24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1384)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Ólafur Thors:

Það er ekki sérlega margt í ræðum hv. stjórnarliða, sem mér þykir ástæða til að andmæla, enda lítill tími til umráða. Þó mun ég víkja að einstökum atriðum, en hending ræður nokkru um, hvar niður er borið.

Héðinn Valdimarsson sagði, að ég hefði ekki svarað rökum í ræðu hans. Það voru ekki rökin, sem þá ræðu einkenndu, heldur persónulegur óhróður, illkvittni og nag. HV segir nú, að hann vilji alls ekki tala um einkalíf manna. Í frumræðu sinni byggir hann árásirnar, ekki aðeins á mig og bræður mína heldur einnig á foreldra okkar, á því, að við lifum í óhófi. Þegar ég svo svara og segi: Ég býð HV að bera saman einkalíf hans og mitt, — ég býð HV að rökræða, hvað ein fjölskylda má eyða árlega, og þá jafnframt rannsókn á því, hvernig hvor um sig, hann og ég, lifum eftir þeim boðorðum, — ég býð allan þann einkalífssamanburð, sem HV óskar eftir og telur máli skipta, þá kemur annað og alveg nýtt hljóð í strokkinn. hv. sem rökstyður eitt hið dæmalausasta endemisplagg, sem sézt hefir á Alþingi, nær eingöngu með persónulegum árásum, með árásum á einkalíf pólitískra andstæðinga, þessi sami HV segist ekkert um einkalíf vilja tala, þegar minnzt er á hans eigin einkalíf og boðið upp á gagnrýni, rannsókn og samanburð. Hvers vegna? Það er vegna þess, að HV veit, að þegar spilin eru lögð á borðið, kemur í ljós, að sannleikurinn um hann er verri en lygin um mig.

Það er ákaflega aumingjalegt, að HV skuli nú vera að reyna að telja mönnum trú um, að hann hafi verið andvígur mati yfirskattanefndar á bréfum Kveldúlfs. Allir þekkja ráðríki hv. og því trúir þess vegna enginn, að hann hefði látið meta þau á milljón, ef hann hefði talið þau einskisvirði, eins og hann nú gefur í skyn. En annars er auðvelt að vita vissu sína í þessum efnum. Til þess þarf ekki annað en sjá bækur yfirskattanefndar. Engum dettur væntanlega í hug, að hagfræðingurinn HV láti breyta núlli í milljón, án þess að gera svo mikið sem aths., en frá honum sést hvergi slíkur stafur til andmæla. Með því má telja sannað, að hann er nú aðeins að reyna að skrökva sig út úr ógöngunum.

Ég skil vel, að HV telji sér fært að ráðast á okkur bræður út af því, að við með „ábyrgðum fyrir óviðkomandi menn“ höfum „teflt fjárhag okkar í voða“, eins og hann orðaði það. Skil og skil ekki. Það mun að vísu satt, að engin hætta er á því, að HV verði gjaldþrota af þeim ástæðum. Hitt er svo eftir að vita, hvort allur almenningur tekur harðara á þessu „afbroti“ okkar bræðra en sumu því, sem segja má með sanni í sambandi við útgjöld HV.

Það eru bein ósannindi, sem HV sagði í sambandi við, hve langan tíma tæki að afgreiða þetta mál hér á Alþingi. Frv. er, sem kunnugt er, ekki stjórnarfrv., og hver einasti þm. veit því, að hvert orð, sem ég sagði um afgreiðslu málsins, er í fullu samræmi við þingsköp, en staðhæfingar HV alveg staðlausir stafir.

Einnig fór HV með öllu rangt með allt, er laut að fjárhag Kveldúlfs. Hann hafði þar alls enga tölu rétta, og ekki svo mikið sem neitt nærri því rétta. Verður að vísu að játa, að í þeim efnum á hann sér þá afsökun, að vita ekki nema sumt af því sanna, en honum væri þá líka sæmra að tala minna. Læt ég í þessu sambandi nægja að minna á, að 3 skattstjórar, Einar Arnórsson, Helgi Briem og Eysteinn Jónsson, hafa látið athuga vandlega allar bækur Kveldúlfs, og m. a. allt, er gerðist í sambandi við eignatilfærslu í félaginu, og ekkert fundið við það að athuga.

Mikill spekingur er upp risinn á meðal vor, er HV getur nú frætt þjóðina á því, að þrátt fyrir það, að Kveldúlfur hefir tapað fé frá 1930, þá hafa eigendur félagsins þó fengið sér til lífsviðurværis frá félaginu og þannig étið af eignum félagsins. En hvað skyldu aðrir framleiðendur hafa gert? Skyldu ekki yfirleitt allir framleiðendur í landinu hafa orðið að auka skuldir framleiðslunnar með því að taka sér til lífsviðurværis af fé þess fyrirtækis, sem þeir eiga og starfa við? Það geta ekki allir, og vilja auk þess fæstir, lifa á olíuokri.

Þá er það mjög gáfuleg fjármálabending til Kveldúlfs, að lækka skuldir í hérlendum bönkum með erlendum lántökum, þ. e. a. s. ef nokkur væri svo vitlaus að lána fé í því skyni.

HV segir að forstjórar Kveldúlfs hafi lítt sinnt till. fiskimálanefndar. Réttara væri að segja, að fiskimálan. hefði ekki nægilega kunnað að hagnýta sér heilræði forstjóra Kveldúlfs. Til hins ætlaðizt enginn, að hreinn viðvaningur á sviði útvegsmála, eins og hv. færi að kenna þeim, sem mikla reynslu hafa í þessum efnum.

Stefán Jóh. Stefánsson fann, að hann þurfti að reyna að bera hönd fyrir höfuð, en þar var máttlaus hönd. Hann hefir lapið í Alþýðublaðið allt, sem bankaráðsform. StJSt fékk að vita. Slíkt er gróft afbrot og verðskuldar þunga refsingu.

Stefán Jóhann nefndi saman og sem sambærilegt Kveldúlf og Síldareinkasöluna gömlu. Síldareinkasalan hafði allt af öllum og endaði með svo herfilegu gjaldþroti, að enda þótt hún í tvö ár hefði fengið alla síld fría, var hún samt gjaldþrota. Kveldúlfur hefir greitt 50–60 millj. kr. í verkalaun, 4–5 millj. í vexti, 9,1 millj. kr. í opinber gjöld, oftast greitt hæst kaup og veitt lengsta vinnu og alltaf greitt öllum sitt alveg tafarlaust. Það er ekki von, að alþýðuvinurinn StJSt viti þetta. Sú alþýða, sem hann elskar, þ. e. a. s. StJSt, hefir aldrei fengið neitt hjá Kveldúlfi, og fær þar aldrei neitt.

Það er viðbjóður, að heyra þessa þjóðfrægu eyðslu- og óhófsseggi, eins og HV og StJSt, sístagast á annara óhófi. Ég er seinþreyttur til vandræða, en kunni þeir sér nú ekki hóf hvað líður í slíkum mannskemmdum, skal ég fletta ofan af þeim, svo að um munar. Og það skal ég segja StJSt, að hann getur sparað sér hrakspár um Kveldúlf og okkur feðga. Ég treysti mér a. m. k. að lofa honum því, að sagan um okkur skal ekki enda verr en sagan um hann sjálfan og hv. að ekki sé fastar að kveðið. Það er að vísu hægt að safna auði með því að taka af ríkinu 100 þús. kr. fyrir lítið, eins og StJSt ætlaði að gera í sambandi við svensku lántökuna, sem mörgum er kunnugt um, en þetta og margt annað svipað er drýgra fyrir sparisjóðsbókina en mannorðið.

Ég vek athygli á því, að Magnús Torfason sagði, að það „gangi glæpi næst að ganga að Kveldúlfi“ og ennfremur: „blandi þingið sér í málið, er með því skert gjaldþol landsins út á við, en það eru landráð, eins og nú er komið fjárhag landsins.“ Þetta er nokkuð góð og tæmandi lýsing á ábyrgðarleysi sósíalista, en ef til vill finnst þeim sjálfum, að það komi úr hörðustu átt, að þessi hv. þm. skuli kalla þá glæpamenn og landráðamenn, jafngott og verið hefir lengst af í þeirra vináttu.

Ég held, að Haraldur Guðmundsson ætti að láta niður falla allar tilraunir til varnar Finni Jónssyni og Emil Jónssyni. Slíkt fer illa í þess munni, sem reynir að ráðast á Kveldúlf, og væri þá nær, að HG reyndi að verja sjálfan sig út frá því sjónarmiði, er hann nú talar. Ég hefi hér nefnilega handa á milli bréf frá Haraldi Guðmundssyni, sem þá var kaupfélagsstjóri í hinu alræmda kaupfélagi Reykjavíkur. Þar sést, að HG hefir ekkert flökrað við töpum, skuldum og eftirgjöfum. Skal ég leggja það bréf hér fram, ef HG gefur frekara tilefni til þess nú eða síðar.

HG segir, að ólíkt sé um smáútveginn og Kveldúlf. Segjum það. En hvers vegna má ekki láta nægja, að venjuleg landslög gangi yfir Kveldúlf? Því þarf að semja sérlög honum til falls, meðan öðrum er bjargað undan landslögum með sérstakri löggjöf?

Skyldi þetta ekki eiga eitthvað skylt við það, hverjir það eru, sem Kveldúlf eiga?

HG fór alveg rangt með útgerðardaga skipanna, svo að miklu munaði. Mun vera rétt, að þeir voru frá 173–270 daga. En hitt er víst, og það veit HG, að venjan er sú, að Kveldúlfur gerir lengst út og borgar a. m. k. eins hátt og sá er hæst borgar.

Ég ráðlegg HG að tala sem minnst um Hjalteyrarverksmiðjuna. Framkoma hans í því máli er honum til mikillar minnkunar, enda þótt líklegt sé, að hann hafi þar þjónað illvilja annara, en ekki sínu eigin innræti.

Framsóknarmönnum þarf ég ekki mörgu að svara. Flest, sem Eysteinn Jónsson sagði, var rangt. Það var að vonum. Ekki af því, að hann hafi gert rangt í þessu máli, heldur af hinu, að blöð hans voru lengi búin að tala þannig um málið, að aðstaðan til að gera rétt var erfið, og hitt þó enn erfiðara, að segja satt og rétt frá öllu. Ég fyrirgef ráðh. orðin vegna verkanna. En leiðinlegt er það, að þá sjaldan Framsókn gerir rétt, skuli hún þurfa að þvo sig eins og eftir mannsmorð.

Bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. gáfu í skyn, eða jafnvel sögðu beinlínis, að Kveldúlfur hefði verið „knúður“ til að ganga að þeim kjörum, er að lokum samdist um. Þetta eru með öllu tilhæfulaus ósannindi. Að vísu er það rétt, að Thor Jensen lét fyrst falar til sölu allar jarðeignir sínar með áhöfn og öðru, er fylgir, í því skyni, að andvirðið gengi til að lækka skuldir Kveldúlfs. En hitt er líka rétt, að allt frá öndverðu stóðu eigur Thors Jensens til boða til tryggingar skuldum Kveldúlfs.

Það er meir en spaugilegt, þegar þessir herrar eru að tala um fjármálaóreiðuna í Kveldúlfi. Þetta er orðið slagorð, sem fávísum lýð og allsendis ókunnugum þessum málum er ætlað að trúa. Hjá Kveldúlfi hefir aldrei verið svo mikið sem skuggi af óreiðu, hvað þá meir. Svo koma mennirnir, sem eyddu 76 millj. kr. á 4 árum, mennirnir, sem lofa og prísa Kaupfélag Þingeyinga, og ætla að stimpla okkur sem óreiðumenn! og segja, að enginn hafi gengið betur fram í því, að stöðva sukkið í Kveldúlfi en Jónas Jónsson. Hann var þá líka maðurinn til þess. Nei, öllu má ofbjóða. Og svona tal sæmir sér vel í Speglinum, en fer mjög illa í sölum Alþingis.

Baráttunni um Kveldúlf er nú lokið með ósigri öfgamannanna.

Á henni hefir það unnizt, að upplýst er að fullu um vald kommúnista yfir HV.

HV hefir barizt hinni neikvæðu baráttu, barizt gegn því, að bankarnir mættu tryggja skuldir sínar, barizt gegn því, að hundruð manna á sjó og landi hafi góða atvinnu við þorsk- og síldveiðar togara Kveldúlfs, barizt gegn því, að reist verði ný síldarverksmiðja á Hjalteyri.

Hefði HV sigrað, ætlaði hann í nafni og umboði kommúnista að láta kné fylgja kviði og hætta ekki fyrr en einkaframtakið var brotið á bak aftur.

Við eigendur Kveldúlfs megum fagna þeim málalyktum, sem orðnar eru. Baráttan á hendur okkur hefir að vísu verið háð með fullkominni fyrirlitningu fyrir sannleikanum, persónulegu og pólitísku velsæmi. En að henni stendur aðeins fámennur hópur manna, sem æst hefir sjálfan sig upp til heiftar. Það er alltaf alvarlegt mál, ef stöðva verður starfsemi eins stærsta atvinnufyrirtækis landsins, ekki sízt þegar atvinnuleysið er að verða versta böl alls almennings. En enn voveiflegri verða þó afleiðingarnar, ef þetta er gert að nauðsynjalausu og eingöngu í því skyni, að koma pólitískum andstæðingum á kné. Ef Kveldúlfur hefði fallið vegna þess, að hann var verr stæður en önnur útgerðarfélög, var það að vísu ógæfa öllum þeim mörgu, er þangað sækja lífsviðurværi. En að leggja félagið að velli þrátt fyrir það, að skuldir þess eru eftir atvikum mjög vel tryggðar, og eingöngu vegna þess, að tveir þm. Sjálfstfl. og bræður þeirra eiga félagið, hlaut að skapa hugarfar, sem allri þjóðinni stafar voði af.

Ég fagna þess vegna af heilum hug, að við höfum orðið ofan á í þessari baráttu. Ella er hætt við að ofsóknirnar hefðu skilið eftir mikla beiskju í hugum mjög margra manna, sem talið hefðu, að við hefðum verið lagðir að velli með lúalegum vopnum. Slík beiskja þeirra, sem finna sig miklum órétti beitta, er æfinlega hættuleg, og ekki sízt ef hún er svo víðtæk, að hún nær til stærsta stjórnmálaflokks landsins, sem í þessu máli á samúð afarmargra pólitískra andstæðinga.

Það er sagt, að sá sé eldurinn heitastur, er á sjálfum brennur. Mér hefir þó ekkert illt á óvart komið í þessu máli. En mér hefir þótt vænt um að finna, að jafnvel í tölu þeirra manna, er gerzt hafa flm. þessa frv., eru menn, sem taka nærri sér að hafa þurft þess, og ég fagna því, að sú trú mín, að meðal pólitískra andstæðinga Sjálfstfl. séu menn, sem ekki láta stjórnast blint af pólitískum hagsmunum, hefir fengið nýja staðfestingu. Á þeirri gömlu trú og nýju reynslu byggi ég þar vonir, að þrátt fyrir einræðiskennt ofstæki og heift nokkurra manna, megi takast á hættunnar stundu að afstýra því, að alveg taumlaus og fyrirhyggjulaus heift drepi niður alla afkomumöguleika þjóðarinnar.

Það líður nú óðum að kosningum. Ef til vill verða þær í vor, en eigi síðar en næsta sumar. Við kosningarnar kemur í ljós mat þjóðarinnar á gerðum okkar. Ég öfunda Alþfl. ekki. Það getur að vísu verið, að lýðhylli Jóns Baldvinssonar og nokkurra annara ráðamanna flokksins telji mikið. En skuldamegin stendur 4 ára áætlunin svikin og sundurtætt, vaxandi atvinnuleysi og hækkandi skattar. Þetta verður þungbært. En þó hefir Alþfl. enn þyngri drösul að draga. Maðurinn, sem sjálft Alþýðublaðið í ógætni sagði, að gerzt hefði sekur um athæfi, sem þjóðin hefði viðbjóð á, maðurinn, sem samherjarnir í tímaflokknum kalla olíuokrara og þjón erlends auðvalds, þessi maður, þessi kaldlyndi, eigingjarni, ríki tortryggilegi og tortryggði olíusali er og verður banabiti flokksins.

Eftir skyndimat kosninganna mun koma í ljós, að Alþfl. á ekki fyrir skuldum. Hann verður því þá væntanlega tekinn til gjaldþrotaskipta.

Ég legg til, að sjómenn fái sparifé HV í erlendum og innlendum bönkum og aðra fjármuni upp í olíuokrið, kommúnistar kroppinn. Fleira er þar ekki til skiptanna.

Þessu máli er nú lokið. HV hefir átt hægari leik en ég að undanförnu, eins og oft áður. Hans aðaláhyggjur hafa stafað af óvissunni um sigur ofsóknanna. Mínar af því, að bjarga því, sem hann vill rífa niður, atvinnu minni og hundraða eða þúsunda annara.

Við sefum nú deilurnar og njótum páskahelginnar.