20.03.1937
Neðri deild: 23. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (1310)

43. mál, opinber ákærandi

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég gerði grein fyrir því í upphafi þessarar umr., hvers vegna ég teldi ekki rétt að samþ. þetta frv., og vil ég ekki endurtaka ástæður mínar fyrir því. En umr. þær, sem síðan hafa farið fram, hafa sannfært mig betur um það, að frv. er aðallega flutt til að geta komið fram eins konar eldhúsdegi á hendur hæstv. stj., og einkum þó ráðh. þeim, sem fer með ákæruvaldið.

Hv. 11. landsk. hélt fast við rök sín, ef rök skyldi kalla, sem fram eru færð í grg., sem sé það, að það væru ekki rök gegn frv., að ekki mætti taka út úr einstök atriði úr réttarfarslöggjöfinni og lögfesta þau, enda þótt í undirbúningi væri heildarlöggjöf. Hann benti á það, að lögfræðingan. hefði á þennan hátt tekið út úr einstök atriði, er snerta meðferð einkamála. En réttarfarslöggjöfin um einkamál er svo sérstakur þáttur í löggjöfinni, að um það gegnir öðru máli.

Um hæstarétt og breytingar á honum er það að segja, að um það hefir mikið verið barizt hér á Alþingi, hvort rétt væri að breyta sérstökum þáttum í löggjöfinni um hann. Við í lögfræðingan. ræddum þetta mál, og vorum við hv. þm. Barð. þeirrar skoðunar, að þegar hefði átt að vera búið að breyta l. þannig, að hafa ekki dómara sjálfskipaða, því að það er ekki eðlileg lýðræðisregla. Í öðru lagi vildum við koma á því skipulagi, að hafa opinhera atkvgr., þar sem ágreiningur væri milli dómara um niðurstöður. Það er ekkert undarlegt, þó að þetta kæmi fram, því að ekki eru líkur til, að löggjöf um hæstarétt yrði breytt, þó að gerbreytt yrði l. um meðferð mála fyrir undirrétti.

Út af þeim almennu ummælum um misbeitingu ákæruvaldsins, þar sem gerður hefir verið samanburður á ráðh. þeim, sem farið hafa með dómsmál undanfarið, verð ég að segja, að kollumálið svokallaða er átakanlegasta dæmið um misbeitingu ákæruvaldsins. Það mál var bæði hryggilegt og kátbroslegt, hryggilegt af því, að farið var með slíkt pólitískt ofsóknarmál fyrir hæstarétt, og kátbroslegt af því, að öll meðferð málsins var svo fáránleg, að undrun sætir, svo að slíks eru ekki dæmi til í nokkru máli öðru.

Hv. 8. landsk. nefndi störf lögfræðingan., er haft hefði til meðferðar undirbúning að nýrri löggjöf um meðferð opinberra mála. Hann spurði, hvenær frv. um þetta myndi koma fram og því þar ætti ekki að fylgja með till. um meðferð einkamála. Ég hefi áður svarað þessu, að ég tel líklegt, að frv. komi fram á þessu þingi. En ég tel ekki líklegt, að málið verði afgr. á þessu þingi, því að nauðsynlegt er, að dómbærum mönnum gefist kostur á að athuga málið. Ef frv. kæmi fram á þessu þingi, gæfist þm., lögfræðingum og öðrum kostur á að athuga það til næsta þings. En ég gat líka í fyrstu ræðu minni um ástæður þær, annríki og veikindi, er valdið hefðu því, að málinu hefir seinkað.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið auðvelt fyrir okkur að afgr. málið, því Einar Arnórsson væri búinn að semja frv. Þetta er í samræmi við aðra sleggjudóma hv. 8. landsk. Hér voru höfð þau vinnubrögð, sem venja er til í slíkum n., að eftir að n. hafði rætt þau atriði, er taka þyrfti upp, var Einari Arnórssyni falið að semja frumdrög að frv. Á meðan hann var að semja uppkastið, ræddi hann við n. um eitt mikilsvert atriði, þáttöku leikmanna í opinberum dómum, en slíkt tíðkast, eins og kunnugt er, víða erlendis. Reis þá nokkur ágreiningur um það, hvort rétt væri að hafa kviðdóma, eins og tíðkazt hefir í Englandi, Noregi og víðar. Meiri hl. hallaðist að því, að hafa bara leikmenn sem meðdómendur með löglegum dómendum, en minni hl. vildi hafa kviðdóma í vissum málum. N. hefir athugað þetta mál á mjög mörgum fundum, þó að hún hafi ekki enn getað lokið störfum. En það er gott dæmi um fullyrðingar hv. 8. landsk., hvernig hann talar um starfsaðferðir n. Er það í samrami við þá fullyrðingu hans, að frv. um meðferð einkamála, sem lagt var fyrir þingið í fyrra, hafi verið með sömu greinatölu og þá er Einar Arnórsson gekk frá því. Ég hefi ekki athugað þetta, en ég tel meiri líkur til, að það sé rangt, eins og flest annað, sem þessi hv. þm. sagði í sinni ræðu. En jafnvel þótt þetta væri rétt, er barnaskapur að halda, að það sé nokkur sönnun fyrir, að frv. hafi ekki verið breytt. Það er hægt að gerbreyta frv., þó að greinatölunni sé ekki breytt. Það er meira að segja oft gert hér á hæstv. Alþingi, að frv. er umsteypt, án þess að greinatölunni sé breytt. En þessi fullyrðing sýnir — ef má viðhafa svo óþinglegt orð — hundavaðshátt þessa hv. þm., þegar hann dæmir um meðferð lögfræðingan. á þessu máli. Annars skiptir það ekki máli, hverju hafi verið breytt í lögfræðingan. frá því, sem Einar Arnórsson hafði lagt til, en ég get upplýst það, og það veit hv. 8. landsk. einnig, að það var breytt talsvert miklu í frv. að efni til eftir uppástungu okkar meðnm. Einars Arnórssonar, atriðum, sem ég tel þýðingarmikil. En frv. var áður sérstaklega vel undirbúið og búið að vinna að því lengi, m. a. hafði Einar Arnórsson siglt til Norðurlanda til þess að athuga réttarfarið þar í einkamálum og unnið þar allt sumarið, áður en n. tók til starfa, svo að það var gefið, að það var höfuðgrundvöllurinn, sem n. byggði á í starfi sínu. — Ég skal geta þess, að einstakir nm. fóru yfir réttarfarslöggjöf nágrannalandanna í þessu efni, báru saman við frv. og komu með breyt. í samræmi við réttarfarslöggjöf Norðurlanda, sem okkur þótti ástæða til að taka til hliðsjónar við afgreiðslu málsins.

Ég sé aðeins ástæðu til þess að taka þetta fram, en að öðru leyti finnst mér það vera að bera í bakkafullan lækinn, að fara frekar inn á það pex, sem orðið hefir í hv. d. um ákæruvaldið og ýms fleiri atriði. En ég fyrir mitt leyti mun að umræðu þessari lokinni, ef ekki kemur fram um það till. í rökstuddu dagskrárformi, greiða atkv. gegn frv., af því að ég álít það aðeins til þess að tefja tíma þingsins, að hafa aðra deiluumræðu um þetta mál, þar sem vitað er, að réttarfarslöggjöfin liggur til róttækrar endurskoðunar í þeirri n., sem um það fjallar. Ef þetta frv. yrði að lögum og á næsta þingi yrði samþ. okkar frv., þá þyrfti að nema þetta frv. úr gildi, og lítið úr því yrði nothæft inn í þá löggjöf, sem við höfum gert beinagrind að í n., því að við hugsum okkur verksvið opinbers ákæranda nokkuð öðru vísi en hér er gert ráð fyrir. Af þeim ástæðum mun ég leggja gegn því, að þetta frv. fari lengra.