05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (132)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Magnús Guðmundsson:

Ég held fast við það, sem ég sagði áðan, að ég tel það misnotkun á skuldaskilasjóði, ef lán eru veitt til þess að greiða skuldir, sem í sjálfu sér eru tapaðar. En hv. 4. landsk. dró dálítið í land, er hann sagði, að hann miðaði við það, að skuldandi væri tekinn til gjaldþrotaskipta, er hann talaði um algerlega tapaðar skuldir. En það getur verið hyggilegt að borga fáein prósent af skuldum til þess að forða manni eða fyrirtæki frá gjaldþroti, án þess að hægt sé að segja, að það sé á kostnað þess opinbera, því að hver græðir á gjaldþrotaskiptum? Á þeim græðist ekki annað en skiptagjöldin, sem renna í ríkissjóð.