20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (1422)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Finnur Jónsson:

Hv. þm. Vestm. hefir sagt frá Póllandsviðskiptunum, og ber okkur í flestu eða öllu saman nema að því einu, að ég sagði, að þótt okkur báðum hefði þótt það nokkuð athugavert, þá hefðum við látið þennan sölumann fá 10 þús. tunnur til þess að vinna með nokkra daga, og hygg ég, að ég fari þar rétt með. Má vera, að hv. þm. Vestm. hafi talið með, að hann hafi ekki viljað láta þetta umboð standa nema vissan ákveðinn tíma. Ég sé því ekki ástæðu til að fara út í það frekar.

Viðvíkjandi hv. þm. G.-K. vil ég segja, að það kom augljóslega fram í ræðu hans, að hann þorir ekki að leggja Kveldúlf undir opinbera rannsókn. Ég hefi boðið honum, að við skyldum hafa kaup kaups um þetta. Hann þorir ekki að taka því, og má ég því fyrir mitt leyti við una, að því leyti að hann hefir opinberlega og fyrir öllum þingheimi borið ósigur í þessu máli. — Hann hélt áfram að tala um, að láta þyrfti rannsókn fara fram til þess að sanna mína óheiðarlegu framkomu. Áður fullyrti hann og sagði, að hann væri sannfærður um, að ég hefði gert mig sekan í ýmsu óheiðarlegu. M. ö. o., hv. þm. fullyrðir fyrst og bendir síðan á að þurfi að rannsaka það, sem hann hafði fullyrt um. Þetta er ekkert annað en sá venjulegi hundavaðsháttur, sem þessi hv. þm. sýnir í einu og öllu hér á þingi.

Þá sagði hann, að ég hefði dregið mig og mitt fé út úr ábyrgðinni fyrir samvinnufélag Ísfirðinga. Í því félagi er um sameiginlega ábyrgð á öllum skuldum félagsins að ræða, og því getur hvorki einn né annar tekið að sér þá ábyrgð, ef það er ekki vilji félagsins, þannig að ef stjórn félagsins álítur, að þetta sé dómstólaatriði, þá heyri þetta vitanlega undir hana, að segja til með, hvort svo sé eða ekki og hvort dómstólanir skuli skera úr því eða ekki.

En til áréttingar því, sem ég sagði um þennan vesalings fátæka mann, sem kom frá Ísafirði og hv. 6. þm. Reykv. lýsti, þá skal ég segja þá sögu til þess að sýna, hvernig Kveldúlfsvaldið er farið að nota sína aðstöðu. Hv. 6. þm. Reykv. sagði réttilega frá, að þetta hefði verið fátækur atvinnulaus maður fá Ísafirði. Hann var áður búinn að fara í Kveldúlf, og svo er honum vísað á kosningaskrifstofu Sjálfstfl. til þess að vita, hvort hann hefði réttan stimpil, svo að hægt væri að ganga úr skugga um, hvort hann mætti fá vinnu í Kveldúlfi.

Ég er víst búinn með minn tíma, en vil aðeins segja, að ég tel mínum heiðri vel borgið, meðan hv. þm. G.-K. segir, að ég sé óheiðarlegur, og ég tel mínum dugnaði vel borgið, meðan hann segir að ég sé óduglegur, því að allt, sem þessi hv. þm. segir, er ekkert nema blekkingar og lygi. (Forseti hringir).