20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 205 í C-deild Alþingistíðinda. (1425)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins út af þessum orðum hv. 2. þm. Reykv. Hann segir, að fram hafi farið samtöl milli flokkanna, eftir að þingi Alþýðusambandsins var lokið, bæði um Kveldúlfsmálið og fleiri mál. Ég skal endurtaka það, sem ég hefi sagt við útvarpsumr., að það voru engin mál rædd til úrslita milli flokkanna nema eitt mál, sem Alþýðusambandsþingið var með, en það var uppgjör togaraflotans og ríkisrekstur togara. Um það sögðum við, að við mundum aldrei eða okkar flokkur um það ræða. Önnur mál voru aldrei rædd til úrslita. Hitt er annað mál, að þótt ekkert af þessum málum, sem nú eru talin hafa valdið samvinnuslitum, komi fram, fyrr en ágreiningur hefir orðið um Kveldúlfsmálið, þá var Alþfl. kunnugt um, að Framsfl. mundi ekki geta fylgt þeim, Ágreiningurinn varð því um Kveldúlfsmálið, það vita allir vel. En svo eftir á, þá telja alþýðuflokksmenn höfuðnauðsyn að sýna á allan hátt fram á, að samvinnan hafi alls ekki strandað vegna ágreiningsins um þetta mikla fjársvikamál. En menn sjá, hvert ósamræmi er hér á milli, þar sem hv. þm. Ísaf. segir annarsvegar, að ég hafi ásamt Framsfl. framið hið versta ódæði með því að vera á móti þessu máli, og hinsvegar eru svo þeir, sem segja, að það hafi alls ekki verið vegna þessarar glæpsamlegu framkomu flokksins, að samvinnuslitin urðu.