19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (1736)

84. mál, sala mjólkur og rjóma o. fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Fyrst þegar frv. það til mjólkurlaga, sem hér liggur fyrir til umræðu, var lagt fram á Alþingi, gerðu stjórnarandstæðingar og blöð þeirra að því hið versta óp. Þau notuðu um það sín uppáhalds ókvæðisorð, eins og það, að hér væri farið fram á „kommúnistiska verðjöfnun“, eins og blaðið Vísir sagði hvað eftir annað, en það munu vera einhver hin sterkustu skammaryrði, sem það getur valið í opinberum málum. Sömuleiðis var því haldið fram, að með þessu frv. væri verið að ráðast á atvinnuréttindi einstakra sveita, og stefnt að því, að eyðileggja bjargræði og byggð í heilum sýslum. Þó að sumir þm. Sjálfstæðisfl. virðist nú vera komnir nokkuð á aðra skoðun í þessu máli, eins og síðar mun komið að, þykir mér þó rétt að reyna ofurlítið á þolrifin í þessum fullyrðingum, því að ennþá er þeim haldið á lofti þar, sem það þykir við eiga, og verða án efa notaðar í kosningabaráttunni þar, sem búast má við, að þær hafi nokkurn hljómgrunn.

Og hver eru nú þessi ákvæði, sem þessi úlfaþytur hefir verið gerður út af? Það er það ákvæði frv., að í stað þess, að í núgildandi lögum er ákvæði um það, að gjalda skuli allt að 8% í verðjöfnunarsjóð af sölu neyzlumjólkur og verja því til verðjöfnunar á vinnslumjólkina, þá er samkv. þessu frv. ekkert ákveðið verðjöfnunarsjóðsgjald, heldur skal það ákveðast á hverjum tíma, með hliðsjón af því, að sama verð sé goldið fyrir alla mjólk, sem búunum á verðjöfnunarsvæðinu berast á sölustað. Með öðrum orðum, að sama verð sé goldið fyrir samskonar vörur á sama sölustað. Það er þetta, sem blaðið Vísir kallar kommúnistiska verðjöfnun.

En mér er spurn: Hvaða fyrirkomulag annað en þetta tíðkast um söluverð á vörum yfirleitt? Tökum t. d. nokkrar aðrar landbúnaðarafurðir, sem seldar eru hér í Reykjavík. Hvernig er það með eggin? Er ekki venjulega sama verð á þeim, hvar sem þau eru framleidd á landinu, og hvað sem þau kunna að hafa kostað framleiðandann? Ég veit ekki betur. Er ekki ákveðið sama jafnaðarverð á samskonar kartöflum á sama tíma hér í Reykjavík, hvaðan sem þær koma, og hvort sem framleiðslukostnaður bóndans hefir verið hár eða lágur? Ég hygg það. Eða kjötið? Það, hefir oft verið deilt um framleiðsluverð þess. Nefnd úr Búnaðarfélagi Íslands, sem reiknaði kostnaðarverð á kíló kjöts hjá nokkrum bændum fyrir árið 1934, komst að þeirri niðurstöðu, að framleiðslukostnaðurinn hefði verið harla misjafn. Lætur nú nokkur sér detta í hug, að sett sé misjafnt verð á þetta kjöt, þegar það er komið á markaðinn hér í Reykjavík til sölu í búðunum, ef þetta er sambærileg vara? Ég býst ekki við því. Nei, góðir tilheyrendur. Það er meginreglan um verðlag allra þessara vara, að það er goldið sama verð fyrir allar samskonar vörur komnar á sölustaðinn. Og það er svo ekki aðeins við landbúnaðarvörurnar, heldur og allar vörur, sem hér eru seldar, útlendar og innlendar, enda hefir slík verðákvörðun ætíð verið eitt grundvallaratriði hinnar frjálsu samkeppni, Þetta er því hákapítalísk verðjöfnun, engu síður en kommúnistisk.

Ég get nú ekki séð, hvaða ástæða er til að krefjast þess, að fylgt sé annari reglu um sölu og verðlag á mjólk en öllum öðrum vörum. Og ég sé ekki, hvernig það ætti að vera framkvæmanlegt, nema þá með því, að gefa einstökum mönnum eða íbúum einstakra héraða með lögum einkaréttindi eða forréttindi um mjólkursölu í bæjunum. Í frjálsri verzlun er það ekki unnt, því að þá verður ekki hindrað, að þeir menn, sem hafa aðstöðu til að framleiða mjólk og flytja óskemmda til bæjanna, komi þangað með hana og selji á gangverði. En hver er sá, sem í alvöru vill leggja það til, að breyta mjólkurskipulaginu í einkaleyfi til handa einstökum héruðum til beztu markaða landsins, og útiloka önnur, þó að þau hafi góða aðstöðu til framleiðslu mjólkur og sölu á sömu mörkuðum? Höfum við ekki við næga erfiðleika að etja vegna innilokunar og haftastefnu stórþjóðanna, sem útiloka okkur Íslendinga að meira eða minna leyti frá mörgum hinna beztu markaða utanlands, þó að við ekki bætum gráu ofan á svart með því að að útiloka landsins eigin börn frá þeim mörkuðum, sem þjóðin sjálf ræður yfir og á og menn hafa viðunandi aðstöðu til að nota. Það væri þá tekin upp ný stefna í afurðasölumálunum, því að þau byggjast fyrst og fremst á viðurkenningunni á því, að framleiðendur eigi jafnan rétt á innlenda markaðnum, eftir því sem þeir hafa aðstöðu til að nota sér hann.

Kjötsöluskipulagið veitir öllum kjötframleiðendum jöfn eða svipuð réttindi til þeirra markaða, sem þjóðin ræður yfir utanlands eða innan, en ákveður verkaskiptingu á milli þeirra um hagnýtingu markaðanna, sem eru misjafnlega góðir, en jafnar svo verðið út eftir á með verðjöfnunarsjóðsgjaldinu. Með mjólkurskipulaginu aftur á móti eru þeim, sem búa innan ákveðins markaðssvæðis, veitt sömu réttindi til þeirra markaða, sem þeir eru búnir að fá aðstöðu til að nota í frjálsri samkeppni, t. d. gegnum auknar vegabætur og bættar samgöngur, stofnun mjólkurbúa og þess háttar. En eins og í kjötsöluskipulaginu, er þar einnig ákveðin verkaskipting á milli mjólkurframleiðendanna um hagnýtingu markaðanna til að forðast sem unnt er glundroða og árekstra, sem annars væru óhjákvæmilegir, öllum framleiðendum til tjóns. Þess vegna var verðjöfnunargjaldið ákveðið, eins og af kjötinu, til að jafna upp verðið eftir á. Um það, hvernig sú verðjöfnun skuli vera, er ekkert sagt í núgildandi lögum, en ég vil fullyrða, að ekkert sé það í lögunum, sem hindri það, að útjöfnunin hefði orðið framkvæmd á þann hátt sem hér segir í þessu frv., vegna þess að mjólkursölunefnd hafi í hendi sér að skipta nýmjólkurmarkaðinum þannig, að þetta hefði tekizt þrátt fyrir takmarkað verðjöfnunarsjóðsgjald. En slíkt fyrirkomulag er óeðlilegra. Hitt er hentugra, að jafna verðið með verðjöfnunarsjóðsgjaldinu, og þó að þetta takmark væri sett á verðjöfnunarsjóðsgjaldið, að það mætti vera allt að 8%, þá vakti það á engan hátt fyrir löggjafanum, að með því og framkvæmd þess ákvæðis skyldi mynda nokkurt forréttindasvæði innan einhverra ákveðinna lína, forréttindasvæði sem héldi óbreyttu verði á sinni framleiðslu, þó að verðlagið félli niður úr öllu valdi á samskonar vörum utan við línuna. Nei, takmörkun verðjöfnunarsjóðsgjaldsins var bundin við það eitt, að eins og þá stóð, var álitið, að það nægði til að ná hæfilegri verðjöfnun á vinnslumjólkina, svo að verðmunur yrði tiltölulega lítill. Og ýmsir háttvirtir stjórnarandstæðingar héldu því þá fram, að gjaldið væri svo hátt, að það nægði til að bæta vinnslumjólkurverðið upp, svo að það yrði hið sama og á sölumjólkinni.

Nú hefir hinsvegar mjólkuraukningin verið svo mikil á vinnslusvæðinu, að sýnilegt er, að sé öllu haldið óbreyttu um verðjöfnunarsjóðsgjaldið, gæti hæglega farið þannig, að verð til framleiðenda utan við sölusvæði Reykjavíkur félli niður í helming í samanburði við verð það, sem er á mjólk innan þess. En skipulag sem er slíkum annmörkum háð, verður vitanlega aldrei þolað til lengdar af þeim, sem fyrir barðinu á því verða, enda væri ekkert réttlæti í slíku. Þess konar fyrirkomulag getur ekki orðið til annars en að skipta framleiðendum í tvo fjandsamlega flokka, er alltaf ættu í erjum hvorir við aðra, í stað þess að standa saman um sameiginlega hagsmuni. En slíkur ágreiningur verður aldrei jafnaður, nema fundinn sé réttlátur grundvöllur í eitt skipti fyrir öll fyrir samvinnu bænda um hinn sameiginlega markað og hlutdeild þeirra í notkun hans. Og ég hefi ekki komið auga á og ekki séð bent á neinn grundvöll undir slíkri samvinnu, sem sé réttlátur og framkvæmanlegur, nema þann, sem hér er lagður til — sama fyrirkomulagið, sem notaður er um þátttöku bænda í markaði allra annara framleiðsluvara.

Í sambandi við umtal það, sem orðið hefir um, að þessi útjöfnun á verðinu þurrki burt allan eðlilegan aðstöðumun á milli framleiðenda, svo sem legu jarðanna, fjarlægð frá sölustað o. fl. þess háttar, og knýi fram mjólkurframleiðslu í þeim sveitum, sem óeðlilegt er, að stundi hana, er rétt að geta þess, að flutningskostnaður á mjólk frá búunum austanfjalls og í Borgarfirði, eftir að bændur eru búnir að kosta flutninginn á mjólkinni þangað, mun vera 3–4 aurar, sem vitanlega kæmi niður á mjólkurverði þeirra. Annars hefir mér talizt svo til, að flutningskostnaðarmunurinn hjá þeim, sem skemmst eiga á markaðinn, og þeim, sem lengst eiga, af þeim, sem nú nota Reykjavíkurmarkaðinn, geti orðið allt að 8 aurum á lítra, þrátt fyrir þá verðjöfnun, sem hér liggur, eða um 200 kr. á kú, miðað við 2500 lítra ársnyt. Og auk þess eiga þeir menn, sem lengst eiga til markaðarins, ætíð á hættu, að mjólk þeirra verði lakari vara, þegar hún kemur á sölustað, heldur en hinna, og verði fyrir sérstöku verðfalli af þeim ástæðum. Og svo kalla menn þetta „kommúnistiska útjöfnun“. Hvílík endemis fjarstæða. Nei, fyrirkomulag þetta er ekki annað en (ég vil segja) lágmarksréttlætiskrafa gagnvart þeim, sem fjær mörkuðunum búa og á annað borð geta komið til greina um að nota þennan markað fyrir mjólkina. Það þekkist heldur hvergi annað fyrirkomulag en þetta hjá þeim þjóðum, sem komið hafa á hjá sér svipaðri skipan á mjólkursölumálunum og hér er. Norðmenn voru fyrstir þjóða til að leysa mjólkursölumál sín á þann hátt, sem nú er hér, og í fótspor þeirra hafa fetað aðrar þær þjóðir, er síðan hafa tekið það upp. Fyrstu árin voru þeir með ofurlitla aukauppbót til þeirra, sem bjuggu næstir sölustöðunum, fram yfir það, sem flutningskostnaði nam. En nú hafa þeir horfið frá því með öllu og tekið upp nákvæmlega sama fyrirkomulag og hér er lagt til.

Og við þurfum ekki að fara til Noregs til að leita fordæmisins. Við þurfum ekki að vitna lengra en til þess mjólkursamlags hér á landi, sem elzt er og lengsta reynslu hefir fyrir sér í þessum málum, Mjólkurfélags Reykjavíkur. Ég hefi nú um 15 ár verið félagi í því sem mjólkurframleiðandi, og um nokkur ár í stjórn þess, svo að mér er vel kunnugt um, hvernig það hefir hagað starfsemi sinni í þessum málum og verðútjöfnun til bænda. Og ég skal segja það strax, að það hefir í þessum málum alla tíð fylgt nákvæmlega sömu reglum og hér er farið fram á að lögfesta fyrir allt verðjöfnunarsvæði Reykjavíkur. Þegar Mjólkurfélag Reykjavíkur fyrst var stofnað, voru félagar þess aðallega framleiðendur í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur og næsta nágrenni, enda var á þeim árum lítið um mjólkursölu í hinum fjarliggjandi sveitum. En svo breyttist þetta smásaman. Eftir að vegirnir út frá Reykjavík lengdust og bötnuðu, samgöngutækin fullkomnuðust og ræktunin jókst, bættust smásaman fleiri og fleiri bændur og fleiri og fleiri sveitir við mjólkurframleiðslu og mjólkursölu. Flestir þessara bænda gerðust meðlimir Mjólkurfélagsins, og ekki leið á löngu, unz flestir hreppar Gullbringu- og Kjósarsýslu höfðu myndað deildir í félaginu. Enda var þessari reglu fylgt, að jafnóðum og einstakir bændur eða einstök sveitarfélög höfðu skapað sér aðstöðu til mjólkursölu í Reykjavík, voru þau tekin inn í félagið sem löglegir aðiljar, enda var félagið opið eins og önnur samvinnufélög. En samtímis gerðist hitt, að flestir mjólkurframleiðendur í Reykjavík, og margir úr næsta nágrenni, hurfu úr félaginu og seldu mjólk sína utan við það, annaðhvort beint eða til einstakra kaupmanna. Bæði var það, að þeir vildu nota aðstöðu sína til sem beinastrar og kostnaðarminnstrar sölu, eins og mannlegt má teljast, og þeir gátu það mætavel í skjóli félagsins, sem þá kom á föstu skipulagi á mjólkursölunni, eftir því sem það hafði aðstöðu til, og varnaði því verðfalli og glundroða á markaðnum, sem ella hefði orðið, ef mjólkinni hefði verið velt inn á hann samtakalaust af bændanna hálfu. Þessarar starfsemi félagsins gátu framleiðendur í bænum notið, án þess að leggja á sig þann kostnað, sem af því hlaut að leiða. En svo í annan stað litu þessir menn hina síauknu þátttöku bændanna í mjólkurframleiðslunni hornauga, einkum eftir að þrengjast fór á markaðnum, sem þeir þóttust eiga. Hófst nú um tíma þrálát og á stundum allillkynjuð samkeppni um markaðinn á milli heimamanna og utanfélagsmanna annarsvegar og Mjólkurfélagsins fyrir hönd bændanna hinsvegar. Félagið kom sér upp gerilsneyðingar- og mjólkurvinnslustöð til þess að bæta aðstöðu hinna dreifðu bænda í sveitum út frá Reykjavík í þessari samkeppni.

Og hverri reglu fylgdi svo félagið um verðlag á mjólk hinna einstöku félagsmanna sinna? Það fylgdi, eins og ég sagði áðan, nákvæmlega sömu reglu og farið er fram á að lögfesta í þessu frv. Þeir fengu allir sama verð fyrir samskonar vöru, komna á sölustað. Þó að fjölgun félagsmanna og stækkun félagssvæðisins hefði óhjákvæmilega þær afleiðingar í för með sér, að meira færi í vinnslu hjá félaginu en öðrum, og ylli þannig verðfellingu á mjólkinni, þá var það látið ganga jafnt yfir alla. Og þó að oft væri unnið úr meginhlutanum af mjólk þeirra félagsmanna, sem fjarst bjuggu, en selt frá hinum, sem nær voru markaðinum, þá voru hinir fjarliggjandi ekki látnir gjalda þess, þeir fengu sama verð og hinir, að því einu undanteknu, sem þeir urðu að greiða hærra flutningsgjald. Þessari reglu hefir félagið alltaf fylgt, og þessari reglu fylgir það enn. Og þó nær félagssvæði þess nú langt fram á Reykjanes, upp í Kjós og upp í Borgarfjarðarsýslu, Hvalfjarðarströnd, Leirár- og Melasveit og víðar.

Ég verð nú að segja það, að ég er dálítið undrandi á því, að menn, sem fyrstir hafa innleitt og framkvæmt hér á landi þessa verðjöfnunaraðferð, sem hér á að lögleiða, skuli verða ókvæða við, þegar á að fara að framfylgja þessari reglu þeirra gagnvart öðrum bændum með sömu aðstöðu, þó að þeir eigi að heita utan við hið svokallaða félagssvæði þeirra sjálfra. Hafa þeir nú allt í einu fundið einhverja heilaga sérréttindalínu, sem ekki megi hagga? Línu, þar sem fyrsta flokks menn séu öðru megin við, en annars eða þriðja flokks menn hinu megin? Það væri ekki úr vegi að athuga þessa línu ofurlítið og sjá, hvað það er, sem gefur henni sérstakt gildi.

Það eru einkum þrjár ástæður, sem fram eru færðar af málsvörum forréttindamanna fyrir því, að þeir eigi að fá hærra verð á markaðinum en aðrir.

1. Að hinar nærliggjandi sveitir eigi forgangsrétt á markaðinn og beri því að sitja að honum.

2. Að framleiðslan á núverandi neyzlumjólkursölusvæði sé kostnaðarmeiri en í fjarlægari sveitum; því verði þeir framleiðendur, sem nær búa, að fá hærra verð. Og

3. að núverandi neyzlumjólkursölusvæði sé færara um að tryggja Reykjavík mjólk, þegar snjóa leggi mjög og leiðir lokist sökum ófærða; þess vegna sé það réttmætt, að þær njóti hærra verðs.

Það er nú rétt að athuga allar þessar ástæður með tilliti til þess svæðis, sem nú er heimtuð sérstaða til handa. Tökum þá vegalengdina fyrst. Við þá athugun kemur í ljós:

1. að vegalengdin frá Reykjavík á sölusvæðið í Kjósinni er 50–60 kílómetrar og á sölusvæðið í Borgarfjarðarsýslu sjóveg og landveg litlu skemmra, en bæði þessi svæði liggja innan mjólkursölulínunnar núverandi, en það er svipuð vegalengd og austur í Ölfus, sem þó liggur utan þessarar línu.

2. Vegalengdin frá Reykjavík fram á Reykjanes, sem er á sölusvæði M. R. og innan við þessa hugsuðu sérréttindalínu, er 60–70 km, eða eins og frá Reykjavík austur yfir Ölfusá, austur í Flóa og upp í Borgarnes sjóleiðina og 20 kílómetra upp í héraðið, en báðir þessir staðir, Flóinn og upp-Borgarfjörður, liggja langt utan við hið svokallaða sölusvæði Reykjavíkur. Það er því sýnt, að vegalengdin löghelgar ekki þessa línu, sem nú liggur um mjólkursölusvæðið.

Þá er það framleiðslukostnaðurinn. Það er að vísu nokkuð mikill vandi að meta hann í einstökum tilfellum. En hitt má þó óhikað segja, að í Kjósinni, sem liggur innan áður nefndrar línu, er gróðursæld og landgæði, sem fyllilega jafnast á við það, sem bezt gerist, bæði austanfjalls og uppi í Borgarfirði, sem hvorutveggja liggur utan við þessa sömu línu, svo að óhætt er að fullyrða, að framleiðslukostnaðurinn hafi ekki verið lagður til grundvallar fyrir sérréttindakröfu alls þessa svæðis.

Þá skal ég taka þriðju ástæðuna, að þetta svæði tryggi Reykjavík gegn mjólkurskorti betur en þau svæði, sem eru utan við línuna, og að af þeim ástæðum beri því aukin réttindi fram yfir hin. Og skal ég þegar viðurkenna það, að innan þessa svæðis eru sveitir, sem öðrum fremur ná til markaðarins, þegar samgöngur teppast vegna snjólaga. En það verður á engan hátt sagt um allt þetta svæði. Það kom m. a. þráfaldlega fyrir síðastl. vetur, að bændur á félagssvæði M. R. í Kjós og á Hvalfjarðarströnd urðu að brjótast með mjólk sína á sleðum skemmstu leið til sjávar og senda síðan mótorbáta eftir henni upp í Hvalfjörð. En þá mátti allt eins vel ná mjólkinni ofan úr Borgarnesi, sem og var gert. Enda er engu lakari aðstaða til að flytja mjólk úr Borgarfirði með þeim samgöngum, sem þar eru nú, en á mótorbátum ofan úr Hvalfirði, og ég vil segja víðast af mjólkursölusvæði Reykjavíkur. Þetta atriði nægir því ekki heldur sem fullgild ástæða fyrir sérréttindum fyrir félagssvæði Mjólkurfélagsins eftir þeirri línu, sem afmarkar það nú. Ég held yfirleitt ekki, að það finnist nokkur frambærileg rök, þótt leitað sé með logandi ljósi, fyrir því, að það svæði, sem nú undanfarið hefir annazt aðalmjólkursöluna í bænum, eigi nokkra kröfu til sérréttinda á mjólkurmarkaðnum fram yfir önnur á verðjöfnunarsvæðinu, eða geti átt heimtingu á hærra verði að öðru leyti en því, ef þeir geta skilað þangað betri vöru, sem samkvæmt máli lendir í hærri verðflokki, og komið henni á markaðinn með minni tilkostnaði; þá standa allir jafnt að vígi, eftir því sem aðstaðan leyfir, og það er hið eina fyrirkomulag, sem teljast verður réttlátt og er framkvæmanlegt, og það fyrirkomulag eitt er þess megnugt, að skapa frið og sameiningu bændanna í þessu mikilsverða máli. Og þó að framleiðendum innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur séu ætluð nokkur sérréttindi samkv. frv. þessu, þá álít ég, að það byggist meir á því, að það kunni að þykja nauðsynlegt fyrirkomulag vegna framkvæmda málsins, en hinu, að það byggist á nokkru sérstöku réttlæti. En það er annað í þessu sambandi, sem menn tala um og blanda saman við umræðurnar um mjólkurskipulagið, og það er þetta: Mjólkurframleiðendur í nágrannasveitum Reykjavíkur verða að fá a. m. k. það verð, sem þeir hafa nú fyrir mjólk sína, ef þeir eiga að geta látið búin bera sig. Þetta skal ég fyllilega játa, enda er mér kunnugt um það, og efa jafnvel, að þeir geti allir staðið straum af lánum þeim, sem á búunum hvíla, þó að verðið lækki ekki neitt. En þetta er bara mál út af fyrir sig og alls ekki sérmál þeirra. Eða geta menn ekki látið sér detta í hug, að sú aðstaða geti einnig myndazt, og sé jafnvel fyrir hendi líka meðal bænda, sem búa utan þess sölusvæðis, sem nú annast einkum mjólkursölu til Reykjavíkur? Getur mönnum ekki dottið í hug, að bændur, sem láta mjólk sína til vinnslubúanna, geti einnig komizt í greiðsluþrot, ef mjólk þeirra héldi áfram að falla, svo að þeir fái ekki nema 12–15 aura fyrir lítrann, eins og fyllsta ástæða er til að ætla, ef engar breytingar eru á gerðar, frá því sem nú er? Og eiga þeir bændur ekki líka kröfu að hagsmuna þeirra sé einnig gætt? Ég heyri suma segja, að þeir séu ekki bundnir við mjólkurframleiðsluna eina, og geti farið inn á aðrar framleiðslugreinar, ef mjólkurframleiðslan ekki ber sig. En það má segja nákvæmlega hið sama um marga af bændum þeim, sem búa á núverandi mjólkursölusvæði Reykjavíkur. Sú yfirvofandi hætta, sem stendur fyrir dyrum um verðfall á mjólk og mjólkurafurðum, er því sameiginlegt mál allra mjólkurframleiðenda, og þarfnast athugana og úrlausnar fyrir þá alla, en ekki aðeins nokkurn hluta þeirra. Og það mál hefir verið mjög til athugunar innan Framsfl. og ríkisstj. Það, sem komið hefir til athugunar í þeim efnum, er t. d. nýir og auknir markaðir fyrir mjólkurvörur, svo sem með framleiðslu þurrmjólkur til venjulegrar notkunar, í súkkulaði o. þ. h. og til blöndunar í brauð. Sömuleiðis aukin íblöndun smjörs í smjörlíki. Einnig hefir verið athugað um leiðir til að afla verðjöfnunarsjóði aukinna tekna, t. d. með nokkrum skatti á aðflutt kjarnfóður, eða með því að láta alla smásölu á smjöri og smjörlíki falla undir mjólkursamsöluna, sem að ýmsu leyti væri hentugt. Allt þetta og fleira hefir komið til athugunar, og um sumt af þessu hefðu komið fram frv. á þinginu, ef það hefði reynzt fært um afgreiðslu mála yfirleitt. Og vitanlega verður að halda áfram að leita að öllum þeim leiðum, sem hugsanlegar eru til að draga úr yfirvofandi verðfalli á þessum framleiðsluvörum yfirleitt. En það getur vel farið svo, að ekki sé unnt að hindra áframhaldandi offramleiðslu og því samhliða verðfall mjólkurinnar á annan hátt en þann, að bændur dragi nokkuð úr framleiðslu þessarar vöru og fari inn á aðrar greinar framleiðslunnar. En ég sé engin ráð til þess að koma framleiðslunni inn á önnur svið á annan hátt en þann, að bændur finni það að önnur framleiðsla beri sig betur, og það kemur af sjálfu sér gegnum það verðfall, sem ómótstæðilega hlýtur að kom niður á verði þeirrar vöru, sem að meira eða minna leyti er óseljanleg eða lítt seljanleg vegna offramleiðslu. En ég álít ekki unnt að komast hjá því, að sá þungi, sem á að valda því, að dregið verði úr framleiðslunni, komi hlutfallslega jafnt niður á alla mjólkurframleiðendur, hvar sem þeir búa, enda munu þeir þá fyrst hverfa frá þeirri framleiðslu, sem bezt hafa skilyrðin til að taka upp aðrar verðmeiri framleiðslugreinir. Ég skal játa það, að í nágrenni Reykjavíkur eru ýmsar jarðir, sem örðugt er að láta aðra kvikfjárrækt bera sig á en nautgriparækt til mjólkurframleiðslu, auk loðdýraræktar, sem allsstaðar má koma við. En ég hygg, að bændur þeir, er á þessum jörðum búa, hafi verið um of tómlátir með að athuga möguleika á aukinni kartöflurækt og annari garðrækt, því að hvergi ætti að vera hentugra að reka hana en við hliðina á aðalmarkaðsstað landsins. En geta menn ekki hugsað sér bændur utan sölusvæðis Reykjavíkur, sem einnig hafi í önnur hús að venda en til mjólkurframleiðslunnar? Hvað segja menn t. d. um þá bændur í Borgarfirði og víðar, sem hafa misst allan sauðfénað sinn og eru að missa hann, í neyð sinni grípa til mjólkurframleiðslunnar sem hins eina hálmstrás, er geti haldið þeim uppi í lífsbaráttunni, a. m. k. á meðan þessi alda er að ríða yfir. Á það að vera hjálp þjóðfélagsins þeim til handa, að loka þá að nokkru eða öllu leyti úti af bezta markaði í landinu með þeirra einu eða aðalframleiðsluvöru, mjólkina? Nei, það er sama hvaða hliðar eru skoðaðar á þessu máli; það finnst engin ástæða sem réttlæti það, að eitt svæði frekar öðru fái sérréttindi til að hafa aðgang að mjólkurmarkaðinum í þeim héruðum, sem fyrir aðstoð þjóðfélagsins eða á annan hátt hafa náð aðstöðu til að nota hann framyfir það, sem takmarkast af legu þeirra og öðrum eðlilegum ástæðum.

Út af því, sem ég minntist á áður um fjárhagsástæður ýmsra bænda í nærsveitum Reykjavíkur, vil ég segja þetta: Það er alveg rétt, að ýmsir þeirra þola ekki verðlækkun á mjólk frá því, sem nú er, ef þeir eiga að geta staðið undir þeim skuldum, sem á jörðum þeirra hvíla, og vafasamt, að þeir gætu það, þó að mjólkurverðið héldist óbreytt. En þetta ástand hefir ekki skapazt vegna mjólkurlaganna og áhrifa þeirra, heldur væri réttara að orða það svo, að það hefði skapazt þrátt fyrir mjólkurlögin og áhrif þeirra, því að það er alveg vafalaust, að hefðu mjólkurlögin ekki komið né skipulag það, sem nú er á mjólkursölunni, þá væri mjólkurmálið hér í Reykjavík nú orðinn hreinn og beinn óskapnaður. Það þarf ekki að leiða neinar getur að því, að með þeirri mjólkuraukningu, sem verið hefir undanfarin ár í þeim sveitum, sem ná til mjólkurmarkaðarins í Reykjavík, og af því orsakaðist, hefði hlotið að enda í takmarkalitlu verðhruni á mjólkurmarkaðinum, ef sölunni hefði ekki verið haldið í skipulagsskefjum. Og það verðhrun hefði komið niður á öllum mjólkurframleiðendum, ekki aðeins í fjarsveitunum, heldur einnig meðal þeirra, sem næst mörkuðunum búa. Þessu hefir verið forðað. En hitt er augljóst mál, að hin mikla offramleiðsla, sem orðin er á mjólk á þessu svæði, hlýtur fyrr eða síðar að gera vart við sig á þann hátt, að verðið til framleiðenda lækki, hversu fullkomið sem söluskipulagið væri (nema máske ef ríkissjóður væri látinn greiða hallann, en að því mun ég koma síðar). En verðlækkunin er sennilega eina lækningin, sem dugir, gegn offramleiðslunni, hér eins og annarsstaðar. Og ég hefi fært rök að því áður, að það er ekki stætt með það, að láta þessa verðlækkun aðeins ná til nokkurra af mjólkurframleiðendum. Hún hlýtur að koma niður á öllum mjólkurframleiðendum hlutfallslega. Í öðru væri ekkert réttlæti. En það er á annan hátt, sem ég álít, að margir bændur í nærsveitum Reykjavíkur hafi orðið fyrir ranglæti. Og það er í sambandi við skuldaskil þeirra í kreppulánasjóði. Margir þeirra bænda hafa ræktað og bætt jarðir sínar á undanförnum árum meir en flestir aðrir bændur landsins. Allar þessar umbætur hafa orðið mjög dýrar, í fyrsta lagi vegna þess, að þær hafa að mestu verið framkvæmdar á dýrtíðarárunum eftir stríðið og framundir kreppuárin upp úr árinu 1930, og í öðru lagi vegna þess, að mörg af þessum löndum voru léleg og urðu dýr í ræktun. En ræktun þeirra byggðist á hinu háa mjólkurverði, sem var í Reykjavík á þeim árum, og þörf bæjarins fyrir aukna mjólk, eins og þá stóð. Það hefir því orðið tvennskonar verðhrun á eignum viðkomandi bænda. Fyrst það, sem stafaði af hinni almennu verðlækkun í landinu, sem orðið hefir á síðari tímum, og svo ennfremur vegna hinnar sérstöku verðlækkunar á þessu tímabili, sem orsakazt hefir af hinni miklu mjólkuraukningu á Reykjavíkurmarkaðinum á mörgum undanförnum árum, en sú verðlækkun er svo mikil, að engin önnur atvinnugrein landsmanna hefir orðið fyrir neitt svipaðri verðlækkun þetta tímabil. Þetta stórkostlega verðhrun, sem þessir bændur hafa orðið fyrir, átti vitanlega að bæta þeim í gegnum skuldaskil þeirra í kreppulánasjóði, svo að þeir væru færir um að reka búskap sinn áfram á heilbrigðum grundvelli, eins og aðrir bændur, sem þessarar aðstoðar nutu. En þetta mistókst í mörgum tilfellum. Og ástæðan til þess var sú, að menn voru þá ekki almennt farnir að átta sig á því, jafnvel ekki bændurnir sjálfir, og þó sízt skuldheimtumennirnir, að sérstaða þessara bænda, sem þeir áður höfðu haft gagnvart mjólkurmarkaðinum, var þá þegar að miklu leyti þurrkuð burt, var áframhaldandi að þurrkast burt og hlaut að þurrkast burt að mestu á næstu árum vegna aukinna samgangna til fjarlægari góðsveita, nýrra mjólkurbúa og fleira. Það var því svo um marga þessa menn, að þeir fengu ekki þau skuldaskil, sem sjóðstjórn lagði til og þeim var nauðsynleg. Skuldheimtumennirnir neituðu, og bændurnir neyddust til að láta meta eignir sínar upp með hækkuðu verði til þess að fá lánin hækkuð, annars hefðu þeir verið felldir frá skuldaskilum, sem þýddi það, að jarðir þeirra hefðu verið seldar og þeir orðið að hrökklast burtu. Af þessu súpa þeir seyði nú. Það er þetta ranglæti, sem ég tel að eigi og verði að bæta þeim nú. Og það er sjálfsagt að gera það einmitt nú um leið og framtíðarskipun er gerð um fyrirkomulag mjólkurmálsins og hið raunverulega ástand er komið í ljós.

Ég hefi nú reynt að athuga eins margar hliðar á þessu mikla vandamáli eins og mér hefir verið unnt á þessum stutta tíma, og athuga sem flestar af þeim mótbárum, sem ég hefi heyrt færðar gegn þessari nýju skipan, sem hér er lögð til. Og mér virðist allar þær mótbárur, sem fram eru fluttar gegn því, ýmist mjög léttvægar eða þá hreinar og beinar fjarstæður. Og ég er sannfærður um, að því meir sem menn hugsa þessi mál, því betur sjái þeir, að hér getur ekki verið að ræða um annað skipulag á þessum málum til frambúðar en þetta, sem hér er lagt til. Og ég hefi fulla ástæðu til að vera vongóður um, að þessi málstaður sigri nú, vegna þess, hver breyting hefir orðið á afstöðu Sjálfstæðisfl. til þess þessar fáu vikur, sem það hefir legið frammi í þinginu. Þegar það var hér til 1. umr., risu hv. stjórnarandstæðingar úr sætum sínum hver af öðrum og fordæmdu stefnu þess með þeim sterkustu orðum, og blöð flokksins fordæmdu það, eins og að hér væri eitthvað ódæði á ferðinni. En nú bera stjórnarandstæðingar í Ed. fram frv. um breytingu á mjólkurlögunum, sem í aðalatriðum er nákvæmlega hið sama og í þessu frv. Þar eru m. a. tekin upp svo að segja orðrétt ákvæði þessa frv. um hina „kommúnistisku“ verðjöfnun, sem Vísir minnist á á dögunum. Og nú taka fulltrúar flokksins í landbn. Nd. þá afstöðu til þessa máls, að þeir muni fylgja því í sama formi og efrideildarfrumvarpið er fært í. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta mikill sigur, að svo komnu, og óvæntur. Ég vil a. m. k. gera ráð fyrir því, að þessi nýja afstaða Sjálfstfl. til málsins byggist á því, að augu hinna gætnu og sanngjarnari manna flokksins hafi opnazt fyrir því, að hér er á ferðum rétt mál, sem varhugavert væri að leggjast á móti, en ekki af því, að hann hugsi sér hér, eins og stundum áður, að „gott sé að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri“. Eitt við bændur, sem standa að vinnslubúunum og vilja láta gæta réttar síns þar, og annað við þá, sem búa á mjólkursölusvæði Reykjavíkur og álíta, að með frv. þessu sé gengið á þeirra rétt. Ég ætla að vona það. Annars mun ég ekki fara langt út í það mál, það verður athugað af öðrum, það er aðeins eitt atriði þessa frv. stjórnarandstæðinga, sem ég vildi lítilsháttar drepa á og ekki er í þessu frv. Það er það ákvæði, að ríkissjóður skuli greiða í verðjöfnunarsjóð það, sem á vantar á hverjum tíma, til þess að hægt sé að greiða fyrir vinnslumjólkina sama verð, eða því næst, og greitt er fyrir sölumjólkina. Það má vel vera, að bændum þyki það nokkurt fagnaðarefni, að geta hugsað til þess, að þeir geti áhyggjulausir haldið áfram að auka mjólkurframleiðslu sína án tillits til þess, hvort nokkrar líkur eru til þess, að unnt verði að selja hana í einhverju formi fyrir verð, sem nokkuð nálgast framleiðslukostnað, því að ríkið greiði það, sem á vantar. Og því skyldi þá ekki líka vera tekin upp sama regla um greiðslu fyrir kjöt, garðávexti og aðrar landbúnaðarvörur. En einhverjir kynnu að spyrja, hver borgaði brúsann. En mér finnst þetta ákvæði frv. minna nokkuð mikið á ýms þau frv., sem hv. alþýðuflokksmenn hafa verið að bera fram í þinginu nú undanfarið og gera ráð fyrir því, að ríkið standi að nokkru leyti á bak við rekstur togaranna og greiði þann halla, sum af útgerð þeirra kynni að leiða. Það getur vitanlega á sama hátt verið næsta heillandi fyrir sjómenn, að hugsa til þess að geta haldið atvinnu sinni viðstöðulaust, án þess að vera knúðir til að leggja verulega að sér í því skyni, að láta útgerðina bera sig, vegna vissunnar um, að ríkið greiði tekjuhallann. En ég geri ekki ráð fyrir því, að Framsfl. hafi mikla trú á úrræðum eins og þessum. Hans stefna er sú, að þjóðfélagið veiti atvinnuvegunum þann einan stuðning, sem geri þeim fært að bera sjálfir sinn eigin rekstrarkostnað. En það virðist eiga að geta orðið samvinna á milli Sjálfstfl. og Alþfl. um lausn þessara mála í heild. Ég veit ekki, hvernig sú samvinna yrði, en ég gæti hugsað mér hana þannig, að Alþfl. beitti sér fyrir því, að sjómenn tækju að sér að greiða rekstrarhallann fyrir bændurna, og svo beitti Sjálfstfl. sér fyrir því, að bændurnir greiddu rekstrarhallann fyrir sjómennina, og virðist þessu þá öllu vera sæmilega fyrir komið í bili. Hitt er svo aftur annað mál, hversu lengi slík sjálfhreyfivél væri fær um að halda þjóðfélaginu á floti.

Ég fer þá að ljúka máli mínu, og vil að síðustu segja þetta: Sú togstreita, sem nú undanfarið hefir verið á milli bændanna innbyrðis um mjólkurmarkaðinn í Reykjavík, og fjandskapurinn á milli þeirra vegna þeirrar togstreitu, er þegar orðin algerlega óþolandi og öllum hlutaðeigendum til leiðinda og tjóns. Þeim verður að skiljast, að það er sameiginlegt nauðsynjamál þeirra allra að nota hann þannig, að þeir fái í heild sem mest út úr því, sem neytendurnir á hverjum tíma greiða fyrir þessa framleiðslu þeirra. En þetta getur því aðeins orðið, að þeir vinni bróðurlega saman um verkaskiptingu í vöruverkun og sölu afurðanna. En það getur því aðeins orðið, að fundinn sé réttlátur grundvöllur að skiptingu hins sameiginlega markaðar á milli hins mikla fjölda einstakra framleiðenda. Og ég fyrir mitt leyti hefi ekki komið auga á, og ekki orðið var við, að bent væri á nokkurn grundvöll undir slíkri samvinnu annan en þann, sem hér er lagður til, sem er sama fyrirkomulagið og notað er um þátttöku bænda í markaði allra annara framleiðsluvara, að þeir fái allir sama verð fyrir samskonar vöru á sama sölustað.