem lítið eða ekkert er sýkt, til þess að koma upp girðingum eða nokkurskonar sóttkví fyrir þær stöku kindur, sem væru sýktar og menn ekki vildu lóga, eins og gert er ráð fyrir í 6. gr. frv. Ef þetta frv. á nú að fara til n. aftur, sem mér skildist, þá vildi ég, að þessar leiðir yrði athugaðar, sem hér hefir verið stungið upp á, um möguleika fyrir því að losa þetta meira en gert er ráð fyrir í frv. Það er að vísu svo, að það þjá landsmenn ýms önnur vandamál heldur en fjárpest, og Alþingi hefir ekki alltaf verið svo fljótt á ferðinni eins og það hefir verið með afgreiðslu þessa máls, og ég gæti, ef því væri að skipta, bent á önnur og ef til vill fullt eins aðkallandi vandamál, sem krefjast eins skjótrar úrlausnar og þetta mál, en þar fyrir sé ég mér ekki fært, af þeim ástæðum, sem ég hefi nefnt, og þrátt fyrir annmarkana á þessu, að vera á móti frv., vegna þeirrar hættu, sem vofir yfir öllum sauðfjárstofni landsmanna, ef þessi pest nær að aukast. (BÁ: Mikið var!). Mikið var, segir hv. þm. Mýr., en það má segja, að mikið var, að menn hugsuðu sig um áður en farið er út í ráðstafanir, sem leggja ríkissjóði á herðar þá skyldu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, án þess að menn viti nokkurn skapaðan hlut, hvort það kemur að notum eða ekki. Það er eðlilegt, að menn hugsi um það.

Það hefir komið fram hér í umr., að ekki væri ástæða til, að neinn hluti kostnaðarins yrði greiddur af þeim sauðfjáreigendum, sem búa innan ósýktra svæða. Ég er þessari skoðun mótfallinn, því að þessar ráðstafanir eru fyrst og fremst gerðar til þess að tryggja þá, og þess vegna ber þeim þegar af þeirri ástæðu siðferðisleg skylda til að taka einhvern þátt í þessum kostnaði, en að öðru leyti er ég líka með því vegna þess, að þegar svona pest ber að höndum, er mjög mikil hætta á því, að menn heimti girðingar alstaðar, á líklegum og ólíklegum stöðum, ef þeir geta fengið þær sér að kostnaðarlausu, og það er ekki óeðlilegt, að þeir fari fram á þetta, ef þeir geta fengið það án þess að leggja neitt fram sjálfir. Þess vegna er nauðsynlegt, að menn hafi einhverja ábyrgðartilfinningu í þessu efni, samfara því sem lagt er út í þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég tók það fram í upphafi máls míns, að ég vildi gera grein fyrir minni afstöðu til málsins.